FréttirFjórir nýir starfsmenn til GAMMA

Tilkynning

10.7.2019

Í kjölfar kaupa Kviku á GAMMA hafa verið gerðar skipulagsbreytingar hjá GAMMA í þeim tilgangi að ná fram rekstrarhagræði og bættri þjónustu við viðskiptavini.

Í kjölfar kaupa Kviku á GAMMA hafa verið gerðar skipulagsbreytingar hjá GAMMA í þeim tilgangi að ná fram rekstrarhagræði og bættri þjónustu við viðskiptavini. GAMMA mun stýra 25 fagfjárfestasjóðum og vera með um 110 ma.kr. í stýringu, að meginhluta í sjóðum tengdum fasteignaþróun og rekstri. Starfsemi GAMMA skiptist nú í þrjú svið hvað sjóðastýringu varðar; Þróun og nýbyggingar fasteigna, Rekstur og leiga fasteigna og Sérhæfðir sjóðir. Þá verða tvö stoðsvið; Fjármál og Framkvæmdir.

Samhliða þessum breytingum hafa fjórir starfsmenn sem áður voru í sérhæfðum fjárfestingum hjá Kviku hafið störf hjá GAMMA. Ásgeir Baldurs verður fjárfestingarstjóri (CIO) og forstöðumaður Reksturs og leigu fasteigna, Jón Þór Gunnarsson verður forstöðumaður Framkvæmda og Sveinn Hreinsson og Daníel Þór Magnússon verða sjóðsstjórar hjá GAMMA.

  • Ásgeir Baldurs hefur yfir 15 ára reynslu af stjórnunar- og stjórnarstörfum, bæði hérlendis og erlendis. Hann var m.a. forstjóri VÍS og sat þar áður í framkvæmdastjórn, og stjórnarformaður Frumherja og Viking Redningstjeneste í Noregi. Þá var hann ráðgjafi og eigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Expectus. Ásgeir er með BSc í viðskiptafræði frá JW University og MBA gráðu frá Háskóla Íslands.
  • Jón Þór hefur víðtæka reynslu sem ráðgjafi á sviði mannvirkja, við hönnun, áætlanagerð og verkefnastjórn. Hann starfaði hjá verkfræðistofunni Mannvit áður en hann hóf störf hjá Kviku. Helstu verkefni hans hafa m.a. verið verkefnastjórnun, áætlanagerð, hönnunarstjórn, þróun verkefna, verksamningar og framkvæmdaeftirlit. Jón Þór er M.Sc. í byggingarverkfræði frá Denmarks Tekniske Universitet.
  • Daníel hefur víðtæka reynslu af rekstri og fjármálum fasteigna, fasteignaþróun og verkefnastjórn. Daníel starfar sem sérfræðingur og sjóðsstjóri Fasteignaauða II-VI. Hann hefur lokið námi í viðskiptafræði með áherslu á fjármál ásamt því að hafa lokið námi til löggildar sem verðbréfamiðlari.
  • Sveinn hefur starfað á fjármálamarkaði frá árinu 2002, m.a. sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði hjá Sparisjóðabanka Íslands hf. og eignaumsýslu Kviku. Sveinn hefur síðustu ár séð um rekstur FÍ fasteignafélags slhf. og Foss fasteignafélags slhf. (Höfuðstöðvar OR) ásamt fasteigna í umsjón Slitastjórnar SPB. Sveinn er Cand.oecon. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Valdimar Ármann er framkvæmdastjóri GAMMA ásamt því að leiða Sérhæfða sjóði og Ragnhildur Halla Bjarnadóttir er áfram fjármálastjóri. Ingvi Hrafn Óskarsson, sem hefur leitt sérhæfðar fjárfestingar hjá GAMMA, er forstöðumaður Þróunar og nýbygginga fasteigna.

Eftir kaup Kviku á GAMMA hefur Kvika Securities í London hefur tekið yfir starfsemi GAMMA í London ásamt því að skrifstofu GAMMA í New York hefur verið lokað.

Samhliða nýjum eiganda og breytingum hefur ný stjórn GAMMA verið kjörin. Andri Vilhjálmur Sigurðsson, er nýr stjórnarformaður en aðrir stjórnarmenn eru Hlíf Sturludóttur og Anna Rut Ágústsdóttir, forstöðumaður hjá Kviku sem kemur ný inn í stjórn.

Stefna og markmið GAMMA eru skýr. GAMMA mun einbeita sér að verkefnum sem snúa að fasteignaþróun og rekstri ásamt greiningu nýrra tækifæra á fasteignamarkaði með það að markmiði að ávaxta þannig fjármagn viðskiptavina. Skýr framtíðarsýn GAMMA fellur vel að starfsemi Kviku og annarra dótturfélaga og það eru spennandi tímar framundan.

Nánari upplýsingar veitir Valdimar Ármann framkvæmdastjóri GAMMA; valdimar@gamma.is.


Senda grein