Fréttir



Birtir yfir

13.6.2014 Skoðun

Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, skrifaði grein í Fréttablaðið í vikunni um þann bata sem á sér stað í íslensku efnahagslífi.

Birtir yfir

Nú í sumarbyrjun ársins 2014 er batinn auðsær í íslensku efnahagslífi. Eftir tímabundið bakslag á síðasta ári hefur hagkerfið tekið aftur við sér og samkvæmt uppfærðri spá Seðlabanka Íslands er útlit fyrir 3,7% hagvöxt á þessu ári sem er 1% hækkun á fyrri spá. Einnig er gert ráð fyrir enn meiri hagvexti á næsta ári en áður var spáð. Aðrir greiningaraðilar hafa jafnvel verið að spá töluvert meiri hagvexti en Seðlabankinn. Fram til þessa hefur vöxtur hagkerfisins einkum stafað af útflutningi, einkum þó þjónustuútflutningi og ferðaþjónustu. Nú er útlit fyrir að fjárfesting, sem hefur sárlega vantað, sé að taka við sér. Er bæði um að ræða fjárfestingu í iðnaði sem og í mannvirkjagerð.

Aukin umsvif í hagkerfinu hafa skilað sér í lægra atvinnuleysi en samhliða hefur verið aukinn órói á vinnumarkaði. Líklega er of snemmt að segja til um hvaða langtímaáhrif nýir samningar muni hafa á kjör launafólks og hagkerfið í heild sinni. Í ofanálag koma til framkvæmda skuldaleiðréttingar verðtryggðra íbúðalána á haustmánuðum sem ættu að hafa jákvæð áhrif á stöðu heimilanna og þannig hvetja áfram einkaneyslu.

Veikleiki Íslands

Hagkerfið er nú í þeirri stöðu að saman fer hraður hagvöxtur og lág verðbólga. Hins vegar hefur veikleiki Íslands iðulega legið í stöðu greiðslujafnaðar. Sterkt gengi krónunnar hefur m.a. haldið verðbólgu niðri en spurning er hversu lengi hagkerfið þolir svo sterka krónu miðað við þær spár að hagkerfið sé komið í spennu strax í lok þessa árs. Óhjákvæmilegt er að einkaneysla aukist með vaxandi hagvexti sem hefur í för með sér aukinn innflutning og þ.a.l. versnandi vöruskiptajöfnuð og mögulegan þrýsting á krónuna. Það er því ef til vill ekki að undra að verðbólguvæntingar til næstu ára hafa ekki lækkað til jafns við skammtíma verðbólgu sem gefur mögulega til kynna að núverandi jafnvægi hagkerfisins sé tímabundið.

Yfir öllum spám og áætlunum hvílir þó óvissan um áætlun afnáms gjaldeyrishafta þ.e. hvernig og hvenær þau skref verða stigin. Betri staða þjóðarbúsins, skýr stefna í ríkisfjármálum og niðurgreiðsla skulda ætti að stuðla að betra lánshæfi og laða að frekari erlenda fjárfestingu sem hlýtur til lengri tíma að vera grundvöllur fyrir bæði háu fjárfestingarstigi og hröðum hagvexti. Það ætti því að vera forgangsmál að opna landið fyrir frjálsum fjármagnsflutningum að fullu, hvort sem það sé gert með eða án íslensku krónunnar.

Höfundur er Valdimar Ármann, sjóðsstjóri hjá GAMMA.

- Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júní 2014. 

Senda grein