Fréttir



Sérhæfðar lánveitingar utan bankageirans

26.1.2018 Skoðun

Ellert Arnarson, sjóðsstjóri hjá GAMMA, skrifar um innkomu fjártæknifyrirtækja sem bjóða lán með áherslu á rafræna þjónustu.

Árhundruðum saman hafa lánveitingar til einstaklinga og fyrirtækja á þróuðum mörkuðum jafnan átt sér stað í gegnum viðskiptabanka, sem fjármagna sig meðal annars með því að taka við innlánum frá almenningi. Seinasta áratug eða svo hefur ný tegund fyrirtækja – sérhæfð lánafyrirtæki og fjártæknifyrirtæki (e. fintech) – tekið skrefið inn á markaðinn og boðið lánavörur með áherslu á rafræna þjónustu.

Ellert---Grein-i-VB-25.01.18Segja má að breska fyrirtækið Zopa hafa rutt braut fjártæknifyrirtækja árið 2005 þegar það hóf að bjóða upp á svokölluð jafningjalán, sem merkir að milliliðurinn á milli fjárfesta og endanlegs lántaka, þ.e. bankinn, er tekinn út úr jöfnunni og lánin eru seld beint til fjárfesta í gegnum nýja hugbúnaðarlausn. Bandarísku fyrirtækin Prosper og Lending Club fylgdu í kjölfarið ári síðar með sínar eigin lausnir. Þess má geta að Lending Club er nú skráð í kauphöllina í New York og er hlutafé þess metið á um 180 milljarða íslenskra króna.

Með stofnun þessara fyrirtækja var grunnurinn lagður að þeim markaði sem er til staðar í dag, en þúsundir slíkra fyrirtækja eru nú í rekstri um heim allan og spáð er að virði útlána árið 2018 verði um 500 milljarðar bandaríkjadollara, þar sem Kína er langsamlega stærsti markaðurinn og á eftir fylgja Bandaríkin, Bretland og Japan. Þær lánategundir sem eru fyrirferðarmestar eru almenn neyslulán, námslán og fasteignalán til einstaklinga til viðbótar við fyrirtækjalán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Fyrirtæki af þessum toga eru ekki með fullt bankaleyfi og því óheimilt að taka við innlánum frá almenningi. Gróflega má skipta þeim upp í tvo flokka eftir því hvernig fjármögnun útlána er útfærð.

Bein sala á lánum (e. marketplace lender)

Annars vegar er um að ræða fyrirtæki sem eru eingöngu tengiliðir milli lántaka og fjárfesta, eins og áðurnefnt Lending Club. Þessi fyrirtæki selja því sem næst öll veitt útlán beint til fjárfesta og halda því ekki eftir neinni vanskilaáhættu. Tekjur fyrirtækja sem fjármagna sig með þessum hætti eru á formi ýmissa gjalda eins og upphafs-, lántöku- og þjónustugjalda.

Útlán á efnahagsreikningi (e. balance-sheet lender)

Á hinn bóginn eru fyrirtæki sem beita eigin efnahagsreikningi við veitingu útlána. Vaxtatekjur eru þá hluti af tekjum fyrirtækisins auk áðurnefndra gjalda, en á móti tekur fyrirtækið á sig tapið ef lán lendir í vanskilum. Fjármögnun lánveitinga getur verið af ýmsum toga, allt frá hlutafjárframlagi á fyrstu stigum rekstursins til lánalína frá bönkum og fjárfestingarsjóðum. Lánalínurnar eru notaðar af lánveitendum til þess að veita útlán og byggja upp lánasafnið. Þegar stærð lánasafnsins er orðin ákjósanleg eru lánalínurnar endurfjármagnaðar með verðbréfum og útgáfu eignavarinna skuldabréfa, sem gerir lánveitanda kleift að draga enn frekar á lánalínur til nýrra lánveitinga. Þá fá fyrirtækin gjarnan lánshæfiseinkunn á skuldabréfin til að auka traust fjárfesta á undirliggjandi lánasafni og lágmarka þannig fjármagnskostnað sinn.

Líkt og áður segir er þetta nokkuð gróf flokkun og eru einnig til fyrirtæki sem nýta sér báðar leiðir til fjármögnunar, þ.e. selja sum lánin beint af efnahagsreikningi til fjárfesta en halda öðrum eftir á efnahagsreikningnum.

Viðbrögð banka og framhaldið

Tilkoma hinna nýju lánveitenda er hluti af stærri umbyltingu í umhverfi fjármálafyrirtækja, þar sem örar tæknibreytingar, lagaog reglugerðarbreytingar ásamt breyttum væntingum og kröfum viðskiptavina hafa opnað á ný tækifæri. Ísland hefur heldur ekki farið varhluta af þessari þróun og eru ýmis fyrirtæki utan hefðbundinna fjármálafyrirtækja farin að veita einstaklingum og fyrirtækjum lánafyrirgreiðslu.

Bankar hafa brugðist við þessum breytingum á ýmsan hátt, m.a. með því að fara í samstarf með fjártæknifyrirtækjum og/eða gerast fjárfestar í þeim, eða bjóða upp á rafrænar lánalausnir undir eigin formerkjum. Bandaríski bankinn Goldman Sachs hefur til að mynda stofnað vörumerkið Marcus sem veitir óveðtryggð lán og býður auk þess upp á sparnaðarleiðir og var lánabókin fljótt komin yfir 2 milljarða dollara.

Áhugavert verður að fylgjast með framgangi þessara fjártæknifyrirtækja og áhrifum þeirra á þau fjármálafyrirtæki sem fyrir eru næstu misserin. Í öllu falli ætti aukin samkeppni að vera viðskiptavinum til góða. Enn fremur hefur þessi þróun þann möguleika fyrir hendi að minnka kerfisáhættu hagkerfisins með því að dreifa áhættu á fleiri lánveitendur og fjárfesta.

Ellert Arnarsson er sjóðsstjóri hjá GAMMA Capital Management

- Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 25. janúar 2018.

Senda grein