Fréttir



Dýpsta kreppa Íslandssögunnar

5.8.2011 Skoðun

Í viðtali við Morgunblaðið segir Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, að kreppan 2008-2010 sé líklega sú dýpsta í Íslandssögunni. Einnig ræðir hann um verðbólgu og vaxtaþróun á næstunni og vaxtakostnað hins opinbera.

Innlent | mbl | 5.8.2011 

Dýpsta kreppa Íslandssögunnar

Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is
 
„Ég held að hún sé þegar orðin það vegna þess hversu djúp hún varð á árunum 2008 til 2010. Þetta er gjaldmiðlakreppa, bankakreppa og skuldakreppa ríkis og heimila,“ segir Gísli Hauksson, hagfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Gamma, aðspurður hvort kreppan nú sé sú dýpsta í lýðveldissögunni.

Ýtarlega er rætt við Gísla í Morgunblaðinu í dag um þá staðreynd að efnahagsfárviðrið í Evrópu gæti farið að setja strik í íslenskt efnahagslíf með haustinu, meðal annars vegna fyrirhugraðra vaxtahækkana í álfunni.

Hann ber saman áhrif hrunsins nær og fjær.

„Erlendis var kreppan djúp 2007 og 2008 en síðan risu flestar þjóðir nokkuð hratt upp og fengu tvö ár þar sem hagvöxtur var ágætur. Nú glíma menn hins vegar víða við skuldavandann. Kreppan 1989 til 1995 var ekki eins djúp en hins vegar langvarandi. Við komumst hins vegar á sama hagvaxtarferil á árunum 1996 og 1997 og við vorum á fyrir 1990.

Okkur tókst því að vinna kreppuskeiðið upp tiltölulega fljótt. Sama var upp á teningnum  eftir kreppuna 1966-1971. Nú eru hins vegar blikur á lofti um það hvort við séum aftur að fara á svipaðan hagvaxtarferil og hann hefur verið til lengri tíma á Íslandi. Það er ekki hægt að segja til um það strax en mín skoðun er þó sú að við séum ekki að sigla inn í sambærilegt viðreisnarskeið og eftir síðustu kreppu,“ segir Gísli sem telur að hrunið geti sett varanlegt mark á íslenskt efnahagslíf.

Varanlegar afleiðingar hrunsins

„Hagkerfið lenti í áfalli í efnahagshruninu 2008 sem hugsanlega hefur varanlegar afleiðingar, á borð við fólksflótta, lánsfjárskort og  miklar skuldir heimila og hins opinbera.

Þetta getur aftur valdið því að hagvöxtur verður minni í framtíðinni en ella ef í ljós kemur að hagkerfið varð fyrir svokölluðum kerfisskaða og fyrri hagvaxtarferill næst ekki. Hagkerfið hefur verið vaxa um 3-3,5% á ári að meðaltali síðastliðna tvo áratugi, þar af hefur framleiðnivöxtur verið 2-2,5% á ári en vöxtur vinnuaflsins um 1%.

Slíkur vöxtur nægir ekki til að ná niður atvinnuleysinu nú. Vegna langtímaáhrifa hrunsins eru líkur á að við séum að fara að horfa á hagvöxt sem verður undir þessu meðaltali. Við munum klárlega vaxa en þó hægar en áður.“

Verðbólgudraugurinn á kreik

Eins og Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics, bendir á í samtali við Morgunblaðið í dag hafa menn áhyggjur af því í Evrópu að lágt vaxtastig geti til lengri tíma ýtt undir verðbólgu.

Gísli telur útlit fyrir að verðbólgan muni fara af stað og ná hámarki með haustinu.

„Já, sú hætta er einnig til staðar hér á landi og alltaf hætta á víxlverkun launa og verðlags ef ekki er innistæða fyrir launahækkunum. Það er margt sem bendir til þess að kjarasamningarnir í sumar hafi verið fullbjartsýnir vegna þess að það bólar ekkert á því að fjárfestingar séu að fara í gang en þær voru forsenda samninganna. Síðustu 12 mánuði er verðbólgan á Íslandi um 5% sem er um 1-2% hærra en í nágrannalöndum okkar. Það má búast við því að það sem eftir er árs verði verðbólgan 2,5 til 3%.

Þannig fer verðbólgan eflaust hæst á tólf mánaða grunni í rúmlega 6% í október en ætti síðan að lækka á nýjan leik í lok árs og byrjun þess næsta.  Þessi verðbólga er að minnstu leyti tilkomin vegna aukinnar einkaneyslu heldur frekar vegna erlendra verðhækkana, veikingar krónu í byrjun árs og opinberra hækkana. 

Það verður mjög erfitt að láta einkaneyslu eina og sér standa undir hagvexti, ekki síst ef seðlabankinn ætlar að hækka vexti. En fjárfestingar og einkum beinar erlendar fjárfestingar í orkuiðnaði eru grundvöllur að efnhagslegri endurreisn Íslands eftir hrun. Það mun hægja á efnahagsbatanum hér ef seðlabankinn ákveður að hækka vexti og ef skuldakreppan í Evrópu og Bandaríkjunum dregst á langinn.“

Senda grein