Fréttir



  • C40bygging

Tillaga GAMMA og samstarfsaðila í C40 vann

Frétt

22.5.2019

GAMMA leiddi þátttöku hóps sem vann samkeppni C40 um umhverfisvæna byggingu og vistvænt skipulag á reit á Malarhöfða hjá Elliðaárvogi.

GAMMA ásamt samstarfsaðilum Klasa og Arnarhvoli og hönnunarteymi Jakob+Macfarlane, Tark, Landslag og með Eflu sem umhverfissérfræðinga tók þátt í alþjóðlegri samkeppni um sjálfbæra byggingu á svokölluðum Ártúnsreit í Reykjavík. Samkeppnin er haldin um byggingar á lóðum í fjölda borga um allan heim á vegum C40 Cities Climate Leadership Group.

GAMMA er stolt að segja frá því að tilkynnt var í dag á ráðstefnu í Noregi að verkefni hópsins „Lifandi landslag“ hafi unnið samkeppnina á sínum reit þ.e. á Malarhöfða hjá Elliðaárvogi.

GAMMA telur mikilvægt að stuðlað sé að þróun og nýsköpun á vistvænu skipulagi og uppbyggingu vistvænna byggða og húsa. Aðkoma fjárfesta að grænum og umhverfisvænum byggingum og vistvænu skipulagi er nauðsynleg til að ná fram markmiðum um sjálfbærar byggingar og minnkandi kolefnisspor.

Samkeppnin tekur til skipulags, umhverfis og byggingar. Byggingin er gerð með það að leiðarljósi að vera kolefnishlutlaus og munu íbúðir hússins hýsa fjölbreyttan hóp fólks, fjölskyldur, námsmenn og eldri borgara. Auk þess verða veitingastaðir, verslanir og leikskóli í byggingunni. Þá er staðsetning einkar góð þegar horft er á aðgengi að almenningssamgöngum en í núverandi skipulagi verður þar biðstöð fyrir Borgarlínu. Hópurinn vonast til þess að verkefnið komi til með að vera fordæmisgefandi fyrir önnur verkefni í náinni framtíð, og GAMMA þakkar samstarfsaðilum og hönnunarteymi fyrir frábæra vinnu við þetta einstaka verkefni.

Hér má sjá nánari upplýsingar um samkeppnina og verkefnið á þessum hlekk.

Teikning af byggingunni

C40bygging

Staðsetning á reitnum

C40yfirlit


Senda grein