Fréttir



GAMMA og Breska sendiráðið gera samkomulag um námsstyrki

12.10.2017 Samfélagsmál

GAMMA, Framtíðin lánasjóður og Breska sendiráðið semja um að fyrirtækin fjármagni í tvö ár styrki fyrir íslenska námsmenn til meistaranáms í Bretlandi.

Breska sendiráðið, GAMMA og Framtíðin lánasjóður, hafa gert með sér samkomulag til tveggja ára um að bjóða upp á Chevening námsstyrk á Íslandi. Styrkurinn er fyrir nám á meistarastigi við háskóla í Bretlandi og nemur 10.000 Sterlingspundum á ári. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk sem hyggst á fjármálatengt nám sæki um styrkinn.

Chevening-námsstyrkir eru fjármagnaðir af Breska utanríkisráðuneytinu og samstarfsaðilum og þeir eru virtustu námsstyrkir sem breska ríkið veitir erlendum námsmönnum. Breska sendiráðið í Reykjavík hefur umsjón með veitingu Chevening-styrkja á Íslandi. Styrkirnir hafa verið veittir frá árinu 1983 og munu um 1.600 Chevening-styrkþegar víða að úr heiminum hefja nám í Bretlandi í haust. Chevening-styrkþegar eru hluti af alþjóðlegu tengslaneti og eru í dag um 48 þúsund talsins; þ.á m. eru margir þjóðarleiðtogar og annað alþjóðlegt forystufólk. Meðal markmiða með veitingu styrkjanna er að styðja leiðtoga framtíðarinnar sem geta mótað innlend jafnt sem alþjóðleg málefni með því að byggja á reynslu sinni og nánu sambandi við Bretland, sem námsdvölin þar veitir. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er t.d. úr hópi fyrrverandi Chevening-styrkþega. Íslensku styrkhöfunum býðst að taka þátt í ýmsum viðburðum, bæði í Bretlandi og á Íslandi, sem hjálpar þeim að öðlast dýpri skilning á bresku samfélagi, stofnunum, stefnumótun og menningu og að þróa mikilvæg tengsl til framtíðar. 

Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA:

„Frá því að GAMMA hóf starfsemi í Bretlandi fyrir rúmum tveimur árum höfum við lagt áherslu á að efla tengsl landanna tveggja á sviði mennta- og menningarmála. Það er því afar ánægjulegt að taka þátt í því að styðja íslenska námsmenn til framhaldsnáms í Bretlandi í samstarfi við breska utanríkisráðuneytið og Framtíðina. Finna má marga af bestu háskólum heims í Bretlandi og því er eftirsóknarvert að koma í nám þangað.“

Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar:

„Framtíðin hefur á undanförnum árum aðstoðað hátt í 500 námsmenn við að fjármagna nám sitt, meðal annars í stærstu háskólum heims. Við erum því stolt af því að geta stuðlað að því með þessum hætti að enn fleiri námsmenn geti sótt nám á erlendri grundu.“

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi:

„Þetta eru frábærar fréttir. GAMMA eru mikilvægir fjárfestar í Bretlandi. Samstarf okkar, í samstarfi við Framtíðina, hjálpar til við að styrkja tengsl milli Bretlands og Íslands bæði í dag og fyrir komandi kynslóðir. Það fellur vel að markmiðum sendiráðsins að auka og dýpka tvíhliða tengsl okkar á alþjóðavettvangi. Ég hvet námsmenn til að sækja um þessa virtu námsstyrki.“

Opið er fyrir umsóknir fyrir skólaárið 2018-2019 til 7. nóvember næstkomandi. Frekari upplýsingar er að finna á vefslóðinni www.chevening.org/iceland .

BSGAMMAframtidin

Mynd (frá vinstri): Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Framtíðarinnar, Michael Nevin, sendiherra, og Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA, við undirritun samkomulagsins. Ljósm. Ragnar Jónasson/GAMMA.

Senda grein