FréttirGAMMA gerist styrktaraðili Arctic Circle til fimm ára

17.10.2017 Samfélagsmál Starfsemi

GAMMA Capital Management styrkir Arctic Circle ráðstefnuna næstu fimm árin samkvæmt samkomulagi sem undirritað var um síðustu helgi. 

GAMMA er aðili að sérstökum samstarfsvettvangi innan Arctic Circle sem nefnist Icelandic Strategic Partners. Þá er GAMMA þátttakandi í þingum Arctic Circle og öðrum fundum og ráðstefnum sem haldnar eru á Íslandi og í öðrum löndum á vegum stofnunarinnar.

Arctic Circle ráðstefnan, eða Hringborð Norðurslóða eins og ráðstefnan kallast á íslensku, var fyrst haldin hér á landi árið 2013 að frumkvæði þáverandi forseta Íslands, Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem er stjórnarformaður Arctic Circle.

Öflugir kvenleiðtogar áberandi í ár

Kvenkyns leiðtogar voru áberandi á ráðstefnunni í ár. Meðal þeirra var Lisa Murkowski, Öldungadeildarþingmaður frá Bandaríkjunum og formaður orkunefndar þingsins, Nicola Sturgeon, Fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, Ségolène Royal, fv. orkumálaráðherra og forsetaframbjóðandi í Frakklandi og nú sérstakur sendiherra forseta Frakklands um málefni Norðurslóða og Suðurheimskautsins, Laurene Powell Jobs, stofnandi Emerson Collective og ekkja Steve Jobs (stofnanda Apple) og Patricia Espinosa, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti jafnframt erindi og fjallaði um viðskiptatækifæri á Norðurslóðum og Kai Mykkänen, utanríkisráðherra Finnlands, var með erindi um aðkomu Finna að Norðurslóðum. Í samstarfi við alþjóðlega Alkirkjuráðið og íslensku þjóðkirkjuna buðu forsvarsmenn Arctic Circle einnig hingað til lands Bartólemus I, biskupi Rétttrúnaðarkirkjunnar. Hann hefur um árabil beitt sér fyrir umhverfisvernd og lagt nafn kirkjunnar við hin ýmsu verkefni sem tengjast umhverfisvernd. Þá hefur hann einnig hlotið heiðursmerki bandaríska þingsins fyrir störf sín í þágu umhverfisverndar.

Arctic Circle ráðstefnan hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu árum og vakið athygli þeirra sem eiga í víðum skilningi hagsmuna að gæta er varða málefni Norðurslóða. Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, var sérstakur gestur á ráðstefnunni í fyrra og flutti aðalræðu. Árið 2015 var François Hollande, þáv. forseti Frakklands, sérstakur heiðursgestur og árið 2014 var Christiana Figueres, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum gestur ráðstefnunnar.

Innviðir mikilvægir á Norðurslóðum

Uppbygging innviða, ferðaþjónusta og hagkvæm nýting náttúruauðlinda er nátengd málefnum Norðurslóða. Haustið 2016 gaf GAMMA ráðgjöf út ítarlega skýrslu um innviðafjárfestingar á Íslandi. Í skýrslunni er farið er yfir stöðu hagkerfisins, helstu módel innviðafjárfestinga og þau verkefni sem blasa við til að styrkja innviði íslensks samfélags. Þá var einnig fjallað um ýmsar leiðir til að mæta þörfinni fyrir innviðafjárfestingar, bæði hreina fjárfestingu stórra sjóða í slíkum fjárfestingum sem og blandaðar leiðir með framlagi ríkis, sjóða og einkaaðila.

Tvö þúsund manns taka þátt

Auk fyrrnefndra aðila komu margir aðrir að Arctic Circle ráðstefnunni. Má þar nefna ýmis fyrirtæki, háskóla, hugveitur, umhverfisverndarsamtök og fleiri. Rúmlega 2.000 manns frá rúmlega 50 löndum sóttu ráðstefnuna sem nú er orðinn árlegur viðburður.

Fyrir utan ráðstefnuna hér á landi hafa verið haldin málþing undir merkjum Arctic Circle víða á síðustu árum. Þannig má sem dæmi nefna að árið 2015 voru haldin málþing í Alaska og Singapúr sem helguð voru skipum og höfnum á Norðurslóðum og þátttöku Asíuríkja á sviði Norðurslóða og siglingamála á svæðinu. Árið 2016 voru haldin málþing í Nuuk á Grænlandi og Quebec í Kanada þar sem lögð var áhersla á efnahagsþróun og sjálfbæra þróun Norðurslóða. Fyrr á þessu ári var haldið málþing í Washington DC um aðkomu Bandaríkjanna og Rússlands að Norðurslóðum. Loks verður haldið málþing í Edinborg í Skotlandi í nóvember á þessu ári. 

GH_ORG2Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA, og Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic Circle, eftir undirritun samkomulags um aðkomu GAMMA að Arctic Circle ráðstefnunni til fimm ára.

Arctic_hopmynd

Dagfinnur Sveinbjörnsson, forstjóri Arctic Circle, Gísli Hauksson stjórnarformaður GAMMA, Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Arctic Circle, og Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA að lokinni undirskrift um aðkomu GAMMA að ráðstefnunni.

Senda grein