GAMMA Reykjavíkurskákmótið 2019
Reykjavíkurskákmót
GAMMA Reykjavíkurskákmótið hefst á mánudaginn og teflt er til minningar um Stefán Kristjánsson. Fimm íslenskir stórmeistarar taka þátt og setja undrabörn svip sinn á mótið.
Reykjavíkurskákmótið
2019 fer fram í Hörpu dagana 8.-16.
apríl næstkomandi. Mótið verður að þessu sinni tileinkað minningu Stefáns Kristjánssonar stórmeistara,
sem lést fyrir aldur fram í fyrra.
Sérstakur heiðursgestur mótsins er nýr forseti FIDE, hinn rússneski Arkady Dvorkovich. Sá var um tíma aðstoðarforsætisráðherra Rússlands og var formaður undirbúningsnefndar um HM í fótbolta í Rússlandi í fyrra.
Um 250 manns frá 40 löndum eru skráðir til leiks á mótið og þar af eru 33 stórmeistarar. Fjórir íslenskir stórmeistarar taka þátt. Það eru Hjörvar Steinn Grétarsson, stigahæsti skákmaður landsins, Hannes Hlífar Stefánsson, sigursælasti keppandinn í sögu í Reykjavíkurskákmótanna, Jóhann Hjartarson, sem hefur náð lengst allra íslenskra skákmanna á heimsvísu ásamt Friðriki Ólafssyni og nýjasti stórmeistari okkar Íslendinga Bragi Þorfinnsson. Stórmeistari kvenna, Lenka Ptácníková, fer fremst í heimavarnarliði íslenskra skákkvenna.
Stigahæstur keppenda er enski stórmeistarinn Gawain Jones. Næststigahæstur keppenda er hinn sænski Nils Grandelius.
Í 3.-4. sæti á stigalista mótsins eru Íranarnir Parham Maghsoodloo, heimsmeistari 20 ára og yngri og Alireza Firouzja. Menn skula leggja þessi nöfn á minnið en sá síðarnefndi, sem er aðeins 16 ára, er framtíðarheimsmeistaraefni að mati Íslandsvinarins Ivans Sokolovs.
Indverska undrabarnið Dommaraju Gukesh teflir í fyrsta skipti á Reykjavíkurskákmóti. Í janúar síðastliðnum varð hann næstyngsti stórmeistari sögunnar, 12 ára, 7 mánaða og 17 daga. Aðeins Sergey Karjakin varð stórmeistari yngri.
Margar eftirtektar skákkonur taka þátt. Þeirra kunnust hérlendis er án efa hin indverska Tanja Sachdev sem sló eftirminnilega í gegn árið 2016. Rétt er að vekja athygli á þátttöku Dinara Saduakassova frá Kasakstan og Rameshbabu Vaisili frá Indlandi. Báðar eru þær margfaldir heimsmeistarar í yngri flokkum. Margar ungar og íslensnkar skákkonur setja svip sinn á mótið.
Mótið er afar mikilvægt fyrir íslenskt skáklíf og hefur verið flaggskip þess síðan framsýnir menn héldu fyrsta Reykjavíkurskákmótið í Lídó árið 1964. Mótið er afar vinsælt og hátt skrifað úti í hinum stóra heimi og hefur síðustu ár lent í 2.-4. sæti yfir besta opna skákmót heims í vali atvinnuskákmanna.
Veislan hefst á mánudaginn kl. 15. Bæði forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra verða viðstödd setningu mótsins.