GAMMA er bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags

Image003

GAMMA Capital Management (GAMMA) er bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags til ársins 2020. Samningur þess efnis var undirritaður í mars 2016, á 200 ára afmæli bókmenntafélagsins, og mun GAMMA styrkja félagið um 20 milljónir króna á tímabilinu. Meginmarkmið samningsins er að styðja við útgáfu félagsins og gera því kleift að halda upp á afmælisárið með sérstökum viðburðum og útgáfustarfi, sem og að efla starf þess til framtíðar litið.

Tilgangur Bókmenntafélagsins í þau 200 ár sem það hefur starfað er að styðja og styrkja íslenska tungu, bókvísi og menntun og heiður hinnar íslensku þjóðar, bæði með bókum og öðru eftir því sem efni þess fremst leyfa. Félagið hefur gefið út tímaritið Skírni frá árinu 1827 og er það eitt elsta menningartímarit á Norðurlöndum.

„GAMMA hefur í gegnum árin stutt ötullega við listir og menningu og við teljum mikilvægt að standa vörð um þessa elstu menningarstofnun landsins og þann menningararf sem fólginn er í starfsemi hennar. Það er því mikill heiður fyrir okkur að gerast bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags,“ sagði Gísli Hauksson, meðeigandi GAMMA.

Hið íslenska bókmenntafélag

Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað árið 1816 og tók við hlutverki Hins íslenska lærdómslistafélags sem stofnað var 1779. Félagið hefur því starfað í tvær aldir. Bókmenntafélagið hefur staðið fyrir bókaútgáfu sem er fremur fallin til menningarauka en efnalegs ábata. Félagið er útgefandi Skírnis, Tímarits bókmenntafélagsins, og Lærdómsrita bókmenntafélagsins auk fjölmargra bóka á ýmsum sviðum menningar og fræða í samræmi við tilgang félagsins. Félagið hefur alla tíð lagt sérstaka rækt við sögu landsins, tungu þess og bókmenntir og jafnframt að tengja Íslendinga við hið besta í menntun og vísindum með öðrum þjóðum.