Fréttir



Eðli og umfang verðtryggingar erlendis

17.9.2012 Skoðun

Því fer fjarri að verðtrygging sé bundin við Ísland eða tengist eingöngu ríkjum þar sem verðbólga er mikil. Þvert á móti hafa verðtryggðir samningar rutt sér til rúms á mörkuðum þar sem engin þörf var talin á þeim.

Eðli og umfang verðtryggingar erlendis

Flest erlend ríki hafa ekki farið varhluta af verðbólgu frekar heldur en Ísland og tóku Bandaríkjamenn t.d. slag við hana þegar Gerald Ford forseti lýsti því yfir í ræðu þann 8. október 1974 að verðbólga væri „public enemy number one“ en þá var verðbólgan þar um 11% á ári. Var almenningur hvattur til að bera barmnælur með slagorðinu WIN til að minna alla á að samstaða væri eina leiðin til að ná tökum á verðbólgu en WIN stendur fyrir „Whip Inflation Now“. Nokkrum árum síðar tók Ronald Reagan líka þátt í baráttunni við verðbólgu á fyrstu árum forsetatíðar sinnar þegar hún var á bilinu 10-13% þrjú ár í röð og átti þessa frægu tilvitnun „Inflation is as violent as a mugger, as frightening as an armed robber and as deadly as a hit man“.

Verðtrygging vítt og breitt

Markaður með verðtryggða samninga í vestrænum ríkjum er tiltölulegu ungur en hefur vaxið hratt á undanförnum 10-15 árum og er verðtrygging nú vel þekkt á alþjóðlegum mörkuðum. Það sem helst er eftirtektarvert í samanburði við Ísland er að mjög lítill skulda heimila erlendis er verðtryggður, nema helst í sumum löndum Suður-Ameríku eins og Chile. Frekar eru það skuldir ríkissjóðs og verkefnatengd fjármögnun (t.d. fjármögnun á innviðafjárfestingu) sem eru verðtryggð. Það sem ýtir undir notkun á verðtryggingu er aukin vitund og vakning um stýringu eigna að teknu tilliti til skuldbindinga og hefur það eflt markaðinn. Má sem dæmi nefna að töluvert er um verðtryggðar skuldbindingar (bæði óbeint og beint) hjá erlendum lífeyrissjóðum og tryggingafélögum. 
Því hefur fjárfestingarstefna margra stofnanafjárfesta breyst mikið og er nú leitast eftir því að minnka áhættu af mismun á eignum og skuldbindingum í stað þess að leitast eftir hámarksávöxtun á eignum.   Almennt séð má segja að verðtryggður markaður hefjist fyrir alvöru í vestrænum ríkjum árin 1997-1998 þegar Frakkland og Bandaríkin byrja að gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf en áður höfðu þó t.d. Bretland (1981), Kanada (1991) og Ástralía (1983) gefið út slíka pappíra. Með tilkomu Bandaríkjanna nær þessi vara til mun stærri fjárfestahóps en áður og vekur ekki bara áhuga fjárfesta heldur einnig fræðimanna innan háskólasamfélagsins. Í fyrstu voru helstu kaupendur lífeyrissjóðir og tryggingafélög vegna sinna verðtryggðu langtímaskuldbindinga og almennir verðbréfasjóðir að leita eftir áhættudreifingu. 

Ríkið kemur til skjalanna

Útgáfa verðtryggðra ríkisskuldabréfa óx hratt og tífaldaðist markaðurinn að stærð á um áratug. Brátt varð mest þekking á verðtryggðum skuldabréfum á evrópska markaðinum, þó að stærð þess bandaríska hafi yfirgnætt alla aðra. Ríkisskuldabréf og verðlagning á þeim mynda ákveðinn grunn á fjármálamarkaði sem hægt er að notast við til að verðleggja aðrar afurðir, t.d. skiptasamninga og valrétti. Með flóknari fjármálasamningum verða til fleiri tækifæri og fleiri fjárfestar drógust að markaðinum. Ekki leið á löngu þangað til vogunarsjóðir fóru að veita þessum nýju tegundum verðbréfa og samninga athygli þar sem þeir gátu bæði notað þau til stöðutöku á verðbólguna sjálfa sem og til að finna högnunartækifæri.   
Ekki var langt liðið á fyrsta áratug þessarar aldar að kaupendahópurinn að verðtryggðum eignum var orðinn mjög breiður. Margir litu til verðtryggðra skuldabréfa á alþjóðamörkuðum til áhættudreifingar og sem tækifæri til aukinnar ávöxtunar. Meiri umsvif, fleiri þátttakendur og aukið úrval af verðtryggðum vörum jók svo bæði framboð sem og eftirspurn eftir verðtryggðum fjármálagjörningum. Í lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar voru bæði Japan og Þýskaland farin að gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf. Áður var talið að þessi lönd þyrftu alls ekki á verðtryggingu að halda. Þannig kom það bersýnilega í ljós að það þarf ekki endilega að vera mikil verðbólga til að verðtryggðar fjármálavörur séu gjaldgengar. 

Tvenns konar markmið

Hægt er að skipta helstu þáttakendum á verðtryggðum markaði í tvo hópa þ.e. þá sem þurfa áhættuvarnir og þá sem stunda spákaupmennsku. Í hópnum sem þarf áhættuvarnir eru t.d. lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem „skulda“ verðbólgu og vilja þannig fá verðbólgu greidda þ.e. verðtryggðar tekjur. Á hinni hliðinni í áhættuvörnum eru t.d. fasteignafélög sem fá verðbólgu greidda til sín í gegnum leigusamninga og vilja þau því „selja“ verðbólguna frá sér þ.e. vera með verðtryggð gjöld. Einnig eru mörg verkefni tengd innviðafjármögnun tengd verðbólgu t.d. vegtollar ýmis konar. Spákaupmenn vilja fá verðbólgu greidda ef þeir telja að markaðurinn vanmeti framtíðarverðbólgu en vilja greiða hana ef þeir telja að hún sé ofmetin. Hér má t.d. nefna vogunarsjóði, fjárfestingarbanka og að einhverju leyti fjárfestingarsjóðir þjóðríkja.   
Af þessari upptalningu má sjá að því fer fjarri að verðtrygging sé bundin við Ísland eða tengist eingöngu ríkjum þar sem verðbólga er mikil. Þvert á móti hafa slíkir samningar rutt sér til rúms á mörkuðum þar sem engin þörf var talin á þeim fyrir nokkrum árum. Markmið sjóða og fjárfesta eru svo mismunandi að verðtrygging er af mörgum talin mjög gagnleg viðbót í flóru fjármálasamninga á markaði.  
 
Höfundur:
Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur hjá GAMMA

- Greinin var birt í Vísbendingu þann 12. september 2012, 36. tbl., 30. árg. 
Senda grein