Fréttir



Vekur furðu að ekki fleiri skuli fjárfesta í verðtryggðum íbúðabréfum

Viðtal í Viðskiptablaðinu

20.6.2009 Skoðun

Í sérblaði um fjármál einstaklinga í Viðskiptablaðinu í dag er m.a. viðtal við Gísla Hauksson.

Vekur furðu að ekki fleiri skuli fjárfesta í verðtryggðum íbúðabréfum

- Fjallað um fjárfestingakosti í sérblaði Viðskiptablaðsins um fjármál einstaklinga

http://www.ru.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=13444


Skuldabréfamarkaðurinn eini raunverulegi valkosturinn um þessar mundir
Hér á landi eru í boði mjög áhugaverðir fjárfestingarkostir þrátt fyrir efnahagshrun og nánast óvirkan hlutabréfamarkað. Þetta segir Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAM Management (GAMMA), í samtali við Viðskiptablaðið. Gísli segir fjölmörg tækifæri nú bjóðast á skuldabréfamarkaði og vísar þar til góðrar ávöxtunar á ríkisskuldabréfum.

„Skuldabréfamarkaðurinn er eini raunverulegi valkosturinn um þessar mundir og kjörin á ríkisskuldabréfum eru mjög góð,“ segir Gísli. „Það má í raun segja að við séum í fangelsi gjaldeyrishafta en kaldhæðnin í því er að það er mjög góð ávöxtun í boði innan múranna.“ Gísli segir að raunvextir ríkistryggðra skuldabréfa á Íslandi hafi verið mjög háir síðustu 10 árin eða um 4,5%, sem er langt yfir sambærilegum bréfum nágrannaríkja okkar. Sem dæmi má nefna að raunávöxtun lengri ríkisskuldabréfa í Bretlandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Frakklandi og Kanada hefur verið á sama tíma á bilinu 0,5-3%. Ríkið gæti ekki varið innlánin ef á þyrfti að halda.

Um 60% ríkistryggðra skuldabréfa á íslenskum markaði eru verðtryggð en um 40% þeirra óverðtryggð. Gísli segir það vekja furðu að ekki fleiri skuli fjárfesta í verðtryggðum íbúðabréfum en raun ber vitni. „Það er nú ekki lítið búið að ræða að undanförnu hversu slæmt það er að skulda verðtryggð íbúðalán,“ segir Gísli. „Maður skyldi þá ætla að það væri jafngott að fjárfesta í og eiga slík bréf. Ávöxtun íbúðabréfa hefur verið mjög góð á síðustu árum og það er útlit fyrir að þannig verði það áfram.“ Gísli telur óhjákvæmilegt að fjármagn muni haldi áfram að leita af innlánakerfum bankanna yfir á skuldabréfamarkaðinn.

Eins og áður hefur komið fram í blaðinu eru um 1.660 milljarðar króna á innlánareikningum bankanna um þessar mundir en Gísli segir að ríkið muni aldrei geta varið slíkar upphæðir ef á þyrfti að halda og það endurspeglist að vissu leyti í því að ávöxtunarkrafa á mjög stuttum ríkisskuldabréfum eru 2-5% lægri en af innlánsreikningum með sama líftíma.


„Hins vegar veltur það auðvitað á áhættusækni fjárfesta hvernig skuldabréf þeir vilja kaupa. Það er hægt að velja um fjöldamörg bréf með mismunandi líftíma, bæði óverðtryggð og verðtryggð,“ segir Gísli. „Áhættudreifing er lykilatriði en að mínu mati eru samt lengri tíma verðtryggð skuldabréf líklega besti kosturinn þar sem þau sameina háa vexti og verðbólguvörn sem er svo mikilvæg í núverandi óvissuástandi í hagkerfinu.“


Fjárfestar munu hugsa sér til hreyfings. Aðspurður um líklega þróun á fjárfestingarkostum ítrekar Gísli að fjárfestar fari að hugsa sér til hreyfings með lækkandi vöxtum. Hingað til hafi vextirnir verið góðir á innlánsreikningum en nú sé að verða breyting þar á með lækkandi stýrivöxtum.
„Vextir á innlánsreikningum hafa haldið í við stýrivexti en nú er það að breytast og meðalinnlánskjör bankanna komin niður í um 7-9,5% á sama tíma og stýrivextir eru í 12%,“ segir Gísli. „Í nokkrar vikur í mars var 27% árleg raunávöxtun á óverðtryggðum innlánsreikningum þegar stýrivextir voru sem hæstir og eru þau kjör einsdæmi á síðari tímum en nú hafa bestu innlánsvextir farið úr 16,5% í 9,5% á þremur mánuðum og búast má við því að í þessum mánuði og í þeim næsta verði neikvæð raunávöxtun á óverðtryggðum innlánsreikningum. Innlán hafa aukist verulega á síðustu mánuðum en það gefur augaleið að með lækkandi vöxtum fara fjárfestar að hugsa sér til hreyfings vilji þeir ávaxta fé sitt betur.“

 

Senda grein