Fréttir  • Gamma_13092017-14

Fullt hús á opnum fundi í Tjarnarbíói

14.9.2017 Starfsemi

Yfir 200 manns sóttu málstofu GAMMA um erlendar fjárfestingar og ábata af alþjóðlegri eignadreifingu.

Fjöldi gesta sótti málstofu GAMMA um erlendar fjárfestingar sem haldin var í Tjarnarbíói sl. þriðjudag. Ljóst er að áhugi á erlendum fjárfestingum og þeim tækifærum sem orðið hafa til með afnámi gjaldeyrishafta er mikill.

Yfirskrift málstofunnar var Reisubók fjárfestis; tilvísun í Reisubók Jóns Ólafssonar „Indíafara“. Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi, vísaði til þessa í opnunarávarpi sínu en bætti þó við að enn ætti eftir að skrifa reisubók hins íslenska fjárfestis eftir afnám gjaldeyrishafta. Því væri rétt að líta á núverandi aðstæður sem upphafspunkt fyrir fjárfesta sem hafa hug á að dreifa eignum sínum og áhættu með því að fjárfesta erlendis.

„Afnám hafta sem átti sér stað í vetur er stærsta breyting sem orðið hefur á íslenskum fjármálamarkaði í níu ár,“ sagði Valdimar í ávarpi sínu. Hann rakti í stuttu máli hvernig GAMMA hefði undirbúið sig fyrir afnám hafta í tvö ár, greint markaði erlendis og leitað framtíðartækifæra fyrir viðskiptavini félagsins.

Gamma_13092017-3

Dr. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði og efnahagsráðgjafi GAMMA, fjallaði í erindi sínu, Örmynt fer á flot, um stöðu krónunnar eftir að hún var sett á flot fyrr á þessu ári með afnámi hafta. Friðrik Már sagði að raungengi krónunnar, sem nú væri með því sterkasta sem þekktist, myndi að öllum líkindum leita jafnvægis til lengri tíma. Ljóst væri að viðskiptaafgangur styddi sem stendur við gengi krónunnar og að litlar líkur væru á frekari styrkingu, einkum þegar litið væri til þess að enn hafi Íslendingar lítið fjárfest erlendis.

„Við erum aftur komin í fjármálaleg tengsl við umheiminn, þannig að fjármálalegir þættir eru orðnir mikilvægir og hafa áhrif á aðra þætti hérlendis,“ sagði Friðrik Már sem jafnframt lagði mikla áherslu mikilvægi þess að koma Íslandi í betri fjármálaleg tengsl við umheiminn.

Gamma_13092017-15

Hafsteinn Hauksson, hagfræðingur hjá GAMMA í London, hélt áhugavert erindi undir heitinu Aftur inn á völlinn. Þar rakti Hafsteinn þá þætti sem einkenndu erlenda markaði á því tímabili sem gjaldeyrishöft voru við lýði hér á landi, til að mynda lágvaxtastefnu erlendra seðlabanka, evrukrísuna, óvænt kosningaúrslit erlendis (svo sem Brexit og kjör Trumps) og loks hina svokölluðu fjórðu iðnbyltingu sem fælist í gífurlegum vexti hugbúnaðar- og tæknifyrirtækja, deilihagkerfi og þar fram eftir götum.

Þannig rakti Hafsteinn hvernig hlutabréf félaga á borð við Google, Apple, Facebook og Amazon hefðu hækkað langt umfram þau félög sem skráð væru í S&P500 hlutabréfavísitöluna. Því til viðbótar væri markaðsvirði svokallaðra einhyrninga, fyrirtækja á borð við Uber, AirBnb, Pinterest, Dropbox og fleiri, í dag yfir milljarður Bandaríkjadala en þessi umræddu fyrirtæki telja á þriðja hundrað á vestrænum mörkuðum. Eðli málsins samkvæmt höfðu íslenskir fjárfestar ekki tækifæri til að fjárfesta í þessum fyrirtækjum á meðan hér voru gjaldeyrishöft.

Gamma_13092017-21

Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA, kynnti í lokin þjónustu GAMMA erlendis, hvaða tækifæri væru í boði og hvernig eðlilegt væri fyrir fjárfesta að dreifa áhættu sinni með þátttöku í fjölbreyttum mörkuðum. Þannig nefndi Gísli sem dæmi að í dag væru 17 félög skráð í Kauphöllina á Íslandi en með þjónustu GAMMA gæfist viðskiptavinum færi á að fjárfesta í þúsundum skráðra fyrirtækja víðs vegar um heiminn. Gísli tók þó fram að hlutabréfamarkaður væri aðeins einn þáttur af mörgum mögulegum, rétt væri að horfa til þess að fjárfesta einnig í sjóðum, skuldabréfum og gjaldmiðlum og dreifa þannig eignarsafni og áhættu með skynsamlegum hætti.

Gísli rakti ennfremur fyrir viðstöddum leiðarstef GAMMA í fjárfestingum, hvort sem er innlendum eða erlendum, og hvernig GAMMA aðstoði viðskiptavini sína við að byggja upp erlent eignasafn með hliðsjón af markmiðum um ávöxtun, áhættuþoli og aðstæðum á mörkuðum. Sem kunnugt er á GAMMA í samstarfi við sérvalinn hóp fremstu fjármálafyrirtækja heims á sviði bankaviðskipta og sjóðastýringar sem gerir félaginu kleift að sjá um alla umsýslu sem viðkemur erlendri eignadreifingu fyrir hönd viðskiptavina félagsins á hagstæðari kjörum en ella byðust.

Þá sagði Gísli einnig að áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi væri meiri en áður og gera mætti ráð fyrir því að erlendir aðilar myndu á næstu árum fjárfesta hér á landi, til að mynda í innviðum, fyrirtækjum, fasteignum og skuldabréfum.

Gamma_13092017-29

Senda grein