Fréttir



Evrópskum flugvöllum í einkaeigu fjölgar hratt

Fréttir

13.3.2019

Valdimar Ármann segir í viðtali við Markaðinn í Fréttablaðinu að stjórnvöld eigi að íhuga það alvarlega að draga sig út úr rekstri flugstöðvarinnar, allavega að hluta. Yfir helmingur evrópskra flugvalla er að hluta eða öllu leyti í eigu annarra en stjórnvalda.

Valdimar Ármann, CEOFréttin birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 13. mars 2018 og er viðtalið við Valdimar Ármann birt hér fyrir neðan en það var hluti af lengri frétt sem má sjá með því að ýta á þennan hlekk hér.

Forstjóri GAMMA segir erfiðan rekstur íslensku flugfélaganna sýna að flugrekstur sé í eðli sínu áhættusamur. Ríkið verði að íhuga að draga sig úr áhætturekstri á Leifsstöð.


Valdimar bendir á að ýmiss konar áhætta sé fyrir hendi vegna reksturs flugstöðvarinnar þó svo að ferðamennska í heiminum sé almennt að vaxa sem geri Ísland að ákjósanlegum tengipunkti á milli Evrópu og Norður-Ameríku. „Gæti til dæmis komið að einhverjum tímapunkti að minni og hagkvæmari flugvélar hætti einfaldlega að þurfa að millilenda á Íslandi vegna þess að drægið verður orðið meira?“ spyr hann.

Valdimar segir aðspurður nokkra þætti gera það að álitlegum kosti fyrir ríkið, sem eiganda Isavia, að skoða það að fá fleiri fjárfesta að borðinu. „Fyrir utan áhættuna sem felst í flugrekstri og veitingu þjónustu til flugrekstraraðila vantar sárlega fjármagn til þess að stækka og byggja upp flugstöðina. Því væri ákjósanlegt að nýta tækifærið og sækja það viðbótarfjármagn til einkafjárfesta,“ nefnir hann.

„Fjárfesting í innviðum eins og rekstri flugstöðva gæti hentað mjög vel fyrir langtímafjárfesta eins og til dæmis lífeyrissjóði,“ bætir Valdimar við.

Þá megi benda á að hlutfall skiptifarþega af heildarfjölda farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll sé um 40 prósent. Með skiptifarþegum er átt við flugfarþega sem fara ekki úr Leifsstöð á leið yfir hafið.

„Það er ekki hægt að halda því fram,“ útskýrir Valdimar, „að sá hluti starfsemi flugstöðvarinnar sem snýr að millilendingum sé þjóðhagslega mikilvægur. Því er stundum haldið fram að flugstöðin verði að vera í eigu ríkisins því hún þjónusti þá sem eru á leið inn í og út úr landinu og sé þess vegna þjóðhagslega mikilvæg starfsemi. En það er hægt að líta á þessa tvo þætti aðskilið – það er að starfsemin sé tvenns konar,“ nefnir hann.

Annars vegar sé um að ræða fjárfestingu í flugstöð til þess að sinna skiptifarþegum og hins vegar fjárfestingu í flugstöð til þess að sinna farþegum sem eru að koma til og frá Íslandi, bæði íslenskum og erlendum ferðamönnum.

„Það er auðvelt að réttlæta það að einkafjárfestar sjái að minnsta kosti um rekstur fyrrnefndu starfseminnar, þ.e. sem snýr að skiptifarþegum, auk ýmiss konar þjónustu í kringum flugvöllinn, til dæmis bílastæðaþjónustu,“ segir Valdimar.


Senda grein