Fréttir



  • Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða
    Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA

Brugðist hratt við

5.10.2017 Skoðun

Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, hrósar Seðlabankanum fyrir að bregðast hratt við í viðtali við Viðskiptamoggan í dag.

Samantekt: Í viðtali við Viðskiptamoggann í dag, hrósar Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, Seðlabankanum fyrir að bregðast hratt við hagtölum sem sýna hratt hjaðnandi verðbólgu og benda jafnframt til að slakinn úr hagkerfinu muni á næstu misserum fara hraðar úr hagkerfinu en áður var talið. Lækkun verðbólguvæntinga á markaði sýna að kjölfesta verðbólguvæntinga hefur styrkst sem gerir Seðlabankanum kleift að bregðast hraðar við en ella við nýjum fréttum. Vænta má áframhaldandi lækkun vaxta verði ekki stóráföll í ríkisfjármálum og á vinnumarkaði á næsta ári. 

Seðlabankinn tilkynnti um lækkun á stýrivöxtum um 0,25% í gær og eru þeir nú 4,25%. Þetta var þvert á spár greiningardeilda sem væntu þess að þeir yrðu óbreyttir. Bankinn hóf að lækka stýrivexti í ágúst fyrir ári, þegar hann lækkaði þá um 0,5% í 5,25%.

Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, fagnaði ákvörðun peningastefnunefndar. „Það er jákvæð þróun að Seðlabankinn virðist nú bregðast hratt við breytingum á hagkerfinu. Um þessar mundir er að hægjast á hagkerfinu og innflæði fjármagns vegna ferðamennsku. Á sama tíma hafa nýlega komið fram vísbendingar um að dregið gæti hraðar úr spennu á vinnumarkaði en áður var vænst. Seðlabankinn getur stigið þetta skref núna m.a. vegna þess að verðbólguvæntingar eru orðnar stöðugri og trúverðugleiki peningastefnunnar hefur farið vaxandi,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hann á von á því að Seðlabankinn haldi áfram að lækka vexti í ljósi þess að framleiðsluspennan muni líklega hjaðna talsvert á næsta ári og að undirliggjandi verðbólga sé jafnframt á niðurleið. 

„Það að verðbólguvæntingar hafi lækkað við vaxtalækkun Seðlabankans sýnir jafnframt að peningastefnan hefur núna góða kjölfestu og þolir áframhaldandi vaxtalækkanir, að því gefnu að ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn fari ekki verulega fram úr sér á næsta ári,“ segir hann. 

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir að ákvörðun peningastefnunefndar hafi komið á óvart. 

„Greiningardeildir færðu rök fyrir því að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í ljósi pólitískrar óvissu. Boðað hefur verið til þingkosninga sem leiðir til þess að óvissa ríkir um ríkisfjármálin. Í aðdraganda kosninga í fyrra byggði peningastefnunefnd rökstuðning sinn fyrir óbreyttum vöxtum á því að óvissa væri um ríkisfjármálin.“

Pólitísk óvissa

Spurður hvort æskilegt væri að Seðlabankinn horfði til pólitískrar óvissu segir hann svo vera, vegna þess að ríkisfjármálaáætlun varði veginn fyrir komandi ríkisútgjöld. Nú sé óvíst hvort stefnt verði að meiri eða minni afgangi af rekstri ríkisins. „Í ljósi þeirrar óvissu ætti peningastefnunefndin að vera aðhaldssamari en ella.“

Agnar Tómas segir að Seðlabankinn ætti ekki að horfa mikið til þeirrar pólitísku óvissu sem nú ríkir við ákvörðun stýrivaxta líkt og greiningardeildir hafa verið að kalla eftir. 

„Það er ómögulegt fyrir Seðlabankann að spá fyrir um hverjir muni sitja í ríkisstjórn að afloknum kosningum og hvaða afleiðingar það kann að hafa á ríkisfjármálin. Við ákvörðun stýrivaxta ætti Seðlabankinn fyrst og fremst að horfa til hagtalna og bregðast við þeim, líkt og hann gerir nú. Það á ekki að refsa komandi ríkisstjórn fyrirfram.“

Hann segir að Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti í fyrra á sama tíma og stjórnmálaflokkar reyndu í tvo mánuði að mynda ríkisstjórn. 

„Peningastefnunefnd minntist þá í yfirlýsingu sinni á óvissu um ríkisfjármál en lýsir þá jafnframt engum sérstökum áhyggjum nema aðhald fráfarandi ríkisstjórnar hafi þá slaknað. Rökin fyrir lækkandi vöxtum nú voru það knýjandi að óeðlilegt hefði verið að rökstyðja það með óvissu horft fram á veginn. Því mátti alveg búast við að vextir myndu lækka [í gær],“ segir Agnar Tómas.

Image001

Senda grein