FréttirGAMMA Reykjavíkurskákmótið áfram í Hörpu til ársins 2021

14.3.2018 Samfélagsmál

GAMMA verður aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu árin 2019-21. Það var tilkynnt við upphaf áttundu og næstsíðustu umferð mótsins í gær.

Það samkomulag staðfestu Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands og Agnar Tómas Möller frá GAMMA. Að því loknu lék Agnar Tómas fyrsta leiknum í skák indverska stórmeistarans Baskaran Adhiban og ungverska stórmeistarans Richard Rapport.

Gunnar Björnsson segist fagna áframhaldandi samstarfi við GAMMA um alþjóðlegu Reykjavíkurskákmótin fram til ársins 2021.

„Við höfum starfað með GAMMA frá árinu 2014 og síðan þá hefur mótið í senn vaxið og dafnað. Áherslur GAMMA á fagmennsku og árangur falla vel að framtíðarsýn Skáksambandsins sem væntir góðs af áframhaldandi samstarfi við GAMMA.“

Agnar Tómas segir mjög jákvætt að GAMMA geti áfram stutt við Reykjavíkurskákmótið næstu árin.

„Það er mikilvægt að Reykjavíkurskákmótið haldi áfram að vaxa bæði að vegleika og styrkleika. Mótið er kjölfesta í íslensku skáklífi og ýtir undir grjósku í skákinni. Fyrirkomulag mótsins höfðar vel til almennings sem vill fylgjast með spennandi einvígum og fjölmargir íslenskir skákmenn fá að spreyta sig gegn sterkum erlendum keppendum. Það mun skila öflugra skáklífi þegar fram í sækir,“ segir Agnar Tómas.

Karitas Kjartansdóttir frá Hörpu segist fagna því mjög að hafa skákina áfram í Hörpu en um afar ánægjulegt og gott samstarf er að ræða. „Reykjavíkurskákmótið er einn elsti viðburðurinn í Hörpu og sýnir vel hve viðburðirnir hér eru fölbreyttir, ár eftir ár. Það hefur verið ánægjulegt að sjá hversu gott skákmönnunum finnst að tefla í Hörpu.“

GAMMA Reykjavíkurskákmótið er eitt vinsælasta alþjóðlega skákmót heims og hefur undanfarin ár iðulega verið í efstu sætum í kosningum á meðal atvinnuskákmanna um besta opna skákmót heims.  Nú er í gangi lokaumferð 33. Reykjavíkurskákmótsins. 

Screen-Shot-2018-03-14-at-14.45.47Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA og Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands.

Senda grein