Fréttir



Eyða þarf sem fyrst óvissunni um Seðlabankann

22.2.2014 Skoðun

Brýnt er að ríkisstjórnin eyði sem fyrst óvissunni um Seðlabankann segir Valdimar Ármann, hagfræðingur og framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, í viðtali við Fréttastofu Sjónvarps.

Eyða þarf óvissunni um Seðlabankann

Brýnt er að ríkisstjórnin eyði sem fyrst óvissunni um Seðlabankann. Skýra þarf hvort bankastjórum verður fjölgað, hvernig þeir verða valdir og hvernig peningastefnunefnd verður skipuð, segir hagfræðingur hjá fjárfestingarfélaginu GAMMA.

Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að auglýsa stöðu Seðlabankastjóra en skipunartíma Más Guðmundssonar lýkur innan hálfs árs. Breska blaðið The Telegraph segir að stjórnvöld hafi tilkynnt ákvörðun sína eftir ósætti við Má vegna gagnrýni á skuldalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar.

Hagfræðingur og framkvæmdastjóri sjóða hjá félaginu GAMMA tekur ekki undir þá ályktun Telegraph að tengsl séu milli gagnrýni Seðlabankans og þess að nú sé ákveðið að auglýsa stöðu seðlabankastjóra. Það hafi legið fyrir allan tímann hvenær skipunartíma Más ljúki. Hins vegar ríki óvissa um bankann og seðlabankastjóra og henni þurfi að eyða.

„Það er ákveðin óvissa til staðar sem felst í því hvernig hann muni verða skipaður í framtíðinni, verður einn seðlabankastjóri eða verða þrír, og hvernig verða þessir nýju tveir valdir, verða gerðar sömu hæfniskröfur til þeirra og núverandi staki seðlabankastjóri valinn, og svo í framhaldinu, verður áfram aðstoðarseðlabankastjóri, verður peningastefnunefnd skipuð á sama hátt og svo framvegis,“ segir Valdimar Ármann, hagfræðingur hjá GAMMA.

„Óvissan felst kannski að mestu leyti í því að menn átta sig ekki á því hvort nýir seðlabankastjórar gætu mögulega verið valdir inn á grundvelli þess hvernig þeir muni haga sínum vaxtaákvörðunum í framtíðinni, hvort við væntum þess þá að framtíðarseðlabankastjóri muni viðhalda hér lægra vaxtastigi en aðrir seðlabankastjórar og mögulega leyfa hagkerfinu að vera í meiri verðbólgu en ella,“ segir Valdimar. Hann segir ríkisstjórnina þurfa að útskýra fyrirkomulag seðlabankans í framtíðinni, sem allra fyrst.

- Fréttin birtist í sjónvarpsfréttum RÚV. 

Senda grein