Fréttir



Vísitölur GAMMA - yfirlit yfir árið 2018

7.1.2019

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 3,7% á nýliðnu ári. Allar vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu nema hlutabréfavísitalan og báru verðtryggð ríkisskuldabréf hæstu ávöxtunina yfir árið eða 8,0%. Vægi fyrirtækjaskuldabréfa vex úr 14,3% í 19,1% af markaðnum í Markaðsvísitölu GAMMA á meðan vægi óverðtryggðra ríkisskuldabréfa lækkar.

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 3,7% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu nema hlutabréfavísitalan og báru verðtryggð ríkisskuldabréf hæstu ávöxtunina yfir árið eða 8,0%. Óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 3,1% og heildarvísitala ríkistryggðra skuldabréfa um 6,4%. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 7,2%, þar af hækkaði sértryggði hlutinn um 7,5%. Hlutabréfavísitala GAMMA lækkaði um 3,3% á árinu. Verðbólga var 3,7% á árinu (des-des) og raunávöxtun Markaðsvísitölunnar því 0,0% á árinu.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er umtalsverður munur á ávöxtun eignaflokka á milli ára. Til að mynda hækkaði Hlutabréfavísitala GAMMA um 49,9% árið 2015 borið saman við 0,1% árið 2016, 3,0% árið 2017 og síðan 3,3% lækkun yfir árið 2018. Mælt með Markaðsvísitölunni var árið 2018 það lakasta undanfarin 4 ár á eignamörkuðum. Þess má geta að ávöxtun allra vísitalna GAMMA var lakarið árið 2018 en árið áður.

Ávöxtun vísitalna GAMMA sl. 4 ár:

Avoxtun_sl_4ar

Áhugavert er að líta til þróunar vísitalnanna yfir árið. Þá er flökt á hlutabréfavísitölunni einna mest áberandi. Árið byrjaði vel á hlutabréfamarkaði og var vísitalan upp um 10% í lok apríl. Í kjölfarið tók við lækkunartaktur sem varði út árið og endaði vísitalan niður um 3,3%. Seinni hluti ársins litaðist að miklu leyti af „Wow-hyggjum“ þar sem markaðir, sérstaklega hlutabréf, sveifluðust mikið í kringum og í kjölfarið á skuldabréfaútboði félagsins. Mest fór hlutabréfavísitalan upp um +10,6% frá ársbyrjun þann 26. apríl en mesta lækkun frá ársbyrjun var -5,0% þann 30. október.

Aðrar vísitölur voru talsvert stöðugri yfir árið.

Þróun vísitalna GAMMA yfir árið:

Throun_visitalna

Innan ríkistryggðu skuldabréfavísitölunnar sýndu langir verðtryggðir flokkar bestu heildarávöxtunina á árinu bréfin með lengsta líftímann, RIKS30 [+9,9%] og HFF44 [+9,4%], voru með hæsta ávöxtun en styttri verðtryggð bréf, HFF24 [+7,9%] og RIKS 21 [+7,5], sýndu einnig góða ávöxtun. Á móti var heildarávöxtun RB31 [+1,6%] og RB28 [+1,9%] lökust.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra skuldabréfa á árinu:

Heildaravoxtun


Ávöxtun hlutabréfa innan vísitölunnar var æði misjöfn á árinu, en Hagar [+33%] sýndi bestu ávöxtunina á meðan Sýn [-38%] og Icelandair [-34%] þá lökustu.

Breytingar urðu á vísitölunni á árinu en Arion banki bættist við á árinu. Félög innan vísitölunnar eru því 14 talsins í upphafi árs 2019.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra hlutabréfa á árinu:

4_heildaravoxtun

Skuldabréfin í fyrirtækjavísitölunni eru nú orðin 30 talsins, þar af 19 sértryggð skuldabréf. Sértryggðu bréfin eru nú 67% af markaðsvirði vísitölunnar en um síðustu áramót stóð þetta hlutfall í 72%.

Samsetning Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa um áramótin:

5_samsetning

Núverandi samsetning Markaðsvísitölu GAMMA er 39,1% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 15,8% óverðtryggð ríkisbréf, 26,0% hlutabréf og 19,1% fyrirtækjaskuldabréf. Mesta breytingin á árinu er aukning fyrirtækjaskuldabréfa úr 14,6% í 19,1%. Óverðtryggð ríkisskuldabréf lækka úr 19,0% í 15,8% aðrar breytingar eru innan við 1%-stig.

Samsetning Markaðsvísitölu GAMMA:

6_samsetning_markadsvisitolu

Heildarmarkaðsvirði Markaðsvísitölu GAMMA í árslok 2017 var 2.680 milljarðar (105% af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2017). Árið 2018 hækkaði heildarmarkaðsvirðið um 175 milljarða og endaði því í 2.855 milljörðum. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 159 milljarða á árinu (úr 409 milljörðum í 568 milljarða) og vísitala hlutabréfa hækkaði um 20 milljarða (úr 698 milljörðum í 718 milljarða).

Velta með fyrirtækjaskuldabréf eykst en velta með allt annað lækkar

Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2017 var 1.452 milljarðar, eða um 5,8 milljarðar á dag að meðaltali. Þetta er nokkur lækkun frá 2017 en þá var heildarvelta 1.644 milljarðar og lækkun í veltu því um 12%. Velta hlutabréfavísitölunnar lækkaði um 19% á milli ára á meðan verðtryggð og óverðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu um 11% og 14%. Velta fyrirtækjaskuldabréfavísitölunnar hækkaði hins vegar um 22% á milli ára.

Skipting heildarveltu ársins eftir eignaflokkum:

7_skipting_heildarveltu

Af einstökum vísitölum var mest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf [GAMMAxi] eða 628 ma. (43% af heild), næst var Hlutabréfavísitala GAMMA með 490 ma. (34%), þar á eftir Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa með 199 ma. (14%) og loks vísitala verðtryggðra skuldabréfa [GAMMAi] með 137 ma. (9%).

Þróun á veltu Markaðsvísitölunnar yfir árið:

8_throun_markadsvisitolunnar

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið. Allar nánari upplýsingar um Vísitölur GAMMA má nálgast á heimasíðu GAMMA hér: http://www.gamma.is/visitolur/

Hægt að óska eftir að fá vísitölugildi send daglega í tölvupósti með því að láta vita á gamma(at)gamma.is eða síma 519-3300.

Senda grein