FréttirBlessuð krónan

3.11.2016 Skoðun

Valdimar Ármann framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA skrifar í endahnút Viðskiptablaðsins í dag um styrkingu íslensku krónunnar

Blessuð krónan sem er spegill efnahagsástandsins á Íslandi er nú í miklum styrkingarham enda efnahagslífið á Íslandi í miklum blóma. 

Mörgum finnst þessi styrking miður mikil og hröð en líta framhjá ástæðum hennar og jákvæðum afleiðingum, heldur einblína á neikvæðar afleiðingar sem vissulega eru til staðar. Þá virðist gleymast í mörgum spám og efnhagsgreiningum að á Íslandi hefur á einungis nokkrum árum bæst við heill atvinnuvegur sem var varla til staðar áður og er nú farinn að standa til jafns við sjávarútveg og iðnað með ófyrirséðu gjaldeyrisinnstreymi. 

Nú hefur Seðlabankinn ekki undan að taka við gjaldeyri og kiknar undan ríflega 800ma forða af hreinum gjaldeyri vegna innflæðis gjaldeyris ferðamanna. Í ofanálag við stórkostlegt gjaldeyrisinnflæði er vaxtastigi enn haldið háu sem dempar útflæði gjaldeyris til fjárfestinga erlendis . Vaxtamunur upp á 5% í núverandi árferði er einfaldlega allt of mikill og byggir á gömlu forsendunum um samsetningu hagkerfisins og gjaldeyrisflæðið. 

Það er ekki hægt að líta í baksýnisspegilinn eingöngu heldur verður að taka tillit til nýrra forsendna og hvernig þær hafa áhrif á hagkerfið og síðan á hagspár. Þá hlýtur ein lykilniðurstaðan við þessa umbyltingu á samsetningu íslenska hagkerfisins að vera sú að jafnvægisraungengi hafi breyst og þá líklega á þann hátt að það er sterkara sem þýðir að hagkerfið er í jafnvægi við sterkara gengi krónu en áður. Þá má ekki gleyma að verð krónunnar endurspeglar ekki einungis styrk íslenska hagkerfisins heldur einnig veikleika mótmyntarinnar. Á sama tíma og staða íslenska hagkerfisins er mun sterkari; hrein erlend staða hefur farið úr heillri neikvæðri þjóðarframleiðslu í jákvæða stöðu, hafa skuldir og fjárlagahalli annarra vestrænna ríkja aukist undanfarin ár. 

Hefðbundin viðmið yfir jafnvægisraungengi liðinna áratuga eiga því einfaldlega ekki við í dag.

- Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 3. nóvember 2016.

Senda grein