Fréttir



Fyrsta Íslandsmótið í Fischer-slembiskák

30.1.2018 Samfélagsmál

Í kringum Skákdag Íslands, sem haldinn er af tilefni af afmæli Friðriks Ólafssonar, stóð Skáksamband Íslands að fyrsta Íslandsmótinu í Fischer-slembiskák („Fischer-random“) og var GAMMA styrktaraðili mótsins.

Fischer-slembiskák er hugmynd hins goðsagnakennda skákmanns Bobby Fischers,  sem þótti á sínum seinni árum hin hefðbundna skák vera of fyrirsjáanleg. Nákvæmlega sami manngangur er til staðar en dregið er um uppstafstöðu mannanna, með nokkrum takmörkunum - um 960 upphafsstöður eru þrátt fyrir það mögulegar í Fischer-slembiskák! Ólíkt hinni hefðbundnu skák, reynir Fischer slembiskák lítið á þekkingu á byrjunum sem spilar mjög stórt hlutverk í klassískri skák í dag. Fischer skákin getur því verið kjörin fyrir þá sem hafa áhuga á að tefla skák án þess að byrjanaundirbúningur ráði miklu um úrslit skákarinnar.

Á GAMMA-Reykjavíkurskákmótinu, minningarmóti um Bobby Fischer, sem fram fer í Hörpu 6.-14. mars nk. verður fyrsta Evrópumótið í Fischer-slembiskák haldið í samvinnu við Skáksamband Evrópu. Búast má við allar skákstjörnur mótsins taki þátt og að mótið, sem fer fram á 75 áraafmælisdegi Fischers, 9. mars., muni vekja umtalsverða athygli í skákheiminum öllum.

Alls tóku 29 skákmenn þátt í þessu fyrsta opinbera Íslandsmóti í Fischer-slembiskák og meðal keppenda voru tveir stórmeistarar.  Svo fór að þeir röðuðust í tvö efstu sætin og virðist því sem að geta í klassískri skák og Fischer-slembiskák, fylgist að ef marka má úrslitin.

Íslandsmeistari í Fischer-slembiskák 2018 varð Hjörvar Steinn Grétarsson en hann hlaut 6½ vinning af 7 mögulegum.  Þröstur Þórhallsson varð annar með 6 vinninga. Í 3.-5. sæti, með 5 vinninga, urðu Björn Ívar Karlsson, Gauti Páll Jónsson og Hilmir Freyr Heimsson.

Lisseth Acevedo Mendez, unnusta Hjörvar, hlaut kvennaverðlaun og Vignir Vatnar Stefánsson unglingaverðlaun mótsins.

Mótshaldið tókst framúrskarandi vel og í boði voru vegleg verðlaun. Keppendur höfðu mjög gaman af því að spreyta sig á slembiskákinni, skrýtnar stöður komu upp og tók það oft skákmennina töluverðan tíma á að átta sig á upphafsstöðunni.  Það er líklegt að vegur Fischer-slembiskák skákar eigi eftir að aukast jafnt og þétt og eru Íslands- og Evrópumótið stór skref í þá átt.

Bobby

Bobby Fischer teflir Fischer-random skák við Susan Polgar (systur Judit Polgar, sterkustu skákkonu allra tíma) árið 1993. 

Screen-Shot-2018-01-30-at-16.00.02

Hjörvar Steinn Grétarsson, stórmeistari í skák, er fyrsti Íslandsmeistari í Fischer Random skák.   

Senda grein