Fréttir



  • Skák

Anish Giri sigraði á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu

28.4.2017 Samfélagsmál

Hollendingurinn Anish Giri sigraði landa sinn Erwin I‘Ami í úrslitaskákinni. Margir hafa boðað komu sína að ári.

 

Anish Giri frá Hollandi stóð uppi sem sigurvegari á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í gær. Giri hlaut 8,5 vinninga úr 10 skákum sem verður að teljast framúrskarandi árangur. Fjórir einstaklingar voru jafnir í öðru sæti með átta vinninga, þeir Sergei Movsesian frá Armeníu, Jorden van Foreest frá Hollandi, Gata Kamsky frá Bandaríkjunum og Abhijeet Gupta frá Indlandi. Þess má geta að Gupta sigraði mótið í fyrra.

Efstir Íslendinga urðu þeir Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefánsson og Bragi Þorfinnsson. Þeir unnu allir sínar skákir í síðustu umferðinni. Jóhann lagði Björn Þorfinnsson í spennandi skák og Hannes Hlífar lagði Nihal Sarin í jöfnuendtafli. Bragi vann sigur á eiginkonu Anish Giri, SopikoGuramishvili og tryggði sigurinn honum þátttöku í sterku opnu móti á Ítalíu.

Anish Giri var fyrirfram talinn sigurstranglegastur en þurfti þó að hafa vel fyrir sigrinum. Hann var um tíma hálfum vinning á eftir efstu mönnum en vann tvo góða sigra í röð með svörtu og var þannig kominn í forystu fyrir síðustu umferð. Í úrslitaskákinni mætti hann landa sínum Erwin l‘Ami sem vann mótið árið 2015. Á þeirri skák var þó skemmtilegur vinkill því l‘Ami vinnur gjarnan sem aðstoðarmaður Giri á lokuðum skákmótum og því þekkja þeir stíl hvors annars mjög vel. Giriátti hins vegar góða leiki strax í byrjun skákarinnar á sama tíma og l‘Ami náði ekki að leysa þau vandamál sem upp komu, og vann Giri skákina nokkuð örugglega í 30 leikjum. 

Óhætt er þó að segja að L‘Ami hafi ekki verið sérstaklega leiður yfir ósigri sínum að þessu sinni enda landi hans og góður vinur hinum megin borðsins. 

Öll framkvæmd mótsins tókst vel og keppendur létu vel að móthaldinu. Margir þeirra hafa boðað komu sína að ári og fjölmargir keppendur hafa nú keppt á mótinu nokkur ár í röð. GAMMA er sem kunnugt er aðal styrktaraðili mótsins og það var Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, sem lék fyrsta leiknum í úrslitaskák Giri og l'Ami.

 

Vert er að benda á umfjöllun um RÚV um seinustu umferð mótsins hér:  http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/reykjavikurskakmotid-0

Screen-Shot-2017-04-28-at-12.43.27

Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri hjá GAMMA, leikur fyrsta leikinn í úrslitaskák Giri og l'Ami.

Screen-Shot-2017-04-28-at-12.43.15

Anish Giri mætir landa sínum Erwin l‘Ami í úrslitaskákinni. Þeir þekkjast vel og I‘Ami starfar gjarnan sen aðstoðarmaður Giri á stórmótu.

 

Senda grein