Fréttir



  • Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA
    Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA

Innflæðishöft Seðlabankans bíta of fast

9.11.2017 Skoðun

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA á Íslandi, segir innflæðishöft stýra fjárfestingum erlendra aðila í hlutabréfakaup umfram fjárfestingar í skuldabréfum.

ThursVB031117

Við fyrstu sýn þegar fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi eru skoðaðar þá vekur athygli að sjá erlenda fjárfesta halda áfram að fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum þrátt fyrir innflæðishöft í formi bindiskyldu. Mætti því draga þær ályktanir að innflæðishöftin hafi lítil áhrif en þegar nánar er rýnt í gögnin þá sýna þau að innflæðishöftin eru mjög hamlandi. Bindiskyldan virkar með þeim hætti að 40% af fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum skuldabréfum þurfa að liggja í 12 mánuði á vaxtalausum bankareikningi og dregur því úr áhuga á fjárfestingum,bæði vegna þess að einungis 60% af fjárfestingunni eru í rauninni fjárfest í skuldabréfum en líka vegna þess að fjárfestingin er bundin í 12 mánuði.

Samkvæmt gögnum úr fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans hefur innflæði erlendra fjárfesta í skuldabréf verið 28 milljarðar króna það sem af er þessu ári, en af þeirri tölu lúta 26 milljarðar bindiskyldu þar sem 40% eru bundin og hefur því erlent innflæði inn á skuldabréfamarkaðinn einungis verið 17 milljarðar króna. Á sama tíma hafa erlendir aðilar jafnframt selt um 11 milljarða króna af skuldabréfum og því er nettó innstreymi erlendra aðila á skuldabréfamarkaðinn einungis um 6 milljarðar króna á árinu. Miðað við þetta sést að innflæðishöftin hafa gert það að verkum að nettó fjárfesting erlendra aðila á íslenskum skuldabréfamarkaði er nær engin á sama tíma og innlendir fjárfestar streyma með fé sitt út, eftir að útflæðishöftum var aflétt. Það er þó ekki þannig að höft á skuldabréfamarkaði hindri erlenda fjárfesta í því að fjárfesta hér á landi þar sem fjárfestingar erlendra aðila í heild hér á landi hafa verið 88 milljarðar króna á árinu og er áhugi á fjárfestingum hér á landi því þónokkur. En vegna innflæðishaftanna hafa erlendir fjárfestar beint sjónum sínum í auknum mæli að hlutabréfamarkaðnum og hafa fjárfest fyrir 35 milljarða króna í íslenskum hlutabréfum það sem af er ári sem er umtalsverð aukning en til samanburðar var fjárfest fyrir um 21 milljarð króna árin 2015 og 2016 samanlagt á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Mjög jákvætt er að erlendir aðilar fjárfesti í íslenskum hlutabréfum, það er góð áhættudreifing fyrir íslenskt hagkerfi og minnkar staðbundna áhættu. En á sama tíma er mjög neikvætt að erlend fjárfesting í skuldabréfum þurrkist upp að öllu leyti, og í rauninni mjög undarleg tilhögun að Seðlabankinn beini fjárfestingum erlendra aðila í einn fjármálagerning umfram annan. Þetta skapar líka umtalsverða mismunun að því leyti að fyrirtæki í leit að hlutafé geta leitað til erlendra fjárfesta en fyrirtæki í leit að lánsfjármögnun með skuldabréfaútgáfu eru takmörkuð við íslenska fjárfesta. Það er sérstaklega óheppilegt nú þegar fjármálamarkaðir reyna að ná jafnvægi eftir haftaafléttingu og talsverður skortur á fjármagni ríkir á fyrirtækjaskuldabréfamarkaði.

Það er með nokkrum ólíkindum að á sama tíma og krónan virðist hafa náð einhvers konar jafnvægi, útflæðishöft hafa verið afnumin að fullu og vaxtamunur við útlönd dregist saman, þá hafi útfærslan á innflæðishöftunum verið óbreytt í tvö ár. Það má glöggt sjá á fjármálamarkaði að vaxtalækkanir Seðlabankans skila sér ekki að fullu leyti til heimila og fyrirtækja þar sem t.d. útlánavextir banka til íbúðakaupa hafa ekki lækkað í takt við vaxtalækkanir og vextir á fyrirtækjaskuldabréfum hafa ekki lækkað til jafns við lækkandi grunnvexti þ.e. ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum. Þannig að á sama tíma og hagkerfi Íslands stendur mjög vel með miklum hagvexti, lágu atvinnuleysi og verðbólgu þá hefur vaxtaálag (e. credit spreads) verið að aukast sem gefur til kynna að fjárfestar geri ráð fyrir auknum líkum á gjaldþrotum og vanskilum í framtíðinni, sem rímar alls ekki við þróunina í hagkerfinu og undirliggjandi hagtölur. Það er klárlega kominn tími og tækifæri til að endurskoða innflæðishöftin með það að markmiði að fella þau að fullu niður.
 

- Greinin birtist upphaflega í Viðskipta-Mogganum þann 02.11.17. 

Senda grein