Fréttir



Spyrjum okkur hvers vegna

6.5.2011 Skoðun

Lýður Þór Þorgeirsson, sjóðsstjóri hjá GAMMA, velti fyrir sér ýmsum áleitnum spurningum um lífið, tilveruna og fjármálakerfið í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í vikunni.

Spyrjum okkur hvers vegna

Af hverju skyldi ungu fólki vera kennt að beygja danskar sagnir en ekki t.d. grunnatriði heimilisbókhalds, fasteigna- og lánaviðskipta?

Rétta spurningin getur ráðið úrslitum um hvort við náum tökum á viðfangsefni eða ráfum niður í þokukenndan botnlanga rannsóknar sem engu skilar. En það er ekki sjálfgefið að við spyrjum spurninga yfirleitt. Saklaus en vel valin spurning getur vakið reiði og virkað sem hálfgert „pönk“ í augum menntaðs og vel upplýsts fólks.

Ágætur kunningi greinarhöfundar frá Saudi-Arabíu brást til að mynda ókvæða við undarlegum spurningum eyjaskeggsins um af hverju kvenkyns samlandar hans mættu ekki aka bíl og er ekki enn gróið um heilt eftir orðaskiptin sem fylgdu í kjölfarið. Af myndum að dæma virðast antilópurnar ekki vera í þungum þönkum yfir því af hverju hjörðin tekur skyndilega á rás. Þær hafa lært að best er að hlaupa bara með. Kríunum gefst góður tími á langri leið sinni framhjá Afríku hingað á norðurhjara til að hugleiða af hverju þær eru yfirleitt að yfirgefa góða veðrið. Þær virðast nú samt allar skila sér hingað.

Og það er aldeilis ofgnótt af kúnstugum spurningum. Af hverju tekur íslenska ríkið rúmlega helming af andvirði bensínlítrans í sinn vasa á sama tíma og eldsneyti er niðurgreitt í sumum öðrum löndum? Hvor leiðin er rétt, kannski báðar? Nýlega birtist stutt frétt um að yfirvöld á Kúbu hygðust hætta að borga með tóbaki fyrir eldri borgara í sparnaðarskyni. Það er margt skrítið í kýrhausnum. Af hverju skyldi annars fyrirkomulag skatta vera þannig að ómögulegt er venjulegu fólki að halda heimili með aðeins einni fyrirvinnu og ala upp ungabörn sín annarstaðar en á opinberum stofnunum?

Af hverju er atkvæðavægi kjósenda á Akranesi rúmlega tvöfalt á við vægi Seltirnings? Og af hverju skyldi ungu fólki vera kennt að beygja danskar sagnir en ekki t.d. grunnatriði heimilisbókhalds, fasteigna- og lánaviðskipta?

Vegna skipsbrots bankanna er lag að velta fyrir sér nokkrum fisléttum spurningum um fjármálakerfið - svona áður en rykið sest og við verðum á ný of upptekin við hið daglega amstur. Þrátt fyrir að við flest höfum unnið fyrir og handfjatlað peninga á hverjum einasta degi frá því við munum eftir okkur höfum við fæst velt fyrir okkur hvað peningar eru í raun og veru. Í daglegu stússi er krónan hálf óræð mælieining eins og metrinn sem á sína hárnákvæmu stálstöng á safni í París sem einhver mikill sérfræðingur eyddi án efa heilmiklum tíma að sverfa niður í akkúrat rétta lengd.

En aftur að krónunum og evrunum. Eru peningar ávísun á eitthvað, eins og hlutabréf er ávísun á part í fyrirtæki? Hvað fær sá sem réttir starfsmanni Seðlabankans lítinn bláan seðil með mynd af hattprúðri konu? Eitthvað annað en góðlátlegt bros? Og hver er annars munurinn á peningaseðli og innistæðu? Já, og hvar skyldu nú bankarnir geyma alla peningana sem sagt er að „liggi aðgerðalausir“ á innlánsreikningum? Eru þeir í hvelfingunni? Nei, ekki er allt sem sýnist.

Er það ekki skrítið að það kosti að leigja geymslupláss í vöruskemmu fyrir sófa og gamalt sjónvarp - en ef fjármunir eru geymdir í banka er það ekki bara ókeypis heldur greiðir bankinn rentu fyrir viðvikið? Nú, og ef innlánsreikningar eru áhættusamir – er ekki ráð að heimila almenningi að stofna öruggari reikning í Seðlabankanum, útgefanda peninganna? Hvaða áhrif myndi það annars hafa ef slíkt yrði leyft? Vekur svarið við þeirri spurningu ekki upp ýmsar áleitnar spurningar um uppbyggingu nútíma fjármálakerfis sem í sögulegu samhengi er einungis að slíta barnskónum?

Skyldu fjármálasérfræðingarnir aldrei velta fyrir sér í hljóði af hverju þeir mæla því bót að bankar fái fyrirgreiðslu „til þrautarvara“ frá ríkinu þegar aðrir lánadrottnar taka til fótanna en ekki fyrirtæki í öðrum mikilvægum atvinnugreinum eins og sjávarútveginum, heildsölu og bókaútgáfu?

En það er oft erfitt að rétta upp hönd og spyrja spurninga sem krefjast óþægilegrar naflaskoðunar um hegðun og fyrri lífsskoðanir. Hinn valmöguleikinn er nefnilega svo þægilegur, að gefa sér að alltaf sé góð og gild ástæða fyrir því að hlutirnir séu eins og þeir eru, skauta bara framhjá einkennilegum spurningunum og snúa sér að öðrum hugðarefnum sem hljóta nú flest að vera áhugaverðari. Bera sérfræðingarnir ekki alltaf hag okkar fyrir brjósti? Þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera, ekki satt?

- Greinina má einnig finna hér á vef Viðskiptablaðsins.

Senda grein