Fréttir



  • GAMMA

GAMMA CREDIT hefur náð 10,0 milljörðum króna

17.1.2018 Starfsemi

GAMMA CREDIT hefur nú náð 10,0 mö.kr. að stærð. Í lok árs 2016 námu eignir sjóðsins 8,8 mö. kr. og stækkaði sjóðurinn því um 1,2 ma. kr. síðan.

Á árinu 2017 skilaði sjóðurinn 6,5% nafnávöxtun sem er 4,5% raunávöxtun, en verðtryggingarhlutfall sjóðsins var 61% um áramót og hefur aukist frá því að vera 57% í lok árs 2016. Til samanburðar hækkaði vísitala fyrirtækjaskuldabréfa um 8,6% á árinu 2017, og skýrist munurinn m.a. af tímalengd undirliggjandi skuldabréfa. Meðallíftími eigna sjóðsins er 6,7 ár en líftími undirliggjandi skuldabréfa vísitölunnar þónokkuð lengri. Meðallíftími eigna sjóðsins stendur í stað milli ára. Vegin meðalávöxtunarkrafa eigna sjóðsins var 4,62% að raunvirði um áramót, miðað við 1,9% ársverðbólgu.

Sjóðurinn fjárfestir að meginhluta í skuldabréfum án ríkisábyrgðar. Um áramót var hlutfallið 93% af eignum sjóðsins og skiptist nánar tiltekið þannig að 9,9% voru skuldabréf sveitarfélaga, 7,6% skuldabréf lánastofnana, 6,8% sértryggð skuldabréf bankanna og 68,7% fyrirtækjaskuldabréf. Þar af voru um 6% skuldabréf veitufyrirtækja og um 18% skráð fasteignaveðtryggð skuldabréf. Auk þessa hefur sjóðurinn heimild til að fjárfesta í skuldabréfum með ríkisábyrgð (3,5% um áramót), innlánum fjármálafyrirtækja og afleiðum.

Sjóðurinn hefur heimild til fjárfestingar í óskráðum skuldabréfum sem nemur 25% af heildareignum sjóðsins en þó með þeim takmörkunum að ekki má eiga meira en fjórðung af einstaka útgáfu og aldrei meira en sem nemur 10% af skuldaskjölum útgefandans. Sjóðurinn sér góð tækifæri í vel dreifðu safni í óskráðum skuldabréfum fyrirtækja og hefur nú verið fjárfest í 36 útgáfum sem nemur um 23% af stærð sjóðsins og eru meðalvextir um 12%. Mestmegnis er um að ræða bréf með stuttan líftíma (6-24 mán), auk þess mikil áhersla er lögð á góðar tryggingar og mikla eftirfylgni með rekstri og efnahag fyrirtækjanna.

Hér er upplýsingablað með frekari upplýsingum um sjóðinn

Senda grein