GAMMA: Government Bond Index Fund (Vísitölusjóður GAMMA)

Góð áhættudreifing

Vísitölusjóður GAMMA er fyrsti verðbréfasjóður sinnar tegundar á Íslandi. Hann fjárfestir í ríkistryggðum bréfum (íbúðabréfum, ríkisbréfum og spariskírteinum) í sömu hlutföllum og samsetning vísitölu íslenska skuldabréfamarkaðarins, GAMMA: Government Bond Index (GAMMA: GBI).

Sjóðurinn beitir hlutlausri fjárfestingarstefnu og leitast við að fylgja markaðsávöxtun sem best.

Sjóðurinn hentar vel fjárfestum sem vilja langtímafjárfestingu í ríkistryggðum skuldabréfum með lágmarkskostnaði.

Um hver mánaðamót er eignasafn sjóðsins endurstillt í samræmi við vigtir skuldabréfavísitölu GAMMA:GBI. Leitast er við að hafa vigtir í einstökum bréfum ávallt sem næst vísitölunni með +/- 2% fráviki. Innstreymi (nýjar fjárfestingar, vaxtagreiðslur og afborganir) í sjóðinn er fjárfest við fyrsta tækifæri í samræmi við vísitöluna. 

Hlutlaus fjárfestingarstefna

Á Íslandi eru ekki margar útgáfur skuldabréfa á markaði og velta á markaði takmörkuð. Fyrir stóra skuldabréfasjóði skapar þetta lítið svigrúm fyrir virka fjárfestingarstýringu. Fjárfestar geta því lent í þeirri aðstöðu að greiða fyrir virka stýringu í sjóðum sem beita í rauninni hlutlausri fjárfestingarstefnu.

Kostir við að fjárfesta í vísitölusjóði

  • Kostnaður er lágmarkaður.
  • Markmið er að fylgja vísitölu markaðarins.
  • Áhætta utan markaðsáhættu er lágmörkuð.
  • Engin gírun og engar skortstöður.

Nánari upplýsingar

  • Gengisuppreikningur daglega.
  • Rafrænt skráður hjá Verðbréfaskráning.

Um skuldabréfavísitölu GAMMA 

Skuldabréfavísitalan GAMMA: Government Bond Index, er reiknuð og birt af GAM Management hf. Vísitalan var fyrst birt opinberlega 1. nóvember 2009 en er reiknuð aftur til 1. janúar 2005. Hún sýnir hlutfallsvigtaða heildarávöxtun helstu skuldabréfa á markaði sem eru útgefin af íslenska ríkinu eða með íslenskri ríkisábyrgð.

Í vísitölunni eru íbúðabréf, ríkisbréf og spariskírteini með þeim skilyrðum að viðskiptavakt sé á skuldabréfinu í NASDAQ OMX Nordic Exchange og meira en 6 mánuðir séu í lokadag skuldabréfs. Vísitalan er reiknuð í lok hvers viðskiptadags og notast er við opinbert lokagengi hvers dags eins og það er birt af NASDAQ OMX Nordic Exchange.

Vigtir einstakra skuldabréfa eru endurstilltar fyrsta viðskiptadag hvers mánaðar og miðast við markaðsverðmæti hvers bréfs í hlutfalli af heildarmarkaðsverðmæti skuldabréfa í vísitölunni.

Skattlagning

Skattaleg meðferð hlutdeildarskírteina í Vísitölusjóði GAMMA fer eftir lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eins og þau eru á hverjum tíma. Af hlutdeildarskírteinum í Vísitölusjóði GAMMA greiðist fjármagnstekjuskattur. Fjárfestar eru hvattir til þess að kynna sér skattalega stöðu sína og er ráðlagt að leita til sérfróðra aðila á því sviði, s.s. skattalögfræðinga eða endurskoðenda.

Árshlutareikningur Verðbréfasjóðs GAMMA

Ársreikningur Verðbréfasjóðs GAMMA