Fréttir



  • Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA
    Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA

Vöruþróun er lykillinn

19.10.2017 Skoðun Starfsemi

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir í viðtali við Viðskiptablaðið fyrirtækið hafa haft mikla trú á fjárfestingum í íslenska hagkerfinu. 

Fjármálafyrirtækinu GAMMA hefur vaxið fiskur um hrygg frá stofnun árið 2008. Eignir í stýringu GAMMA nema yfir 130
milljörðum króna og hefur fyrirtækið aukið umsvif sín erlendis. Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir fyrirtækið hafa haft mikla trú á fjárfestingum í íslenska hagkerfinu. Hann segir áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi hafa aukist til muna og telur brýna þörf á innviðafjárfestingum í hagkerfinu. Þá séu áskoranir en jafnframt tækifæri fólgin í örum tæknibreytingum fyrir fyrirtækið.

Fjórum mánuðum áður en íslenska fjármálakerfið hrundi og gjaldeyrishöft voru tekin upp var fjármálafyrirtækið GAM Management sett á laggirnar. Félagið var stofnað af þeim Gísla Haukssyni og Agnari T. Möller, sem hófu viðskipti með skuldabréf fyrir eigin reikning. Í dag, níu árum síðar, gengur félagið undir nafninu GAMMA Capital Management og stýrir yfir 130 milljörðum króna fyrir hönd lífeyrissjóða, tryggingafélaga, bankastofnanir, fyrirtæki, erlenda aðila sem og einstaklinga. Starfsmenn GAMMA og tengdra félaga eru um 50. Sjóðir í rekstri GAMMA eru 31 og ná þvert á alla eignaflokka á fjármálamarkaði auk sérhæfðra fjárfestinga. Efnahags- og fyrirtækjaráðgjöf GAMMA hefur einnig eflst mikið og hefur fyrirtækið opnað skrifstofur í London, New York og Zürich. Ljóst er því að fyrirtækið hefur vaxið umtalsvert á skömmum tíma og hraðar en önnur félög í sjóðastýringu á innlendum markaði.

Screen-Shot-2017-10-19-at-16.29.57

Valdimar Ármann tók við sem forstjóri GAMMA í byrjun mars á þessu ári, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2009. Valdimar, sem hefur um 17 ára reynslu af fjármálamörkuðum á Íslandi og erlendis, segir árangur fyrirtækisins skýrast að mestu leyti af trú og sýn GAMMA á fjárfestingum í íslensku hagkerfi.

„Ég byrjaði sem sjóðsstjóri hjá GAMMA snemma árið 2009, en hugmyndin var upphaflega að nýta mína reynslu og þekkingu í undirbúningsvinnu fyrir afnám hafta, einkum uppbyggingu á erlendu vöruframboði samhliða þessu innlenda. Ég var þá nýkominn heim eftir að hafa stundað nám og starfað í sjö ár erlendis. Ég kláraði fjármálaverkfræði í framhaldsnámi við ICMA Centre frá University of Reading, en þar áður hafði ég tekið hagfræði í grunnnámi við Háskóla Íslands og starfað í um þrjú ár hjá Búnaðarbankanum Verðbréf, fyrst í bakvinnslu og svo afleiðumiðlun. Eftir námið í Reading fluttist ég ásamt fjölskyldunni til London þar sem ég var ráðinn inn í hollenska bankann ABN AMRO árið 2003. Þar var ég að vinna við hönnun, þróun, sölu og fræðslu á verðbólgutengdum fjármálaafurðum með útibúaneti bankans víðs vegar um Evrópu. Árið 2006 var svo ákveðið að stækka við starfsemi bankans á þessu sviði í Bandaríkjunum og flutti ég þá til New York til að leiða þá stækkun. Síðar fór ég til Royal Bank of Scotland þegar þeir tóku yfir ABN AMRO, en sú yfirtaka reyndist þeim dýrkeypt í fjármálahruninu.

Eftir miklar breytingar í bankanum í byrjun árs 2009 ákváðum við að flytja heim eftir góðan tíma erlendis og byrjaði ég fljótlega hjá GAMMA. Ég þekkti Gísla Hauksson úr hagfræðináminu og Búnaðarbankanum. Það var áhugavert en mikil tilbreyting að flytja aftur til Íslands og koma úr stóru, alþjóðlegu viðskiptaumhverfi inn í lítið, nýtt félag á markaðnum á róstusömum tímum. Um það leyti sem ég byrjaði hjá GAMMA voru starfsmenn fyrirtækisins fjórir og eignir í stýringu í kringum 2 milljarðar króna. Þegar ég byrjaði hjá GAMMA héldum við að fjármagnshöftin yrðu skammtímaráðstöfun. En fljótlega var fyrirséð að höftin yrðu lengur en gefið var til kynna í fyrstu. Þá fórum við að breyta til og ég leiddi sjóðastækkunina í almennum sjóðum sem framkvæmdastjóri sjóða. Fyrst fjárfestum við eingöngu í ríkisskuldabréfum. Vextir voru háir og verðlagningin á markaði hagstæð. Svo færðum við okkur yfir í sérhæfðar fjárfestingar, til dæmis á fasteignamarkaði, og hlutabréf eftir að markaðurinn svo gott sem þurrkaðist út, enda fannst okkur rökrétt að hann myndi byggjast upp aftur með endurreisn og fjárhagslegri endurskipulagningu hagkerfisins. Við bjuggum til vísitölusafn sem náði yfir allan verðbréfamarkaðinn á Íslandi, en á þeim tíma var ekki til nein aðferðafræði til að mæla ávöxtun á markaðnum. Í dag höldum við úti sjö vísitölum á verðbréfamarkaði sem eru orðin viðurkennd viðmið í eignastýringu.

Með góðum rekstri sjóða og góðri ávöxtun í öllum helstu eignaflokkum höfum við náð að vaxa jafnt og þétt. Sjóðirnir hafa skilað góðri ávöxtun og sumir hafa skilað hærri ávöxtun en markaðurinn og sambærilegir sjóðir í stýringu annarra rekstrarfélaga. Fjöldi viðskiptavina og eignir í stýringu hafa farið stigvaxandi. Á níu árum höfum við farið úr 2 milljörðum króna í stýringu í 130 milljarða. Svo höfum við aukið úrval sjóða í stýringu og annarra fjármálagerninga sem hæfir mjög víðtæku mengi fjárfesta með tilliti til eignaflokka, áhættu og líftíma. Í dag erum við með tvo verðbréfasjóði, sex fjárfestingasjóði og 23 fagfjárfestasjóði í rekstri.

Við höfum síðan opnað skrifstofur í London, New York og Zürich í Sviss og vorum fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til að fá sjálfstætt starfsleyfi hjá breska fjármálaeftirlitinu eftir 2008. Það var í undirbúningi hjá okkur í um þrjú ár áður en höftin voru afnumin. Starfsemin erlendis er í grófum dráttum tvíþætt. Annars vegar þjónustum við viðskiptavini á Íslandi sem vilja fjárfesta á erlendum mörkuðum og hins vegar erlenda viðskiptavini sem vilja fjárfesta á Íslandi til að mynda í innviðum, fyrirtækjum fasteignum og skuldabréfum. Vaxandi hluti af þessu er fyrirtækjaráðgjöf og hefur GAMMA Ráðgjöf eflst mikið samhliða þessum stöðuga vexti meðal annars með ráðningu öflugra starfsmanna og fjölgun verkefna. Þar leiðum við meðal annars saman erlenda fjárfesta og íslensk fyrirtæki í söluhugleiðingum sem og við kynnum erlend verkefni fyrir íslenskum fjárfestum.

Auk víðtækrar ráðgjafarþjónustu felst starfsemin erlendis í því að reka sjóði erlendis sem standa viðskiptavinum okkar á Íslandi til boða. Við stofnuðum til dæmis þrjá nýja erlenda sjóði á árinu, meðal annars fasteignasjóðinn GAMMA Anglia, sem fjárfestir í fasteignaþróunarverkefnum í London. Við erum byrjaðir að þjónusta erlenda viðskiptavini með erlent vöruframboð og erum ekki lengur bara að þjónusta Íslendinga með íslenskar vörur. Svo erum í samstarfi við sérvalinn hóp fremstu fjármálafyrirtækja heims á sviði bankaviðskipta og sjóðastýringar sem gerir okkur kleift að sjá um alla umsýslu sem viðkemur erlendri eignadreifingu fyrir hönd viðskiptavina.“

Stefnir Gamma á að opna fleiri skrifstofur erlendis á næstunni?

„Það er ekkert slíkt á döfinni, en við gerum það þar sem tækifæri gefast.“

Hverju þakkar þú vöxt fyrirtækisins og góðan árangur af rekstri sjóða undanfarin ár?

„Það er fyrst og fremst trú okkar og sýn á fjárfestingum í íslenska hagkerfinu. Vöruframboðið okkar hefur einnig verið í stöðugri þróun og uppbyggingu og höfum við verið að bjóða upp á nýjar vörur fyrir fjárfesta. Við höfum gætt að því að hlúa vel að því sem við setjum á laggirnar, kynna fyrir viðskiptavinum hvað er í boði og höfða til breiðs fjárfestahóps með fjölbreytt vöruframboð. Við höfum passað upp á það að vaxa jafnt og þétt. Svo er það auðvitað teymið okkar, en okkar starfsmenn hafa mikla reynslu og sérfræðikunnáttu á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum og á fasteignamarkaði.“

Jafnvægi í augsýnScreen-Shot-2017-10-19-at-16.30.07

Þið fóruð tiltölulega snemma inn á fasteignamarkaðinn og hafið aukið umsvif ykkar þar undanfarin ár. Hver var hugsunin á bak við það?

„Nokkrum árum eftir hrun fjárfestum við á fasteignamarkaði í gegnum sjóði sem við stýrum fyrir hönd viðskiptavina. Eftir ítarlega greiningarvinnu töldum við markaðinn hagstætt verðlagðan og að fasteignaverð myndi hækka í kjölfar mikillar lækkunar sem stóðst ekki til langs tíma að teknu tilliti til framboðs á húsnæði og aldurssamsetningu þjóðarinnar, sérstaklega miðsvæðis í Reykjavík. Við fjárfestum í íbúðum ætluðum til útleigu og lögðum grunninn að því sem nú er Almenna leigufélagið. Við sáum að það vantaði á leigumarkaðinn leigufélag að skandinavískri fyrirmynd sem ekki var í opinberum rekstri; öruggur leigusali með langtímaleigusamninga, sveigjanleika til að stækka við sig og fulla þjónustu. Þetta var í raun fyrsta almenna leigufélagið á Íslandi og hefur orðið til þess að styrkja leigumarkaðinn. Í dag er þetta stöndugt fyrirtæki og komið í þá stærð að það er skráningarhæft í Kauphöllina.

Svo stofnuðum við Upphaf fasteignafélag árið 2013 sem byggir hagkvæmar íbúðir fyrir litlar og meðalstórar fjölskyldur. Upphaf hefur það að markmiði að byggja allt að 250 hagkvæmar íbúðir á ári en í heildina eiga sjóðir í rekstri GAMMA lóðir þar sem byggja má um 3.000 íbúðir á almennum markaði, að meginhluta á höfuðborgarsvæðinu, sem mun stuðla að betra jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Núna er útlit fyrir að fasteignamarkaðurinn sé að leita í jafnvægi. En innstreymi ferðamanna og aukin samkeppni í verslun hefur gjörbreytt samsetningu hagkerfisins, neyslumynstrinu og almennri verslun og þjónustu. Þess vegna teljum við mikil tækifæri vera til staðar á atvinnuhúsnæðismarkaði og annast Heild fasteignafélag starfsemina á þeim markaði.“

Aukinn áhugi á ÍslandiScreen-Shot-2017-10-19-at-16.30.19

Nú er loks búið að aflétta fjármagnshöftunum. Hafið þið fundið fyrir auknum áhuga frá innlendum aðilum á fjárfestingum erlendis, og frá erlendum fjárfestum á fjárfestingum á Íslandi?

„Við finnum almennt fyrir því að áhuginn á erlendum fjárfestingum er að aukast enda teljum við að íslensk fjárfestingarsöfn – söfn lífeyrissjóðanna og einstaklinga – séu undirvigtuð með tilliti til erlendra eigna. Það er mikilvægt að dreifa áhættunni, þó að vextir séu víða mjög lágir, en einnig er aukinn áhugi á því að fjárfesta í tækniþróuninni sem er að eiga sér stað erlendis.

Á hinn veginn er ótrúlegt hvað Ísland er komið ofarlega á kortið erlendis. Við eigum ferðamanninum það að þakka að miklu leyti. Fyrir hrun fann maður fyrir því úti að ásóknin var aðallega í vaxtamunaviðskipti með íslenska vexti en ekki í sjálft hagkerfið. Í dag er þetta allt öðruvísi. Núna hefur maður það á tilfinningunni að erlendir fjárfestar séu að fjárfesta í hagkerfinu sjálfu, meðal annars í ferðaþjónustunni og undirstöðum hennar. Erlendir fjárfestar virðast vera að taka stöðu með áframhaldandi uppgangi hagkerfisins. Fyrir utan það að hafa jákvæð áhrif á hagvöxt skilar það betri áhættudreifingu fyrir okkur.

Það er mikilvægt að þessi innflæðishöft Seðlabankans á skuldabréfamarkaði verði afnumin sem fyrst, enda eru þau að valda skaða á skuldabréfamarkaði. Þau hamla uppbyggingu á mörkuðum fyrir fyrirtækjaskuldabréf og sértryggð skuldabréf. Það er undarlegt að stjórnvöld beini fjárfestingum erlendra aðila í hlutafé fremur en skuldabréf. Stórir fjárfestar hér innanlands eru einnig með það á dagskránni að færa meira fjármagn yfir á erlenda markaði nú eftir afnám hafta, og þá er sérstaklega slæmt að það séu til staðar innflæðishöft. Fyrir vikið leitar gengi krónunnar ekki í eðlilegt jafnvægi.“

Hvernig metur þú stöðuna á innlendum fjármálamarkaði?

„Innlendur fjármálamarkaður er nokkuð góður miðað við stærð hagkerfisins, þó að gjaldeyrismarkaðurinn og verðbréfamarkaðir utan ríkisskuldabréfamarkað séu of grunnir. Helsta vandamálið er þó hversu stór hluti af fjármálamarkaðnum er í faðmi ríkisins. Það er líklega eitt það versta við þessa pólitíska óvissu og tefur alla endurskipulagningu, enda er brýnt að losa um eignarhald ríkisins í bönkunum. Á meðan bankarnir þurfa ekki að ná viðunandi arðsemi á sínu eigin fé mun það bitna á samkeppni og vaxtakjörum neytenda. Það hægir einnig á uppbyggingu fyrirtækjaskuldabréfamarkaðarins og leiðir til einsleitni í fjármögnun, þar sem fyrirtæki hafa minni hvata til að sækja sér fjármagn út á markaðinn á meðan bankarnir eru offjármagnaðir. Svo hægir ríkiseign á bönkunum á öllum tæknibreytingum og allri nýsköpun og bælir niður frumkvæði. Það skapar hættu á því að bankarnir verði of íhaldssamir.“

Brýn þörf á innviðafjárfestingum

Það geta flestir sammælst um það að staða íslenska hagkerfisins hafi sjaldan eða aldrei verið betri. Hverjum er það að þakka í þínum huga og hvernig metur þú langtímahorfurnar í efnahagslífinu?

„Staðan er svo góð að maður á erfitt með að bera kennsl á einhver augljós hættumerki. Þegar maður rýnir í hagtölurnar spyr maður sig alltaf: hverju er ég eiginlega að missa af? Það er ekkert sem bendir til þess að ferðamenn muni hætta að koma. Eiginfjárstaða heimilanna er mjög góð og skuldsetning lítil. Erlenda staðan er nálægt núlli og Seðlabankinn á stóran og óskuldsettan gjaldeyrisforða. Verðbólgan er lág og atvinnuleysi nánast ekkert. Hagvöxturinn er byggður á mjög traustum grunni. Það er alltaf verið að bera ástandið saman við árið 2007 en það er ekki verið að hlaða í einhverja bólu þó að framhaldið sé ekki gefið.

Það er fyrirséð að á einhverjum tímapunkti muni hægja á hagvextinum. Þá er kjörið tækifæri til að hlúa að innviðum hagkerfisins, sérstaklega þeim sem snerta ferðaþjónustuna. Það þarf að huga að rekstrarfyrirkomulagi Leifsstöðvar og hugleiða að draga ríkið úr þeim áhætturekstri. Það þarf að tvöfalda vegakerfið, brýr og jarðgöng, en sérstaklega þarf að tvöfalda vegakerfið á Suðurlandinu og út úr Reykjavík þar sem megnið af ferðamönnunum er. Þetta gæti ríkið gert í samstarfi við einkaaðila. Svo þarf að byggja upp ferðamannastaði þannig að upplifun ferðamanna af ferðamannastöðum sé jákvæð. Þetta er langt ferli og því þarf að hugsa langt fram í tímann og hefja markvissan undirbúning strax.“

Þið hafið reglulega gagnrýnt Seðlabankann fyrir að lækka ekki vexti meira og hraðar. Af hverju teljið þið vexti of háa?

„Hugmyndin í einföldu máli er að kæla hagkerfið með því að halda skuldsetningu niðri með háum stýrivöxtum. En skuldsetning er í lágmarki. Þá er samkeppni að aukast og verðbólgan er lág. Ferðamennirnir eru að knýja áfram þennan hagvöxt, ekki skuldsetning. Þess vegna hef ég sagt að Seðlabankinn verði að leyfa Íslendingum að njóta velgengninnar líka með því að lækka vexti.“

Tæknibreytingar eru áskorun

Hvað er fram undan hjá GAMMA og hvaða áskoranir eru út við sjóndeildarhringinn?

„Það er auðvitað áskorun að þjónusta viðskiptavininn með fjölbreytt úrval fjárfestingarkosta. Heimurinn og fjármálamarkaðir eru sífellt á hreyfingu og það þarf sífellt að vera á tánum; vöruþróun er lykillinn. Hingað til höfum við stofnað sjóði með eignaflokka sem hafa ekki verið aðgengilegir áður. Við ætlum að stofna nokkra sjóði á komandi misserum. Við ætlum að hlúa að því sem við höfum byggt upp hingað til, ásamt því að efla erlendu starfsemina; finna fjárfestingartækifæri fyrir innlenda fjárfesta á erlendum mörkuðum og erlenda fjárfesta á Íslandi.

Svo mun ráðgjafarstarfsemi GAMMA Ráðgjafar halda áfram að eflast og við höfum mjög frambærilega þjónustu fram að færa. Ráðgjöfin skiptist í efnahags- og fyrirtækjaráðgjöf, en við höfum frá upphafi lagt áherslu á að greina langtímaleitni í hagkerfinu, bæði hér heima og erlendis, og teljum okkur hafa mikla þekkingu á hagkerfinu. Það hefur nýst okkur í ráðgjöf og greiningu fyrir stjórnvöld, sjóði, sveitarfélög, fyrirtæki og erlenda viðskiptavini. Við ætlum einnig að taka þátt í þeirri fjármálatækniþróun sem er að eiga sér stað í heiminum. Ein hlið á fórnarkostnaði haftanna var að þau lokuðu á þann möguleika að taka þátt í fjárfestingum í þeirri öru tækniþróun sem er að eiga sér stað erlendis. Fjármálaþjónusta er í auknum mæli að færast yfir á netið. Það eru að eiga sér stað breytingar á upplýsingagjöf, til dæmis með persónuvernd og lánshæfismöt. Samkeppnin er því að aukast og rekstrarumhverfið að breytast. Við erum byrjuð að að taka þátt í þessu, til dæmis með Framtíðinni lánasjóði. Tækniþróunin er auðvitað áskorun en við ætlum að nýta okkur það sem tæknin hefurupp á að bjóða.“  

 

Senda grein