FréttirGAMMA stofnar fasteignasjóð í London

4.7.2017 Starfsemi

GAMMA Capital Management hefur sett á stofn fimm milljarða króna fasteignasjóð í London sem fjárfestir í hinum ýmsu verkefnum.

GisliGísli Hauksson, stjórnarformaður og forstjóri GAMMA Capital Management í London, er á þeirri skoðun að nú sé frábær tímapunktur fyrir Íslendinga að fjárfesta erlendis. Nýverið setti GAMMA á stokk fimm milljarða króna fasteignasjóð í London sem fjárfestir í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Hann segir hugmyndina vera þá að nýta sterka krónu og veikt pund til þess að komast inn á fasteignamarkaðinn í London á góðu verði. Sjóðurinn ber nafnið Anglia.

„Við ákváðum að setja þennan sjóð upp beint í kjölfar frétta um afléttingu hafta á Íslandi. Fyrir utan það að ráðleggja okkar við- skiptavinum um í kaup í sjóðum hjá okkar samstarfsaðilum, sem eru fjölmargir, erum við einnig að reka okkar eigin sjóði úti. Þetta er fyrsti sjóðurinn sem við setjum upp í gegnum skrifstofuna í London. Íslenskir fjárfestar settu inn 40 milljónir punda, sem eru um fimm milljarðar króna, inn í fasteignasjóð- inn. Það sem þessi sjóður gerir er að fjárfesta í nokkuð mörgum fasteignaverkefnum, aðallega í London, í samstarfi við mjög öfluga breska samstarfsaðila okkar á fasteignamarkaði,“ segir Gísli.

Veikt pund skapar tækifæri 

Gísli segir að GAMMA hafi verið þeirrar skoðunar að Íslendingar þurfa að dreifa eignum sínum erlendis og nýta sér það hve sterk krónan er. „Að sama skapi liggur Bretland mjög vel við þar sem pundið er í sögulegu lágmarki. Það er í raun stóra ástæðan fyrir þessu, pundið er gífurlega veikt. Við höfum verið að kaupa fyrir okkar viðskiptavini breskar eignir, en þetta er fyrsti sjóðurinn sem við setjum á fót.“

Hann bætir við að fjármálamarkaðurinn í London sé einn sá allra öflugasti og sterkasti í heimi, en að nú gefi hann eftir í fyrsta skipti í tuttugu ár, eftir Brexit-kosningarnar. „Fasteignir í London lækka um fimm til 15 prósent á hálfs árs tímabili. Miðað við fyrir tveimur árum síðan ertu að kaupa fasteignir á 50 prósenta afslætti miðað við hvernig gengisþróunin er, ef þú ert Íslendingur,“ segir hann.

Sjóðurinn hefði getað verið stærri

Vegna mikils áhuga hefði sjóðurinn getað verið stærri að sögn forstjórans. „Við vorum í raun bara að safna fjármunum í þessi verkefni sem við vorum búin að tryggja okkur með þessum erlendu samstarfsaðilum okkar. Það er ekkert ólíklegt að við setjum upp annan svona sjóð í ljósi viðbragðanna sem við fengum nú í vetur.

Þessi verkefni sem við fórum í eru áhugaverð og fjölbreytt: Íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og svo er þetta sambland af nýbyggingu og íbúðum í útleigu,“ bætir Gísli við.

Vinna með öflugum aðilum 

Þeir sem tóku þátt í stofnun sjóðsins, ásamt GAMMA, var fjöldinn allur af einstaklingum, tryggingafélag og lífeyrissjóðir. „Svo það voru margir aðilar sem voru að leita að tækifærum til að fjárfesta. Það er mjög áhugavert.

Við erum mjög ánægðir með hvað það tók stuttan tíma að safna fjármagni. Þetta er sæmilega stór sjóður, en þetta er bara lítill hluti af því sem við ráðleggjum mönnum að fjárfesta í. Almennt eru menn að kaupa skráð hlutabréf, skráð skuldabréf og taka þátt í fyrirtækjaverkefnum og fleiru slíku. Okkur fannst tækifærið liggja svo vel við að fara inn á fasteignamarkaðinn í London,“ segir Gísli að lokum.

- Greinin birtist á vefsíðu Viðskiptablaðsins þann 1.júlí 2017.

 

Senda grein