Fréttir



Afléttum höftum með upptöku annars gjaldmiðils

11.3.2011 Skoðun

Lýður Þór Þorgeirsson, sjóðsstjóri hjá GAMMA, skrifar um afnám gjaldeyrishafta og upptöku annarrar myntar.

Afléttum höftum með upptöku annars gjaldmiðils

Fjölmargir krefjast nú afnáms gjaldeyrishafta og eru skiljanlega orðnir óþreyjufullir. Höft sem upprunalega áttu einungis að styðja við krónuna í fáeina mánuði hafa nú verið í gildi í rúm tvö ár. Hafa sumir bent á að síðustu gjaldeyrishöft sem Alþingi samþykkti árið 1931 hafi verið að mestu í gildi í liðlega sextíu ár. Á því tímabili var genginu handstýrt og á löngu tímabili þurfti að leita til embættismanna um gjaldeyrisleyfi fyrir hverskyns innflutningi.

Saga krónunnar er ekki tilkomumikil. Óþægindi íslenskra heimila í bankahruninu voru fyrst og fremst vegna snöggrar veikingar gjaldmiðilsins. Meðalverðbólga frá 1940 hefur verið meiri en 15% á ársgrundvelli þó hún hafi verið í lægri kantinum síðustu tvo áratugi. Lítill pakki af morgunkorni myndi nú kosta 50.000 krónur úr nýlenduvörubúð ef ekki hefði verið skipt í nýkrónur árið 1981.

Þó krónan hafi til að bera flesta ágalla annarra þjóðargjaldmiðla er okkar helsti vandi að hún er svo smá. Þannig er hún ekki gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum og var það ekki einu sinni þegar uppsveiflan var hvað mest hér á landi. Lítill og flöktandi gjaldmiðill hækkar áhættuálag erlendra fjárfesta og skapar inn- og útflutningsfyrirtækjum margvísleg vandamál. Hugsa mætti sér hvaða hörmulegu áhrif það hefði á efnahagslíf Hull í Bretlandi ef borgarstjórnin þar tæki upp á að skylda íbúa borgarinnar til að skipta út Sterlingspundinu fyrir nýjar Hull krónur. Íbúar svæðisins um það bil jafn margir og Íslendingar.

Afnám gjaldeyrishafta

Til að skilja vandamálin því samfara að aflétta höftunum má ímynda sér hver atburðarásin yrði ef þeim yrði aflétt fyrirvaralaust og án nokkurs undirbúnings. Annars vegar er líklegt að óðara og rifa opnaðist á rimlahurð haftanna myndu fjölmargir fjármagnseigendur millifæra fjármuni sína af reikningum sínum hérlendis og yfir á reikninga erlendra banka. Hins vegar myndi án efa hressilegur hópur sem nú á seljanleg skuldaskjöl, svo sem skuldabréf ríkis og íbúðalánasjóðs, skipta þeim út fyrir eignir í erlendum myntum. Erfitt er að meta hversu háar upphæðir er um að ræða sem leituðu úr krónum í erlenda gjaldmiðla. Þær tölur sem nefndar hafa verið lýsa flestar heildareignum erlendra aðila en fleiri mikilvægir þættir spila inn í matið svo sem traust innlendra og erlendra fjárfesta á hagkerfinu, ríkisfjármálunum og myntinni sem og trúverðugleika afléttingu haftanna.

Ef menn sætta sig við umtalsverða veikingu krónunnar, ný lausafjárvandræði innlendra banka og hærri fjármögnunarkostnað ríkisins - er vitaskuld lítið mál að afnema höftin og leyfa krónunni að fljóta á ný. Umtalsverð almenn andstaða er þó skiljanlega við því.

Þrjár ástæður eru fyrir því að snúið er að aflétta gjaldeyrishöftunum án þess að skipta fyrst um mynt. Í fyrsta lagi þyrfti Seðlabankinn, að gefinni forsendu um stöðugt gengi, að kaupa af fjármagnseigendum hundruð milljarða á núverandi gengi og ganga þannig verulega á gjaldeyrisforða bankans sem nú er nánast allur fenginn að láni. Í öðru lagi yrði Seðlabankinn að veita innlendum fjármálafyrirtækjum samsvarandi lánsfjármögnun og næmi þeim fjárhæðum sem fjárfestar tækju út af innlánsreikningum til færslu til útlanda. Í þriðja lagi er ljóst að órói á skuldabréfamarkaði vegna söluþrýstings eigenda innlendra skuldabréfa myndi hafa neikvæðar afleiðingar á fjármagnskostnað ríkisins, a.m.k. þar til jafnvægi næðist.

Upptaka annarrar myntar

Vegna pólitísks veruleika er ólíklegt að það takist að ráðast í heildaruppskurð á núverandi fyrirkomulagi banka-, gjaldeyris og peningamála svo sem breytingar á viðskiptalíkani innlánsbanka (þ.e. skammtímafjármögnun langra útlána), opinberu gæðaeftirliti, innistæðutryggingum, opinberum lausafjárstuðningi til fjármálafyrirtækja og eiga gagnrýna umræðu um ríkisgjaldmiðla án eignatengingar. Langskásti millileikur Íslendinga í núverandi stöðu er því að taka upp aðra mynt.

Hagkvæmast væri að taka upp aðra mynt í samvinnu við erlent þjóðríki og seðlabanka. Með samvinnu er fyrst og fremst átt við að hið erlenda ríki byði lausafjárlínur sem innlent bankakerfið gæti stutt sig við eftir upptöku hinnar nýju myntar. Fjölmargar myntir kæmu til greina í því samhengi ef erlendir ráðamenn viðkomandi ríkis tækju vel í, þ.m.t.NOK, CAD, USD, EUR og jafnvel mynt Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem kallast SDR, en ráðamenn AGS hafa á síðustu misserum lagt til stærra hlutverk fyrir reiknieiningu sjóðsins. Kostirnir við að nota mynt sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum eru það miklir að ekki ætti að einblína á eða takmarka valið við myntir stærstu viðskiptaþjóða.

Annar möguleiki er einhliða upptaka annarrar myntar. Með einhliða upptöku á greinarhöfundur við að viðkomandi þjóðríki myndi hafna beinum stuðningi á formi lánalína til innlendra fjármálafyrirtækja án þess þó að setja Íslendingum að öðru leiti stólinn fyrir dyrnar. Til að mæta útflæði úr innistæðum innanlands þyrftu innlendir bankar að semja um langtíma lánalínur frá einkabönkum í viðkomandi löndum gegn veðsetningu eigna (e. covered bonds).

Hvað ríkið varðaði þyrfti einungis peningaseðla og mynt fyrir rúmlega seðlum og mynt í umferð svo eigendur krónuseðla gætu skipt þeim í nýju myntina sem og eign á móti innistæðum innlendra banka hjá Seðlabankanum. Um viðráðanlegar upphæðir er þar að ræða í samhengi hlutanna.

Tæknilega er myntbreyting einföld. Á einni nóttu er hægt að laga í tölvukerfum innlenda fjármálagjörninga að hinni nýju mynt. Rafrænt yrði einfaldlega deilt í allar upphæðir og tilvísun í krónur yrði breytt hjá Reiknistofu bankanna, Teris, Verðbréfaskráningu sem og í lánakerfum bankanna. Útfæra yrði einnig lagalega hvernig færi með séríslenska vinkla eins og verðtrygginguna.

Ofangreind mál eru vel leysanleg og eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Stærstu hjallarnir við upptöku annarrar myntar, hvort þá einhliða eða með beinni aðstoð, er að mikilvægara en nokkru sinni verður að reka hið opinbera á fjárhagslega ábyrgan hátt og greiða niður opinberar skuldir því að eftir upptöku annarrar myntar hefur íslenska ríkið ekki lengur seðlaprentunarvald. Hitt er að aðilar vinnumarkaðsins munu neyðast til að vera sveigjanlegir t.a.m. ef svo færi að hin nýja mynt styrktist á sama tíma og niðursveifla væri hér á landi.

Seðlabankinn, sem sér um rekstur íslensku krónunnar, leiðir umræðu um peningamál og veitir stjórnvöldum ráðgjöf í þessum málaflokki. Hafa verður bakvið eyrað að óraunhæft er að ætlast til að úr þeirri átt komi tillögur sem stuðlað gætu að óvissu um framtíðarhlutverk bankans. Það er hlutverk löggjafarvaldsins að taka ákvarðanir um framtíðarstefnu Íslands í peninga- og gjaldmiðlamálum. Greinarhöfundur hvetur því alþingismenn til að kynna sér með opnum huga alla þá möguleika sem eru í stöðunni með það að markmiði að gjaldeyrishöftum verði aflétt samhliða upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum.

Lýður Þór Þorgeirsson

Höfundur er sjóðsstjóri hjá GAM Management hf [GAMMA]. Skoðanir höfundar sem fram koma í greininni þurfa ekki að samræmast skoðunum GAMMA.

- Grein í Viðskiptablaðinu. Greinina má einnig finna á vef Viðskiptablaðsins.

Senda grein