FréttirGAMMA stendur fyrir útgáfu bókar um framfarir

24.10.2017 Samfélagsmál Starfsemi Útgáfa

Bókin Framfarir eftir sænska sagnfræðinginn Johan Norberg er komin út í íslenskri þýðingu á vegum GAMMA og Almenna bókafélagsins.

GAMMA Capital Management hefur, í samstarfi við Almenna bókafélagið, gefið út bókina Framfarir (e. Progress) eftir sænska sagnfræðinginn og sjónvarpsmanninn Johan Norberg. Í bókinni er farið skipulega yfir hvernig líf mannsins hefur aldrei verið betra en nú til dags.

Daglega dynja á okkur fréttir af eymd, þrengingum, sjúkdómum, átökum, mengun og öðrum hamförum. Þetta á ekki síst við í umræðum á vettvangi stjórnmálanna, hvar sem er í heiminum, þar sem gjarnan er dregin upp dökk mynd af stöðu fólks og oftar en ekki vísað til fortíðar til að benda á dæmi um ástand þegar allt átti að vera betra.

Johan Norberg segir aðra sögu og styður hana með margvíslegum staðreyndum. Fátækt hefur minnkað stórkostlega í heiminum, heilsufar snarbatnað, ofbeldi minnkar, stríðsátökum fækkar, vísindi og tækni hafa gert okkur kleift að bæta umhverfið og verjast hamförum og þannig mætti áfram telja. Á sviði stjórnmála leiddi upplýsingin til klassísks frjálslyndis og fljótt á eftir hófst iðnbylting nítjándu aldar þegar iðnframleiðsla margfaldaðist og maðurinn fór að sigrast á fátækt og hungri. Með alþjóðavæðingu tuttugustu aldar endurtók þetta sig í enn meira mæli af meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Samhliða þessu jókst hreinlæti, matvælaframleiðsla tók framförum sem og menntun, læsi og síðast en ekki síst frelsi og lýðræði. Þótt enn finnist ýmislegt bölið, hefur mannkynið fulla ástæðu til að horfa björtum augum fram á veg.

„Allt er þetta árangur stöðugrar og sjálfsprottinnar þróunar manna sem fengu frelsi til að lifa lífinu á eigin forsendum og bæta heiminn. Þetta eru framfarir sem enginn leiðtogi, stofnun eða ríkisstjórn getur miðstýrt með opinberum tilskipunum,“ segir í bók Norberg.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar stóð Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands fyrir fundi í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands á mánudag. Johan Norberg var frummælandi á fundinum, kynnti þar bók sína og hitti að því loknu Gísla Hauksson, stjórnarformann GAMMA.

Bókin er nú komin í sölu í almennum bókaverslunum og hjá Almennabókafélaginu. Einnig er hægt að kaupa eintak með því að senda tölvupóst á gamma(at)gamma.is

Screen-Shot-2017-10-24-at-18.05.33

Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA og Johan Norberg höfundur Framfara.

Senda grein