Fréttir



Fjármálamarkaðir í þunglyndi

9.1.2019

Heilt yfir er staða Íslands góð og þó svo að blikur séu enn á lofti þá er staða hagkerfis, heimila og fyrirtækja sterk í grunninn. En þrátt fyrir ágæta stöðu þá var árið 2018 ekki gjöfult á eignamörkuðum. Valdimar Ármann skrifar í Markaðinn um fjármálamarkaðinn á nýliðnu ári og hugleiðingar um stöður og horfur.

Valdimar Ármann, CEO

Greinin birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu 9. janúar 2019

Árið 2018 reyndist umtalsvert frábrugðið því sem margir spáðu – hagvöxtur var ívið meiri með heilbrigðari samsetningu og viðskiptaafgangur hélst verulega jákværður. En þegar líða tók á á árið seig á ógæfuhliðina á öðrum vígstöðvum og hefur til að mynda ekki verið um fleiri hópuppsagnir að ræða síðan 2009. Að sama skapi vakti athygli að uppsagnir voru dreifðar á flutninga, fiskvinnslu og iðnaðarframleiðslu og einskorðast því ekki við fluggeirann eins og fréttaflutningur virðist helst bera með sér. Það gefur til kynna ákveðin varúðarmerki en vinnumarkaður var þó farinn að markast af ákveðinni spennu þar sem atvinnuleysi var orðið sögulega mjög lágt og líklega undir náttúrulegu atvinnuleysi.

Heilt yfir er staða Íslands góð og þó svo að blikur séu enn á lofti þá er staða hagkerfis, heimila og fyrirtækja sterk í grunninn. En þrátt fyrir ágæta stöðu þá var árið 2018 ekki gjöfult á eignamörkuðum. Veiking krónunnar á haustmánuðum smitaði hratt yfir í verðlag og endaði verðbólgan í 3,7% sem er mesta árlega hækkun verðlags frá árinu 2013 en þá var verðbólgan 4,2%. Krónan hefur tekið að styrkjast aftur á seinustu vikum ársins, enda má rekja hraða veikingu hennar á haustmánuðum til hræðsluástands vegna reksturs flugfélaganna og aukins hita í kjarabaráttu, og nær verðlag mögulega jafnvægi í kjölfarið á styrkingunni. En þessi aukning í verðbólgu varð til þess að raunávöxtun á innlánsreikningum og óverðtryggðum skuldabréfum varð slöpp og sigurvegarar ársins urðu verðtryggð ríkisskuldabréf (annað árið í röð!). Litið á dreifð eignasöfn þá var heildarávöxtun verðbréfa á fjármálamarkaði mæld með Markaðsvísitölu GAMMA 3,8% að nafnvirði sem er 0% raunávöxtun. Hlutabréfamarkaður veldur vonbrigðum þriðja árið í röð en skuldabréf, sérstaklega þau verðtryggðu, halda ávöxtun uppi ásamt vel völdum erlendum fjárfestingum.

Sterkari undirstöður

Heillavænlegt reyndist fyrir íslenska fjárfesta að kaupa gjaldeyri í byrjun árs og fjárfesta erlendis en síðan sneru markaðir erlendis við og skiluðu flestallir neikvæðri ávöxtun þegar upp var staðið, til dæmis var ávöxtun bandarísku vísitölunnar S&P500 -7% og þýsku vísitölunnar DAX -18%, japönsku vísitölunnar Nikkei -12% og heildarvísitölu skuldabréfa -1,4% (heimsvísitala skuldabréfa samsett úr 24 löndum). Það skiptir því höfuðmáli að skoða vel í hverju er fjárfest erlendis og fara yfir eignadreifingu og val á gjaldmiðlum þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar. Erlendir markaðir bjóða upp á úrval fjárfestingarkosta og enn meiri tækifæri til áhættudreifingar en sá innlendi og því er mikilvægt að skoða vel skuldabréf, sérhæfðar fjárfestingar og lánasjóði.

Ljóst er að mikil breyting hefur orðið á íslensku hagkerfi með tilkomu ferðaþjónustunnar og eru undirstöður íslensks efnahagslífs mun breiðari, og um leið sterkari, en áður hefur verið. Með tilkomu svo stórrar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar hefur nú íslenskt hagkerfi snúið í það að vera með jákvæða erlenda stöðu, þ.e. meiri eignir erlendis en skuldir. Þetta tvennt – stórar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar og jákvæð erlend staða – hefur breytt jafnvægisraungengi landsins og gert það sterkara en áður hefur verið. Til stuðnings við gengið er líka stór gjaldeyrisvaraforði ásamt áframhaldandi jákvæðum viðskiptaafgangi. Þetta leiðir jafnframt af sér að jafnvægisraunvextir landsins eru lægri en þeir voru áður enda hafa raunvextir lækkað umtalsvert á árinu 2018 og voru í árslok í kringum 1,4% á löngum verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Raunvaxtastig til skemmri tíma er hins vegar komið niður í 1% og lækkar úr 2% frá árinu 2017 og vekur athygli að þessi lækkun vaxta hafi ekki skilað sér meira í eignaverð. Sér í lagi er það athyglisvert að þetta lága grunnvaxtastig skilar sér að litlu leyti til heimila og fyrirtækja sem þurfa enn að fjármagna sig á raunvöxtum á bilinu 3-4% (horft til fastra raunvaxta en ekki breytilegra) sem þýðir þá að niðurstaðan sé sú að áhættuálag á útgefendur á Íslandi hefur verið að hækka.

Stærsta óvissumálið

En áhættuálagið er líklega ekki að aukast bara vegna áhættu; enn eru hér innflæðishöft og framboð lánsfjár hefur heldur dregist saman vegna ýmissa samverkandi þátta. Þó má nú loks gera ráð fyrir því að árið 2019 verði innflæðishöftum að fullu aflétt og búið að leysa úr aflands­krónustafla sem var hér enn til staðar. Það eru því ástæður til bjartsýni en stærsta óvissumálið er sem fyrr úrlausn kjarasamninga og því er beðið eftir niðurstöðu í þeim málum en markaðir verðleggja inn átök og neikvæða niðurstöðu. Góð lending í kjarasamningum myndi því að öllum líkindum vera mjög jákvæð fyrir eignaverð sem og á atvinnustig og vaxtastig til heimila og fyrirtækja.

Senda grein