Fréttir  • Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi
    Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi

Áskorun að fylgja eftir örum tæknibreytingum

1.9.2017 Skoðun Starfsemi

Valdimar Ármann forstjóri GAMMA í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins um uppgang GAMMA, tækifæri og áskoranir. 

Mikill uppgangur er hjá GAMMA og fyrirtækið farið að auka umsvif sín erlendis með opnun skrifstofa í London og New York. Valdimar settist í forstjórastólinn fyrr á árinu og ljóst að hann mun hafa í mörg horn að líta.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

GAMMA hefur stækkað umtalsvert síðustu árin og það er ánægjulegt að sjá eignir í stýringu vaxa og fjölda viðskiptavina bætast í hópinn. Við höfum einnig aukið sjóðaúrvalið hjá okkur með því að bæta við erlendum sjóðum auk þess að opna skrifstofur í London, NewYork og Sviss en langþráð afnám gjaldeyrishafta er stærsta breyting sem hefur átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði frá því þau voru sett á. Unnið hefur verið markvisst að því hjá okkur undanfarin ár að undirbúa erlendar fjárfestingar enda eru þær einkar mikilvægar til áhættudreifingar á íslensku sparifé. Samhliða höfum við byggt upp mjög öflugt teymi í fyrirtækjaráðgjöf, sem er vaxandi þáttur í starfsemi GAMMA.

Hvaða bækur og hugsuðir hafa haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Það er erfitt að nefna einn ákveðinn en bókin Atlas Shrugged eftir Ayn Rand fannst mér mjög áhrifamikil og í raun saga sem ætti að vera skyldulesning á framhaldsskólastigi. Þá las ég snemma bækurnar Random Walk down Wall Street eftir Burton Malkiel og Against the Gods: The Remarkable Story of Risk eftir Peter Bernstein; og höfðu þær töluverð áhrif á mig og eru mér mjög minnisstæðar. Jafnframt fylgist ég vel með Nassim Nicholas Taleb og les allt sem frá honum kemur en hann hefur einstaka sýn á fjármálamarkaðinn.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Klárlega Kevin Costner, hann er langflottasti leikarinn og myndi að sjálfsögðu leika mig. Konan mín myndi hins vegar kjósa Ed Harris í hlutverkið!

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Mér finnst best að lesa bækur og greinar til að halda þekkingunni við og læra um nýja hluti en fjármálamarkaðurinn er í mikilli þróun þessi misserin. Þá er gott að sækja ráðstefnur og fyrirlestra, sérstaklega til þess að kynnast nýju fólki, ná óformlegu spjalli og viðhalda tengslum.

Hugsarðu vel um líkamann?

Markmiðið er að ná jafnvægi milli mataræðis og hreyfingar án einhverra öfga. Ég reyni alltaf að koma að reglulegri hreyfingu og rækta líkama og sál. Helst hef ég verið að hlaupa og hef tekið tvö maraþon en maraþon er skemmtilegt markmið til að æfa fyrir. Nú er ég aðeins að byrja að hjóla meira og er að uppfæra hjá mér með mjög áhugaverðu nýju hjóli sem er íslenskt hugverk og hönnun.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Rekstrarumhverfið á fjármálamarkaði er margþætt og hefur marga fleti sem býður aðilum uppá að geta sérhæft sig eða verða umsvifamiklir. Mikil áskorun felst í að fylgja eftir örum tæknibreytingum og fjárfesta í heimi þar sem vaxtastig er lágt. Það þarf því að vera sífellt á tánum til að ná árangri. Nokkur gerjun hefur verið á þessum markaði hér á landi, sem ekki er enn lokið. Tveir viðskiptabankar eru í höndum ríkisins og annar banki í söluferli. Það er því ljóst að breyting verður á rekstri fjármálafyrirtækja þótt óljóst sé í dag í hverju það felst nákvæmlega.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Tel að það sé fjöldinn allur af lögum sem þyrfti að breyta og stuðla að því að auka frelsi einstaklingsins og losa um viðjar reglugerða og lagabálka sem hafa aukið umsvif ríkisins allt of mikið.


HIN HLIÐIN

NÁM: 

  • Verzlunarskóli Íslands, stúdent árið 1997.
  • Háskóli Íslands, BSc í hagfræði árið 2000.
  • ICMA Centre, University of Reading, MSc Financial Engineering árið 2003.

STÖRF: 

  • Búnaðarbankinn Verðbréf 1999-2002, hóf störf þar í bakvinnslu með skólanum og starfaði síðan í afleiðumiðlun.
  • ABN AMRO Bank í London 2003-2006 og í ABN AMRO Bank og Royal Bank of Scotland í New York 2006-2009, sérfræðingur í verðbólgutengdum afurðum.
  • GAMMA frá árinu 2009, sjóðsstjóri, framkvæmdastjóri sjóða og nú forstjóri.

ÁHUGAMÁL: 

Hef gaman af áhugamálum sem fela í sér útiveru og hreyfingu eins og skíðum, veiði, hjólum og hlaupum.  Reyni að ferðast mikið með fjölskyldunni, bæði að skoða Ísland og kynnast nýjum stöðum og menningu erlendis.

FJÖLSKYLDUHAGIR: 

Ég er kvæntur Jóhönnu Helgadóttur arkitekt og skipulagsfræðingi og á með henni þrjú börn.

Senda grein