Fréttir



Vísitölur GAMMA - yfirlit yfir árið 2017

5.1.2018 Vísitölur

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 7,6% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og báru verðtryggð ríkisskuldabréf hæstu ávöxtunina yfir árið eða 11,6%. Hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja eru nú 41,5% af markaðnum í Markaðsvísitölu GAMMA og helst það hlutfall frekar stöðugt frá síðasta ári.

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 7,6% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og báru verðtryggð ríkisskuldabréf hæstu ávöxtunina yfir árið eða 11,6%. Óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 5,2% og heildarvísitala ríkistryggðra skuldabréfa um 9,5%. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 8,6%, þar af hækkaði sértryggði hlutinn um 8,2%. Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 3,0% á árinu. Verðbólga var 1,9% á árinu (des-des) og raunávöxtun allra eignaflokka því jákvæð.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er umtalsverður munur á ávöxtun eignaflokka á milli ára. Til að mynda hækkaði Hlutabréfavísitala GAMMA um 7,3% árið 2014 borið saman við 49,9% árið 2015 og síðan 0,1% hækkun yfir árið 2016. Mælt með Markaðsvísitölunni var 2017 betra ár á eignamörkuðum en árið 2016, en þó lakara en árið 2015, helst vegna mismunandi ávöxtunar á hlutabréfamarkaði.

Ávöxtun vísitalna GAMMA sl. 4 ár

Avoxtunvisitalna1

Áhugavert er að líta til þróunar vísitalnanna yfir árið. Þá er flökt á hlutabréfavísitölunni einna mest áberandi. Flöktið má að einhverju leyti rekja til lækkunar vaxta um 0,25% í maí, sem bar með sér mikla hækkun á hlutabréfamarkaði, auk þess sem uppgjör fyrsta ársfjórðungs voru mörg hver framar vonum. Síðar meir hafði mjög þungur ágústmánaðar töluverð áhrif, en þá dróst velta milli ára verulega saman. Fjölmörg uppgjör fyrir annan ársfjórðung voru birt og reyndust undir væntingum. Mest fór hlutabréfavísitalan upp um +17,6% frá ársbyrjun þann 9. maí en mesta lækkun frá ársbyrjun var -3,5% þann 1. febrúar.

Aðrar vísitölur voru talsvert stöðugri yfir árið. Allar virtust þær taka nokkurri hækkun eftir vaxtaákvörðunina líkt og hlutabréfavísitalan.

Þróun vísitalna GAMMA yfir árið

Throunvisitalna

Innan ríkistryggðu skuldabréfavísitölunnar sýndu langir verðtryggðir flokkar bestu heildarávöxtunina á árinu en tveir af þremur hæstu voru HFF44 [+13,8%], HFF34 [+11,0%], á milli þeirra var síðan RIKS 30 [+11,1%]. Á móti var heildarávöxtun RB31 [+4,6%] og RB25 [+5,0%] lökust. Eftir að hafa skilað 11,9% heildarávöxtun á ári undanfarin tvö ár var RB 31 nú með lægstu ávöxtunina.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra skuldabréfa árið 2017

Heildaravoxtun3

Ávöxtun hlutabréfa innan vísitölunnar var æði misjöfn á árinu, en Grandi [+39%] sýndi bestu ávöxtunina á meðan Icelandair [-36%] og Hagar [-34%] þá lökustu.

Breytingar urðu á vísitölunni á árinu en þann 30. júní bættist Skeljungur í hóp þeirra fyrirtækja sem eru í vísitölunni. Brotthvarf Össur af markaði í lok ársins hafði einnig áhrif á samsetningu vísitölunnar, en núna um áramótin duttu TM og Sjóvá út úr vísitölunni í kjölfar þessa. Félög innan vísitölunnar eru því 13 talsins í upphafi árs 2018.

Össur og Nýherji hafa verið með minnstu veltuna á markaðnum og þar af leiðandi ekki talist gjaldgeng í vísitöluna. 

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra hlutabréfa árið 2017

Heildaravoxtuneinstakra4

Innlent eða erlent, verðtryggt eða óverðtryggt

Árið 2016 var mikil sundurleitni í ávöxtun á hlutabréfamarkaði og skuldabréfamarkaði og mikill munur var á ávöxtun mismunandi fjárfestingarkosta, þ.e. góð ávöxtun hlutabréfa sem hafa tekjur og eignir á Íslandi og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa en lakari ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa og hlutabréfa með tekjur og eignir erlendis. Þetta breyttist þó til muna árið 2017 og snerist algerlega við.

Ef miðað er við þær vigtir sem hvert og eitt félag hefur í hlutabréfavísitölunni hverju sinni er hægt að sýna fram á að félög í erlendri starfsemi lækkuðu um -14,0% á árinu 2016 en félög í innlendri starfsemi hækkuðu um +22,4%. Þegar sömu aðferð er beitt fyrir árið 2017 sést að talsvert minni munur skilur þessa kosti að og hafa erlendu félögin hækkað meira en þau innlendu, eða +5,0% gegn +0,75%.

Eins og sést á fyrstu mynd annálsins var ekki einungis viðsnúningur milli ára þegar kemur að innlendum og erlendum félögum, heldur einnig verðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum.

Innevov2

 

Skuldabréfin í fyrirtækjavísitölunni eru nú orðin 29 talsins, þar af 21 sértryggt bankabréf. Sértryggðu bréfin eru nú 72% af markaðsvirði vísitölunnar en um síðustu áramót stóð þetta hlutfall í 63%.

Samsetning Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa um áramótin

Samsetningfyrirtaekja1

Núverandi samsetning Markaðsvísitölu GAMMA er 39% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 19% óverðtryggð ríkisbréf, 27% hlutabréf og 15% fyrirtækjaskuldabréf, og hefur þessi samsetning haldist nokkuð stöðug yfir árið (± 2%)

Samsetning Markaðsvísitölu GAMMA

Samsetingmarkads1

Heildarmarkaðsvirði Markaðsvísitölu GAMMA í árslok 2016 var 2.559 milljarðar (106% af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2016). Árið 2017 hækkaði heildarmarkaðsvirðið um 185 milljarða og endaði því í 2.744 milljörðum. Allir eignaflokkar hækkuðu að markaðsvirði á árinu og var mesta hækkun í vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa (GAMMA:CBI), sem hækkaði um 125 milljarða (úr 284 milljörðum í 409 milljarða), en fjöldi bréfa í vísitölunni jókst úr 24 í 29 á árinu.

Velta með hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf eykst um 18% en velta með ríkistryggð bréf lækkar um 27%

Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2017 var 1.644 milljarðar, eða um 6,6 milljarðar á dag að meðaltali. Þetta er nokkur lækkun frá 2016 en þá var heildarvelta 1.873 milljarðar og lækkun í veltu því um 12%. Ástæðuna má einkum rekja til lægri veltu með ríkis- og ríkistryggð skuldabréf, en hún lækkaði um 334 milljarða á milli ára.

Skipting heildarveltu 2017 eftir eignaflokkum

Skiptingheildarveltu

Af einstökum vísitölum var mest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf [GAMMAxi] eða 736 ma. (44% af heild), næst var Hlutabréfavísitala GAMMA með 604 ma. (36%), þar á eftir Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa með 164 ma. (10%) og loks vísitala verðtryggðra skuldabréfa [GAMMAi] með 153 ma. (9%). Þrátt fyrir lágt hlutfall af heildarveltu er Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hástökkvari ársins með 47% veltuaukningu frá árinu 2016 og kemur það ofan á 88% aukningu milli áranna 2015 og 2016 og 100% aukningu á milli áranna 2014 og 2015.

Þróun á veltu Markaðsvísitölunnar yfir árið

Throunmarkadsv

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið. Allar nánari upplýsingar um Vísitölur GAMMA má nálgast á heimasíðu GAMMA hér: http://www.gamma.is/visitolur/

Hægt að óska eftir að fá vísitölugildi send daglega í tölvupósti með því að láta vita á gamma(at)gamma.is eða síma 519-3300.

Senda grein