FréttirFimm prósent vaxtamunur við útlönd „þjónar engum tilgangi"

18.1.2017 Skoðun

Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA í viðtali við Markaðinn í dag

 Ýmsir greinendur og markaðsaðilar hafa nefnt, sem rök fyrir því að peningastefnunefnd Seðlabankans eigi að lækka nafnvexti bankans, að raunvaxtamunur Íslands gagnvart helstu viðskiptaríkjum hafi sjaldan verið meiri. Sú staða veki áleitnar spurningar enda er hún meðal annars til þess fallin að ýta enn frekar undir gengisstyrkingu krónunnar og vaxtakostnaður Seðlabankans við að halda úti stórum gjaldeyrisforða verður að sama skapi meiri en ella. 

Valdimar Ármann, hagfræðingur og framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, tekur undir slík sjónarmið í samtali við Markaðinn. Hann segir að það skjóti skökku við hversu háir vextir Seðlabankans séu við núverandi aðstæður þar sem gjaldeyrisforðinn er í methæðum samhliða því að bankinn hefur ekki undan við að bregðast við miklu fjármagns­innflæði með því að kaupa gjaldeyri í stórum stíl á markaði. 

„Að vera með vaxtamun við útlönd um þessar mundir sem nemur um fimm prósentum þjónar engum tilgangi þegar horft er til þess að grunngerð íslenska hagkerfisins hefur gjörbreyst á liðnum árum með uppgangi ferðaþjónustunnar. Aðstæður eru með allt öðrum hætti en í aðdraganda bankahrunsins 2008 þegar góðærið var tekið að láni með erlendri skuldsetningu. Núna er hagvöxtur drifinn áfram af nýrri og ört vaxandi gjaldeyrisskapandi atvinnugrein auk þess sem þjóðhagslegur sparnaður heldur áfram að aukast umtalsvert. Það er því erfitt að sjá hvaða þörf er á því að halda vöxtum jafn háum og raun ber vitni enda virðist þessi breytta samsetning hagkerfisins þýða að það er í jafnvægi við mun hærra gengi krónunnar en við höfum áður þekkt í íslenskri hagsögu,“ segir Valdimar.

V6-170118807*Fréttin birtist á vísi þann 18. janúar 2017 

www.visir.is/fordasofnun-sedlabankans-hefur-kostad-bankann-yfir-120-milljarda/

 

 

Senda grein