Fréttir  • Gamma_13092017-23

Fjárfestingar erlendis: Heimurinn er undir

31.10.2017 Skoðun

Greinin byggir á fyrirlestri Gísla Haukssonar, stjórnarformanns GAMMA á málstofu GAMMA um erlendar fjárfestingar í Tjarnarbíói þann 12. september síðastliðinn

Erlend dreifing eignasafns dregur úr áhættu fjárfesta, sem síðustu ár hafa einungis átt þess kost að fjárfesta á Íslandi. Nú, þegar búið er að aflétta gjaldeyrishöftum hér á landi, hafa fjárfestar kost á því að bæta fjölbreyttum alþjóðlegum fjárfestingarkostum við eignasöfn sín í stað þess að einblína á íslensk verðbréf.

Erlendir markaðir innihalda eignaflokka sem fyrirfinnast ekki á íslenskum fjármálamörkuðum; þeir veita aðgang að þúsundum skráðra fyrirtækja, aðgang að landsvæðum þar sem hagsveiflur eru ólíkar þeirri íslensku auk þess sem þeir veita fjárfestum aðgengi að öðrum gjaldmiðlum en íslensku krónunni. Með gaumgæfilegu samvali eigna þvert á eignaflokka, landsvæði og myntir getur ábati vegna áhættudreifingar erlendis þannig verið mikill.

Viðskiptavinir GAMMA á Íslandi njóta alhliða þjónustu hjá félaginu þegar kemur að fjárfestingum erlendis.

Screen-Shot-2017-10-26-at-12.35.46

Heimabjögun villir fjárfestum sýn

Hugtakið heimabjögun er notað yfir tilhneigingu fjárfesta til að halda sig nærri átthögunum við val á eignasafni; þeir kjósa helst markaði sem þeir þekkja og vilja gjarnan eiga hlutabréf fyrirtækja sem þeir kannast við. Þessi bjögun veldur því að þeir vanmeta kosti þess að fjárfesta erlendis og fara á mis við ávöxtun og áhættudreifingu á erlendum mörkuðum. Þótt erlend fjárfesting virðist ef til vill áhættusöm vegna heimabjögunarinnar, þá getur þvert á móti reynst áhættusamara að sleppa henni.

Lítið má út af bregða í íslensku hagkerfi til að illa fari í umhverfi þar sem allt fjármagn er bundið hér á landi. Þannig má sem dæmi nefna að í dag eru aðeins 17 félög skráð í Kauphöllina á Íslandi á meðan aðgangur að mörkuðum erlendis veitir fjárfestum sem fyrr segir aðgang að þúsundum skráðra fyrirtækja á markaði víða um heim, auk þess sem hægt er að ná fram áhættudreifingu með fjárfestingu í skuldabréfum og sjóðum, með dreifingu þvert á landsvæði og myntir. Erlend áhættudreifing í vel dreifðu eignasafni

Sem kunnugt er var GAMMA fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að hefja starfsemi erlendis eftir að aðgerðaáætlun um afléttingu hafta var tilkynnt, en skrifstofa félagsins opnaði í Lundúnum árið 2015 og hlaut starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu árið 2016. GAMMA mun á þessu ári opna tvær starfsstöðvar til viðbótar - í New York í Bandaríkjunum og Zurich í Sviss.

Leiðarstef GAMMA í fjárfestingum, hvort sem á innlendum eða erlendum mörkuðum, byggist í stuttu máli á fjórum þáttum; Þjóðhagslegu mati, vali á verðbréfum, samvali eignasafns og loks framkvæmd fjárfestinga. Með því að byggja fjárfestingarstefnuna á grunni þjóðhagsgreiningar er styrkari stoðum skotið undir fjárfestingarákvarðanir, en með því að gaumgæfa samspil ávöxtunar mismunandi verðbréfa er reynt að ná fram áhættudreifingu samhliða viðunandi ávöxtun. Sérfræðingar GAMMA fylgjast stöðugt með erlendum mörkuðum og vakta fjárfestingarkosti. Þannig aðstoðar félagið viðskiptavini sína við uppbyggingu erlends eignasafns með hliðsjón af markmiðum þeirra um ávöxtun, áhættuþoli og aðstæðum á mörkuðum.

Screen-Shot-2017-10-26-at-12.36.19

Samstarf við erlenda aðila

GAMMA á í samstarfi við sérvalinn hóp fremstu fjármálafyrirtækja heims á sviði bankaviðskipta og sjóðastýringar. Samstarfið gerir starfsmönnum GAMMA kleift að sjá um alla umsýslu sem viðkemur erlendri eignadreifingu fyrir hönd viðskiptavina félagsins á hagstæðari kjörum en ella byðust. Þannig má sem dæmi nefna að í samstarfi við margverðlaunaða einkabankaþjónustu Barclays býður GAMMA viðskiptavinum sínum ítarlegt þjónustuframboð á sviði bankaviðskipta, s.s. bankareikninga, Capitol greiðslukort, fjármögnun, gjaldeyrisviðskipti, markaðsviðskipti og vörsluþjónustu.

Þá má einnig nefna samstarf GAMMA við PIMCO, sem er eitt stærsta og virtasta sjóðastýringafélag í heimi og með algjöra sérstöðu í stýringu skuldabréfasafna, samstarf við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið GAM, og Cheyne sem er framúrskarandi sjóðastýringafyrirtæki á sviði sérhæfðra fjárfestinga.

Screen-Shot-2017-10-26-at-12.36.56

Betri tenging milli landa

Samhliða því sem tækifæri hafa skapast fyrir íslenska fjárfesta á mörkuðum erlendis hefur áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi aukist. Það má gera ráð fyrir því að erlendir aðilar fjárfesti hér á landi í náinni framtíð, til að mynda í innviðum, skráðum og óskráðum fyrirtækjum, fasteignum og skuldabréfum. Það mun til lengri tíma breyta stöðu Íslands á alþjóðavísu. Rétt er að rifja upp að við fall viðskiptabankanna haustið 2008 áttu erlendir fjárfestar lítilla hagsmuna að gæta hér á landi, sem er ein megin ástæðan fyrir því að íslensk stjórnvöld stóðu svo að segja vinalaus á meðan erfiðasta hrinan gekk yfir. Með opnun markaða, frjálsum viðskiptum milli landa og auknum stöðugleika minnka möguleikarnir á því að hið sama eigi sér stað aftur.

Greinin byggir á fyrirlestri Gísla Haukssonar, stjórnarformanns GAMMA og forstjóra GAMMA í London, á málstofu GAMMA um erlendar fjárfestingar í Tjarnarbíói í september síðastliðinn

Senda grein