Fréttir  • Mahkeo-234375-unsplash

Erlendir fjárfestar geti stuðlað að sjálfbærum vexti í ferðaþjónustu

13.3.2018 Starfsemi Útgáfa

Margvísleg tækifæri felast í aðkomu erlendra fjárfesta að fjármögnun innviða og reksturs ferðaþjónustu á Íslandi, en greinin er nú óðum að verða fullvaxta eftir öra fjölgun ferðamanna undanfarin ár, að því er fram kemur í nýrri skýrslu GAMMA Ráðgjafar

GAMMA Ráðgjöf gefur í dag út skýrsluna Tourism in Iceland: Investing in Iceland‘s growth engine, en í henni er fjallað um þróun og horfur í íslenskri ferðaþjónustu eftir mikinn uppgang greinarinnar undanfarin ár.

Skýrslunni er öðru fremur ætlað að auðvelda erlendum fjárfestum að glöggva sig á stöðu greinarinnar, en í ritinu er tekið saman mikið safn gagna og greininga er varða íslenska ferðaþjónustu á einum stað.  Þar kemur fram að fjöldi ferðamanna hafi tæplega fimmfaldast frá árinu 2010, en alls sóttu um 2,2 milljónir ferðamanna landið heim á síðasta ári og búist er við 2,5 milljónum gesta á árinu 2018.

„Ferðaþjónustan stendur á krossgötum, en eftir ævintýralegan vöxt undanfarinna ára er hún að verða fullvaxta undirstöðuatvinnugrein í íslenska hagkerfinu,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA. „Við teljum að erlendir fjárfestar geti lagt sitt af mörkum til að dreifa áhættu og stuðla að áframhaldandi vexti greinarinnar með því að taka þátt í frekari hagræðingu og fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir á innviðum, og erum stolt að því að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku með skýrslu GAMMA Ráðgjafar.“ 

Skýringar á vexti greinarinnar eru margþættar. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um stóraukið sætaframboð flugfélaga og stækkun leiðarkerfis þeirra, eldgosið í Eyjafjallajökli sem vakti mikla athygli á náttúru Íslands í erlendum fjölmiðlum, tökur stórmynda og sjónvarpsþátta á landinu, samstillt markaðsátak stjórnvalda og ferðaþjónustufyrirtækja að ógleymdu sívaxandi hlutverki samfélagsmiðla, en myllumerkið #Iceland hefur til dæmis verið notað hátt í átta milljón sinnum á myndaveitunni Instagram. 

Í formála skýrslunnar bendir Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, jafnframt á að stóraukinn áhugi á Norðurslóðum kristallist í vexti íslenskrar ferðaþjónustu, en yngri kynslóðir um allan heim heillist af því samspili náttúrufegurðar, sjálfbærni, jafnréttis, friðar og frelsis sem íslenskt samfélag veki vonir um.

„Ferðaþjónustan er orðin ein af helstu atvinnugreinum landsins og það er ánægjulegt að sjá skýrslu GAMMA um þau jákvæðu efnahagslegu áhrif sem greinin hefur haft á síðustu árum. Skýrslan sýnir jafnframt að á Íslandi eru til staðar mikil tækifæri í greininni. Það kemur fram í skýrslunni að þau tækifæri leynast ekki síst á landsbyggðinni. Með því að nýta þau má stuðla að því að ferðamenn fari víðar um landið og kynnist því besta sem íslensk náttúra og við landsmenn sjálfir höfum upp á að bjóða. Ég tel að framundan séu tímar mikillar nýsköpunar og áframhaldandi grósku og fjárfestinga sem munu nýtast ferðaþjónustunni og hagkerfinu vel til lengri tíma litið,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra. 

Vöxtur greinarinnar hefur leitt til samsvarandi fjölgunar ferðaþjónustufyrirtækja. Blómleg frumkvöðlaflóra hefur staðið fyrir mikilli nýsköpun innan ferðaþjónustunnar, en að mati skýrsluhöfunda er greinin er nokkuð brotakennd fyrir vikið og einkennist af miklum fjölda minni rekstrareininga, ekki síst á markaði með bílaleigubíla og skipulagðar ferðir.

Þótt tekið sé að hægja á vexti ferðaþjónustunnar benda skýrsluhöfundar á að markaðshlutdeild Íslands sé enn vel innan við eitt prósent af þeim 600 milljónum ferðamanna sem heimsækja Evrópu árlega, og því sé ekki útlit fyrir að mettun hafi verið náð sé rétt á málum haldið. Forsenda sjálfbærs vaxtar sé þó áframhaldandi hagræðing innan greinarinnar og stóraukin fjárfesting í innviðum, en þar geti erlendir fjárfestar lagt hönd á plóg.

„Erlendir fagfjárfestar geta vel gegnt mikilvægu hlutverki í þróun íslenskrar ferðaþjónustu, en framlag þeirra er ekki síður fólgið í alþjóðlegu tengslaneti og hugviti heldur en fjármagni. Skýrsla GAMMA er kjörin fyrir erlenda lesendur sem vilja kynna sér stöðu greinarinnar og þann mikla fjölda tækifæra sem felst í vexti hennar,“ segir Grímur Sæmundsen, stjórnarformaður Samtaka ferðaþjónustunnar og forstjóri Bláa lónsins.

Screen-Shot-2018-03-13-at-15.21.00

Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér: Tourism in Iceland

Senda grein