Fréttir  • Gamma_13092017-23

GAMMA og Interlink hefja samstarf með sjö milljarða þróunarsjóði

12.12.2017 Starfsemi

GAMMA Capital Management hefur hafið samstarf á sviði jarðvarmafjárfestinga við Interlink Capital Strategies, bandarískt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í fjármögnun og viðskiptaþróun í nýmarkaðsríkjum.

Fyrst um sinn felur samstarfið í sér rekstur þróunarsjóðsins Geothermal Development Facility (GDF), en hann veitir styrkjafjármögnun til jarðvarmaverkefna í Suður-Ameríku. Sjóðurinn er að mestu fjármagnaður af þýska þróunarbankanum KfW í samstarfi við Evrópusambandið.

Markmið sjóðsins er að fjármagna yfirborðskönnun og tilraunaboranir í Suður-Ameríku og draga þannig úr óvissu verkefna með það að markmiði að auðvelda þeim aðgengi að lánsfé og annarri fjármögnun. Alls er GDF ætlað að gera jarðvarmaverkefni með uppsett afl 350 MW að veruleika. Til samanburðar er uppsett rafafl Reykjanesvirkjunar um 100 MW.

GDF sjóðurinn var stofnaður á síðasta ári en fyrsta úthlutun úr sjóðnum átti sér stað nú í haust. Sjóðurinn er nú þegar um 65 milljónir bandaríkjadala að stærð (andvirði tæplega 7 milljarða króna). Áætlað er að snemma á næsta ári verði sjóðurinn allt að tvöfaldaður með fjármagni frá núverandi sjóðsfélögum.

„Jarðvarminn hefur þá sérstöðu umfram vind- og sólarorku að geta tryggt grunnafl inn á raforkukerfi án truflana eða dægursveiflu, auk þess sem framfarir á sviði djúpborunar munu stórauka nýtingarmöguleika á næstu árum. Við hjá GAMMA höfum óbilandi trú á möguleikum jarðvarma, ekki aðeins á Íslandi, heldur um allan heim, og teljum að hann muni leika sífellt stærra hlutverk í raforkuframleiðslu á heimsvísu. Við erum því afar stolt af samstarfinu við INTERLINK, sem deilir sýn okkar á möguleikum jarðvarmans sem orkugjafa,“  segir Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA.

Senda grein