Fréttir



Fyrsti Chevening-styrkþegi GAMMA og Framtíðarinnar valinn

4.9.2018 Samfélagsmál

GAMMA Capital Management hf. og Framtíðin lánasjóður gerðu í fyrra samkomulag við breska sendiráðið um að fjármagna í tvö ár Chevening-styrki fyrir íslenska námsmenn til meistaranáms í Bretlandi.

Fyrsti Chevening-styrkþegi GAMMA og Framtíðarinnar er Jóhanna Auðunsdóttir. Jóhanna hefur starfað hjá Landsvirkjun undanfarin þrjú ár en mun í vetur stunda nám í sjálfbærniverkfræði (sustainability engineering) við Heriot-Watt háskóla í Edinborg í Skotlandi. Styrkurinn var afhentur við hátíðlega athöfn í breska sendiráðinu í ágúst. 

39747230_229278004394028_8433122033193189376_n

Frá vinstri: Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, Jóhanna Auðunsdottir, styrkþegi og Valgerður Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Framtíðarinnar. 

GAMMA hefur rekið starfsstöð í Bretlandi í þrjú ár og lagt áherslu á að efla samstarf á milli landanna á sviði mennta- og menningarmála. Framtíðin lánasjóður hefur á undanförnum árum aðstoðað yfir 550 námsmenn við að fjármagna nám sitt, í um 100 háskólum um allan heim, meðal annars við virta háskóla erlendis.

Chevening-námsstyrkir eru fjármagnaðir af breska utanríkisráðuneytinu og samstarfsaðilum og eru virtustu námsstyrkir sem breska ríkið veitir erlendum námsmönnum. Breska sendiráðið í Reykjavík hefur umsjón með veitingu Chevening-styrkja á Íslandi. Styrkirnir hafa verið veittir frá árinu 1983 og munu um 1.600 Chevening-styrkþegar víða að úr heiminum hefja nám í Bretlandi í haust. Meðal markmiða með veitingu styrkjanna er að styðja leiðtoga framtíðarinnar sem geta mótað innlend jafnt sem alþjóðleg málefni með því að byggja á reynslu sinni og nánu sambandi við Bretland.

Bs_framtid_gamma1

Frá vinstri: Valgerður Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Framtíðarinnar, Jóhanna Auðunsdóttir styrkþegi, Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi og Ragnar Jónasson, yfirlögfræðingur GAMMA. 

Senda grein