GAMMA: Global Invest

GAMMA: Global Invest

GAMMA: Global Invest hefur verið lokað. Global er fjárfestingarsjóður í evrum, skv. lögum 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sem fjárfestir í erlendum hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða (UCITS), sérhæfðra sjóða (AIF) og fagfjárfestasjóða, en hefur einnig heimildir til að fjárfesta beint í erlendum framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsgerningum, innlánum fjármálafyrirtækja og afleiðum.

Sjóðurinn leitast við ná fram mikilli eignadreifingu, bæði á milli eignaflokka og á milli landsvæða. Í gegnum samstarfsaðila GAMMA hefur sjóðurinn aðgang að fjölda fjárfestingarkosta á kjörum sem alla jafna stendur almennum fjárfestum ekki til boða.

Með kaupum í GAMMA: GLOBAL fæst virk stýring á erlendum fjármálamörkuðum. Fjárfestingaákvarðanir verða í höndum fjárfestingateymis sjóðsins sem býr yfir mikilli reynslu á innlendum- og erlendum fjármálamörkuðum. Fjárfestingateymi sjóðsins tekur ákvarðanir um dreifingu á milli eignaflokka og landssvæða eftir því hvað það telur best hverju sinni.

Nánari upplýsingar

  • Gengisuppreikningur daglega.
  • Viðskiptadagar miðast við kl. 14:00 og er uppgjörsdagur viðskipta t+3.
  • Rafrænt skráður hjá Verðbréfaskráningu.
  • Sjóðurinn er í EUR

Sjóðsstjóri og fjárfestingarteymi

Valdimar Ármann, sjóðsstjóri og forstjóri, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur.
Valdimar starfaði áður hjá ABN AMRO í London við verðbólgutengdar afurðir frá 2003 til 2006. Hann starfaði í New York frá 2006 til 2008 hjá sama banka, og síðar hjá RBS sem Vice President, Head of Inflation Structuring USA. Valdimar kennir einnig sem aðjúnkt í meistaranámi í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands.

Guðmundur Björnsson, verkfræðingur.
Guðmundur var á árunum 2005 til 2008 forstöðumaður Afleiðuviðskipta Kaupþings. Guðmundur hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og hefur kennt afleiðuhluta þess prófs síðustu árin.

Áhætta

Ýmis áhætta felst í fjárfestingu í fjárfestingarsjóðum og er hann að jafnaði áhættumeiri en verðbréfasjóðir og getur gengi þeirra breyst töluvert. Það ber helst að geta markaðs-, vaxta-, gjaldmiðla-, lausafjár- og mótaðilaáhættu sem mynda óvissu um framvindu á verðbréfamarkaði.

Sjóðurinn getur fjárfest í fjármálagerningum í mismunandi gjaldmiðlum og tekur sjóðurinn því á sig ákveðna áhættu á breytingu á gengi þessara gjaldmiðla innbyrðist. Fjárfestar kaupa í sjóðnum í evrum og er því ákveðin áhætta fólgin í því að gengi krónu gagnvart evru getur tekið breytingum.

Dreifing fjárfestinga milli eignaflokka er með þeim hætti að markaðs- og mótaðilaáhætta er takmörkuð eins og unnt er. Fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum fyrirtækja eru eðli málsins samkvæmt áhættusamari en fjárfestingar í ríkistryggðum eignum.

Dregið er úr lausafjáráhættu með því að geyma hluta eignasafnins í reiðufé eða auðseljanlegum eignum. Meðallíftími sjóðsins í skuldabréfum getur verið þónokkur sem myndar töluverða vaxtaáhættu. Upplýsingar um tíu stærstu útgefendur eigna sjóðsins eru reglulega birtar í útgefnu efni um sjóðinn og má finna í upplýsingablaði um sjóðinn sem er uppfært mánaðarlega hér til hliðar.

Skattlagning

Skattaleg meðferð hlutdeildarskírteina í Fjárfestingarsjóði GAMMA fer eftir lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eins og þau eru á hverjum tíma. Af hlutdeildarskírteinum í GAMMA: GLOBAL greiðist fjármagnstekjuskattur. Fjárfestar eru hvattir til þess að kynna sér skattalega stöðu sína og er ráðlagt að leita til sérfróðra aðila á því sviði, s.s. skattalögfræðinga eða endurskoðenda.

Ársreikningur GAMMA Global Invest