Fréttir



Fjölbreyttur tónleikavetur Sinfóníuhljómsveitar Íslands framundan

20.9.2017 Samfélagsmál

Sinfóníuhljómsveit Íslands ýtir nú sínu 67. starfsári úr vör. GAMMA hefur verið styrktaraðili hljómsveitarinnar í tæpan áratug.

Sinfóníuhljómsveit Íslands ýtir nú sínu 67. starfsári úr vör. Framundan er glæsilegur tónleikavetur þar sem fjöldi frábærra listamanna mun stíga á svið með hljómsveitinni. Má þar nefna Stefán Ragnar Höskuldsson, rússneska stjórnandann Dima Slobodeniouk, hollensku einleikarana Lucas og Arthur Jussen og fiðlusnillinginn Janine Jansen.
 
Að venju eru efnisskrárnar fjölbreyttar og metnaðarfullar, þar sem Sinfóníuhljómsveitin mun meðal annars flytja verk eftir rússneska tónskáldið Sofiu Gubaidulinu en einnig tónlist eftir Mozart og Beethoven, Shostakovitsj og Rakhmanínov. Hljómsveitin mun spegla hátíð Los Angeles-fílharmóníunnar með sinni eigin hátíð með bandarískri tónlist í forgrunni. Liður í undirbúningi tónleikaferðar hljómsveitarinnar til Japans eru tónleikar 20. apríl með Vladimir Ashkenazy og Nobu. Ennfremur kemur Gautaborgarsinfónían í vináttuheimsókn í Hörpu 18. mars.
 
Hljómsveitin mun einnig sinna íslenskum tónlistararfi og flytja og hljóðrita Eddu 11 eftir Jón Leifs ásamt Schola cantorum. Einnig mun hún frumflytja ný íslensk tónverk og bjóða upp á öflugt fræðslustarf. Sinfóníuhljómsveitin mun jafnframt leika stórt hlutverk í hátíðarhöldum þjóðarinnar í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Á þann hátt heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands áfram að sinna sínu upprunalegu hlutverki að fóstra íslenska tónlist og tónlistarlíf. 
 
Sinfóníuhljómsveitin hefur verið viss gluggi út í heim fyrir íslenska tónlistarmenn en síðustu misseri hafa fleiri og fleiri íslenskir tónlistarmenn tengst hinu alþjóðlega neti tónlistarinnar. Íslensk tónlist og tónlistarfólk hefur náð verðskuldaðri athygli virtra menningarstofnana á borð við Fílharmóníuhljómsveit Los Angeles og hið glæsilega tónlistarhús Elbphilharmonie.
Sinfo2017GAMMA hefur verið styrtaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tæpan áratug og aðalstyrktaraðili frá árinu 2011. 
Hér er hægt að lesa nánar um dagskrá hljómsveitarinnar í vetur. www.sinfonia.is/tonleikar-og-midasala/

Senda grein