Fréttir



  • Reykjavíkurskákmót GAMMA

GAMMA Reykjavíkurskákmótið 2017 hefst á miðvikudag

18.4.2017 Samfélagsmál

Fjármálaráðherra teflir við helstu stjörnu Reykjavíkurskákmótsins, Anish Giri, í klukkufjöltefli sem haldið er í Gallerý GAMMA í dag.

Setning GAMMA Reykjavíkurskákmótsins verður á morgun miðvikudaginn 19. apríl kl 14:30 í Hörpu og í kjölfarið hefst fyrsta umferð mótsins kl 15:00. Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótið nú er það sterkasta og fjölmennasta í 53 ára sögu mótsins. Alls er um 280 keppendur skráðir til leiks frá um 45 löndum. Þar af eru 35 stórmeistarar og hafa aldrei verið fleiri.

Umferðir hefjast yfirleitt kl. 15. Boðið verður upp á skákskýringar alla daga í Hörpu og hefjast þær um tveimur tímum eftir upphaf umferðar eða um kl. 17. Um skákskýringar sjá okkar fremstu skákmenn af þeim sem ekki taka þátt í mótinu að þessu sinni. 

Skak4

Upphitun - fjármálaráðherra teflir við stjörnu mótsins

Upphitun fyrir Reykjavíkurmótsveislan hefst í höfuðstöðvum GAMMA, Garðastræti 37, í dag þriðjudaginn 18. apríl kl. 13:00. Þá teflir ofurstórmeistarinn Anish Giri, helsta stjarna Reykjavíkurskákmótsins, klukkufjöltefli við 10-12 skákmenn. Meðal andstæðinga hans þar verður fjármálaráðherrann Benedikt Jóhannesson en ráðherrann var um skeið meðal efnilegustu skákmanna landsins áður en önnur hugðarefni tóku við. Friðrik Ólafsson, fyrrverandi forseti FIDE, mun vera viðstaddur og leika fyrsta leik fjölteflisins.

Andstæðingar Giri í fjölteflinu verða engin lömb að leika sér við. Elstur þeirra verður Gunnar Gunnarsson, 83 ára, fyrrum Íslandsmeistari í skák (árið 1966) og fótbolta með Val (árið 1956). Þá munu landsliðskonurnar Guðlaugu Þorsteinsdóttur og Nansý Davíðsdóttur meðal annars etja kappi við Giri. Áhorfendur eru velkomnir að fylgjast með.

 

Ofurstórmeistararnir

Ofurstórmeistarar eru þeir taldir sem hafa 2700 skákstig eða meira. Áðurnefndur Anish Giri, sem hefur 2771 skákstig, er einn besti skákmaður heims og sá stigahæsti sem nokkurn tímann hefur teflt á Reykjavíkurskákmóti í hálfrar aldar sögu mótanna. Georgíumaðurinn Baadur Jobava er einn frumlegasti skákmaður heims og vekur taflmennska hans jafnan athygli. Dmitry Andreikin er þekktur fyrir að tefla ávallt til sigurs og vakti kraftmikil taflmennska hans í mótinu í fyrra mikla athygli.

Skak1

Goðsagnir

Lettinn Alexei Shirov er einn allra skemmtilegast skákmaður heims, þekktur fyrir sinn leiftrandi stíl,  og hefur hefur margoft verið líkt landa sinn, Mikhail Tal, sem sigraði á fyrsta Reykjavíkurskákmótinu árið 1964. Shirov sigraði á Reykjavíkurskákmótinu 1992 ásamt Jóhanni Hjartarsyni og hefur síðan haldið sér í hópi bestu skákmanna heims. Hann er fjórði í stigaröð keppenda. Gata Kamsky tefldi síðast á Reykjavíkurskákmótinu 1990. Þá var hann 15 ára að aldri og þótti undrabarn. Kamsky komst næstum því á topp skákheimsins því hann tefldi heimsmeistaraeinvígi við Karpov sem hann tapaði.

Eugene Torre hefur löngum verið besti skákmaður Filippseyinga. Torre er sá skákmaður, sem teflt hefur á flestum Ólympíuskákmótum allra skákmanna í skáksögunni, eða alls 22 sinnum. Á Ólympíuskákmótinu í Bakú í fyrra hlaut hann 10 vinninga í 11 skákum og hefur sjaldan verið í betra formi.  

Óvæntir sigurvegarar tveggja síðustu ára Abijeet Gupta og Erwin L´Ami eru svo að sjálfsögðu meðal keppenda.

Skákdrottningar

Indverska skákdrottningin Tania Sadchev stal senunni í fyrra með frábærri frammistöðu og geislandi framkomu. Hún er fastagestur hér. Landskona hennar Harika Dronavalli tekur einnig þátt en hún er meðal bestu skákkvenna heims.

Meðal annarra gesta má nefna hina mongólsku Tuvshintugs Batchimeg en hún verður þar með fyrsti skákmaðurinn frá Mongolíu sem teflir á Reykjavíkurskákmótinu.

Einnig má nefna hina írönsku Dorsa Derakhshani sem hefur vakið athygli fyrir það að neita að tefla með slæðu og hefur gerð brotræk úr landsliði Írans fyrir þá sök.

Undrabörnin

Það hefur ávallt verið lögð mikil áhersla á að fá hingað til landsins undrabörn. Í áranna rás hafa t.d. Magnus Carlsen, Gata Kamsky, Fabiano Caruana og Hikaru Nakamura,  sótt landið sem kornungir skákmenn.

Á mótinu nú er vert að benda á tvo unga indverska drengi sem báðir eru taldir geta orðið meðal bestu skákmanna heims - jafnvel heimsmeistarar.  Praggnanandhaa Rameshbabu er annar þeirra. Sá er aðeins 11 ára og sá yngsti í heimi sem náð hefur titli alþjóðlegs meistara.

Hinn er Nihal Sarin, 12 ára, og er líka alþjóðlegur meistari. Sarin þessi lagði Helga Ólafsson t.d. nýlega að velli í hraðskák í Moskvu.  Þeir eru báðir talda hafa möguleika á því að verða yngsti stórmeistari sögunnar. Nýlega grein má lesa um kappann í Chessbase.

Heimavarnarliðið

Nærri 100 íslenskir skákmenn taka þátt í mótinu nú og þar á meðal þrír stórmeistarar. Stigahæstur þeirra er Hannes Hlífar Stefánsson, sigursælasti skákmaður í sögu Reykjavíkurskákmótanna. Hannes hefur sigrað fimm sinnum á mótinu.

Það sætir tíðindum að Jóhann Hjartarson tekur nú þátt í mótinu nú í fyrsta skipti í 21 ár og er það mikið fagnaðarefni.  Sá þriðji er svo Þröstur Þórhallsson.  Sjö íslenskar skákkonur taka þátt. Fyrir þeim fer Lenka Ptáncíková, stórmeistari kvenna og margfaldur Íslandsmeistari.

Alþjóðulegu meistararnir Guðmundur Kjartansson, Bragi og Björn Þorfinnssynir taka þátt og það gerir einnig Vignir Vatnar Stefánsson, okkar efnilegasti skákmaður.

Íslenska heimavarnarliðið er skemmtilegt blanda af atvinnumönnum, áhugamönnum, eldri skákmönnum og ungum ljónum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Akureyringar fjölmenna á Reykjavíkurskákmótið nú og er það gleðilegt og vitnar um skákgrósku norðan heiða.

Færeyingar fjölmennir

Um 180 erlendir skákmenn taka þátt í mótinu og hafa þeir aldrei verið fleiri. Flestir þeirra koma frá Bandaríkjunum, Indlandi og Kanada.  Góð þátttaka Færeyinga vekur athygli en þeir eru 12 talsins. Fyrir þeim hópi fer Helgi Dam Ziska, fyrsti stórmeistari okkar góðu frændþjóðar.

Ekki bara skákmót

Reykjavíkurskákmótið er miklu frekar skákhátíð  en skákmót. Efnt er til alls konar sérviðburða meðan mótið fer fram. Áður hefur verið minnst á fjöltefli Anish Giri. Meðal annarra sérviðburða má nefna:

Opnunarpartý, fyrirlestur um skákþjálfun, fyrirlestur um það sem gerist bakvið tjöldin í heimsmeistaraeinvígum, hraðskákmót, barnahraðskákmót, spurningkeppni (pub quiz), fótbolta, gullna hringinn með viðkomu að leiði Fischers og kotrumót.

Þesir viðburðir eru opnir gestum og gangandi. Beinar útsendingar á netinu verða í umsjón Simon William og Fionu Antoni-Steil. Ítarlegur fréttaflutningur frá mótinu verður alla daga á Skák.is

Skak3

 

Senda grein