FréttirEndurmetin staða tveggja sjóða

2.10.2019

Á síðari hluta þessa árs réð stjórn GAMMA inn nýtt teymi sérfræðinga, í kjölfar þess að Kvika eignaðist allt hlutafé félagsins. Teymið hefur farið yfir  rekstur GAMMA og stöðu þeirra sjóða sem félagið rekur. Í kjölfar vinnu sérfræðinganna hefur gengi fagfjárfestasjóðanna GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia verið fært niður í samræmi við stöðu að mati núverandi stjórnenda GAMMA. Samhliða niðurfærslu hefur verið skipaður nýr sjóðstjóri í báðum sjóðum. 

Á síðari hluta þessa árs réð stjórn GAMMA inn nýtt teymi sérfræðinga, í kjölfar þess að Kvika eignaðist allt hlutafé félagsins. Teymið hefur farið yfir rekstur GAMMA og stöðu þeirra sjóða sem félagið rekur. Í kjölfar vinnu sérfræðinganna hefur gengi fagfjárfestasjóðanna GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia verið fært niður í samræmi við stöðu að mati núverandi stjórnenda GAMMA. Samhliða niðurfærslu hefur verið skipaður nýr sjóðstjóri í báðum sjóðum. Sjóðirnir eru sérhæfðir sjóðir sem fjárfesta í fasteignaþróunarverkefnum. Frá því að ljóst varð að staða sjóðanna var ekki með þeim hætti sem áður var gert ráð fyrir hefur nýtt teymi GAMMA unnið að því að upplýsa haghafa sjóðanna og verja virði eigna þeirra. Upplýsingablöð um ástæður fyrir breyttu mati á virði sjóðanna hafa verið send til sjóðsfélaga.

Við mat á stöðu GAMMA: Novus kom í ljós að eigið fé Upphafs fasteignafélags, sem er í eigu sjóðsins, var verulega ofmetið. Fyrir liggur að kostnaður við framkvæmdir verkefna á vegum félagsins er vanmetinn. Jafnframt var raunframvinda verkefna félagsins ofmetin. Sú staða sem upp er komin kallar á endurskipulagningu á fjárhag félagsins og nýja fjármögnun til að tryggja framgang verkefna og hámarka virði eigna.

Inni í félaginu eru verulegar eignir, þ. á m. 277 íbúðir í byggingu. Með sölu fullbúinna fasteigna verður hægt að ná verulegum endurheimtum af fjármunum kröfuhafa félagsins. Boðaður hefur verið fundur með skuldabréfaeigendum og viðræður hafa átt sér stað við aðra kröfuhafa um björgun félagsins.

Við mat á stöðu GAMMA: Anglia, sem er fagfjárfestasjóður um fjárfestingar í fasteignaþróunarverkefnum í Bretlandi, kom í ljós að verkstjórn eins samstarfsaðila sjóðsins var verulega ábótavant og kostnaður var vanmetinn. Hefur sjóðurinn fært fjárfestingar sem gerðar voru í samstarfi við umræddan aðila niður, auk kostnaðar við undirbúning byggingar fjölbýlishúss sem hafnað var af skipulagsyfirvöldum.

Nýir aðilar hafa verið ráðnir til að hafa umsjón með verkefnum GAMMA: Anglia í Bretlandi. Forgangsverkefni hjá nýju teymi GAMMA: Anglia til næstu mánaða er að hámarka endurheimtur skírteinishafa.

Forgangsmál nýrra stjórnenda GAMMA hefur verið að upplýsa fjárfesta sjóðanna og að verja virði eigna. Í framhaldinu munu stjórnendur GAMMA rannsaka, með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga eftir því sem við á, hvað fór úrskeiðis í sjóðunum tveimur.

Nánari upplýsingar veitir Máni Atlason, framkvæmdastjóri GAMMA; netfang: mani.atlason@gamma.is, sími: 519-3300.

Senda grein