Fréttir



GAMMA heldur málstofu vegna útgáfu bókar um jarðhita og jarðarauðlindir

13.12.2017 Samfélagsmál

Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið úr bókina Jarðhiti og jarðarauðlindir eftir Stefán Arnórsson, prófessor emeritus í jarðefnafræði. Stefán varð 75 ára nú í desember og er bókin gefin út honum til heiðurs.

Í bókinni fjallar Stefán um rannsóknir á jarðhita og nýtingu hans og annarra auðlinda jarðar á grundvelli reynslu sinnar sem jarðefnafræðingur við rannsóknir og ráðgjöf á þessu sviði í meira en hálfa öld.

GAMMA er aðalstyrktaraðili Hins íslenska bókmenntafélags og í tilefni útgáfu bókarinnar efndi GAMMA til málstofu þriðjudaginn 12. desember í Gallery GAMMA í Reykjavík. Þar fjallaði Stefán um bók sína auk þess sem Ingvi Hrafn Óskarsson, framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá GAMMA, hélt inngangserindi.

„Þótt jarðefnaeldsneyti sé sá orkugjafi sem hefur síðan á tímum iðnbyltingarinnar leitt okkur inn í nútímann er nokkuð ljóst að komandi kynslóðir munu þurfa að reiða sig á aðra orkugjafa til að leiða sig inn í framtíðina,“ sagði Ingvi Hrafn í erindi sínu.

Þá fjallaði Ingvi Hrafn um helstu verkefni GAMMA á sviði jarðvarmaverkefna. GAMMA Ráðgjöf gaf m.a. árið 2015 út ítarlega skýrslu um rekstur og efnahagsleg áhrif HS Orku og Auðlindagarðsins á Reykjanesi, félagið hefur útbúið skýrslu um mögulegan sæstreng til Bretlands og veitt Landsvirkjun ráðgjöf um rekstur félagsins til ársins 2030 svo nefnd séu dæmi. „Við teljum að fjárfesting í jarðvarma geti hentað stofnanafjárfestum á borð við lífeyrissjóði sérstaklega vel, enda skila þau jafnan stöðugri raunávöxtun til lengri tíma. En fyrst og fremst teljum við að það sé mannkyninu öllu til góða að miðla og nýta reynslu Íslendinga af jarðvarma svo þessi auðlind geti gagnast sem flestum,“ sagði Ingvi Hrafn.

Í gær, þriðjudaginn 12. desember, var jafnframt greint frá því að GAMMA hefði hafið samstarf á sviði jarðvarmafjárfestinga við Interlink Capital Strategies, bandarískt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í fjármögnun og viðskiptaþróun í nýmarkaðsríkjum. Interlink rekur með öðrum þróunarsjóðinn Geothermal Development Facility (GDF) með  sem veitir styrkjafjármögnun til jarðvarmaverkefna í Suður-Ameríku. Sjóðurinn er að mestu fjármagnaður af þýska þróunarbankanum KfW í samstarfi við Evrópusambandið. Stærð sjóðsins er um 65 milljónir bandaríkjadala (andvirði tæplega 7 milljarða króna).

Screen-Shot-2017-12-14-at-11.13.46Stefán Arnórsson að flytja erindi um bókina Jarðhiti og jarðarauðlindir í Gallery GAMMA.

Senda grein