Fréttir  • Gislihauksson

115 milljarðar í stýringu hjá GAMMA í árslok 2016

11.5.2017 Starfsemi

Sjóðir GAMMA skiluðu mjög góðri ávöxtun á síðasta ári.

Hagnaður GAMMA Capital Management á árinu 2016 nam 846 milljónum króna eftir skatta samkvæmt rekstrarreikningi félagsins samanborið við 417 milljóna króna hagnað árið 2015. Heildartekjur félagsins námu 2.156 milljónum króna á meðan rekstrarkostnaður var um 1.059 milljónir króna.

Eigið fé félagsins í árslok nam 1.728 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 52,2%. Lágmarkskrafa um eigið fé verðbréfafyrirtækja er 8%. 

Á árinu 2016 voru tveir verðbréfasjóðir, sex fjárfestingasjóðir og 25 fagfjárfestasjóðir í rekstri hjá félaginu. Þrír nýir erlendir sjóðir voru stofnaðir á árinu og aðrir þrír sjóðir verða opnaðir á þessu ári. Eignir í stýringu hjá GAMMA námu rúmlega 115 milljörðum króna í lok árs 2016. Á árinu starfaði að meðaltali 21 starfsmaður hjá félaginu.

„Uppgjör ársins sýnir að rekstur GAMMA stendur traustum fótum. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun árið 2008 og var með um 115 milljarða króna í stýringu um síðustu áramót. Rekstur sjóðanna gekk vel á síðasta ári og ávöxtun var góð í öllum helstu eignaflokkum. Skýrist sá árangur fyrst og fremst af sýn og trú GAMMA á fjárfestingum í íslenska hagkerfinu. Á sama tíma heldur viðskiptavinum áfram að fjölga,“ segir Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA.

Í ágúst á síðasta ári fékk GAMMA sjálfstætt starfsleyfi frá fjármálaeftirliti Bretlands og hefur starfsemin þar fjölgað fjárfestingatækifærum erlendis fyrir viðskiptavini samhliða losun gjaldeyrishafta. Þrír nýir erlendir sjóðir voru opnaðir í fyrra og þrír til viðbótar verða kynntir síðar á þessu ári. Ásamt hefðbundinni starfsemi kemur GAMMA rausnarlega að eflingu íslenskrar menningar og lista heima og erlendis ásamt því að taka þátt í öðrum samfélagslegum verkefnum.

Senda grein