Fréttir



Rekstrarumhverfið á eyríkinu Íslandi

3.5.2018 Starfsemi

Á dögunum fór fram ráðstefna í Hörpu undir yfirskriftinni „Rekstrarumhverfið á eyríkinu Íslandi''. Ingvi Hrafn Óskarsson, framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá GAMMA, flutti þar erindi.

Þann 24. apríl fór fram  ráðstefna í Hörpu undir yfirskriftinni „Rekstrarumhverfið á eyríkinu Íslandi“ í tilefni þess að ár er liðið frá því að gjaldeyrishöftin voru að mestu afnumin. Ingvi Hrafn Óskarsson, framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá GAMMA, fluttiþar erindi og fjallaði um ávinningin af erlendri fjárfestingu, stöðuna í dag og þær hindranir sem hægt er að ryðja úr vegi til þess að vinna frekar að uppbyggingu skuldabréfamarkaðar hér á landi.

Fjallaði Ingvi m.a. um innflæðishöftin en skv. íslenskum reglum þurfa erlendir fjárfestar sem hyggjast kaupa skuldabréf á markaði að leggja fjárhæð sem samsvarar 40% af fjárfestingunni inn á vaxtalausan reikning í Seðlabankanum. Bent var á að þetta fyrirkomulag tíðkist hvergi í ríkjum sem við viljum bera okkur saman við. 

Tilgangurinn sé að koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti, en áhrifin sé langtum víðtækari og alvarlegri.  Fyrirkomulagið komi niður á möguleikum fyrirtækja til að sækja sér langtímafjármögnun á skuldabréfamarkaði, jafnvel hjá fjárfestum með langan sjóndeildanhring, og eigi að verulegu leyti sök á því að erlend þátttaka á innlendum skuldabréfamarkaði sé í mjög lítil hér á landi. 

Á meðal annarra ræðumanna voru Pétur Halldórsson forstjóri Nox Medical og Bragi Fjalldal framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Meniga sem ræddu um þær áskoranir sem nýsköpunarfyrirtæki standa andspænis, og Hekla Arnardóttir hjá Crowberry Capital sem fjallaði um fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. 

Haraldur Hallgrímsson forstöðumaður hjá Landsvirkjun, Jóhann Þór Jónsson formaður Samtaka gagnavera og Þórunn Ólafsson lögmaður, fjölluðu um uppbyggingu gagnaveraþjónustu á Íslandi. Þá fjallaði Páll Jóhannesson lögmaður um þróun skattamála á síðustu árum, sem hefur verið í átt að lægri skattþrepun, en engin slík stefna hefur verið mörkuð hér á landi. Þórður Hilmarsson hjá Íslandsstofu fjallaði um stefnumótun hins opinbera í þágu erlendrar fjárfestingar.

Að ráðstefnunni stóðu auk GAMMA, Viðskiptaráð, Samtök Atvinnulífsins, Íslandsstofa, SKR lögfræðiþjónusta og Grant Thornton."

Fundur_Rekstrarumhverfid_Ingvi

Senda grein