Fréttir



Vísitölur GAMMA - yfirlit yfir árið 2016

Samantekt

4.1.2017 Vísitölur

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 4,3% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og báru óverðtryggð ríkisskuldabréf hæstu ávöxtunina yfir árið eða 10,3%. Hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja eru nú 40,2% af markaðnum í Markaðsvísitölu GAMMA og helst það hlutfall frekar stöðugt frá síðasta ári.

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 4,3% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og báru óverðtryggð ríkisskuldabréf hæstu ávöxtunina yfir árið eða 10,3%. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 4,6% og heildarvísitala ríkistryggðra skuldabréfa um 6,4%. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 5,9%, þar af hækkaði sértryggði hlutinn um 6,4%. Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði lítillega á árinu eða um 0,1%. Verðbólga var 1,9% á árinu (des-des) og raunávöxtun allra eignaflokka utan hlutabréfa því jákvæð.

Eins og sjá má ef neðangreindri mynd er umtalsverður munur á ávöxtun eignaflokka á milli ára, til að mynda hækkaði Hlutabréfavísitala GAMMA um 7,3% árið 2014 borið saman við 49,9% árið 2015 og loks 0,1% hækkun yfir árið 2016. Mælt með Markaðsvísitölunni var 2016 talsvert lakara ár á eignamörkuðum miðað við árið 2015, þá helst vegna mismunandi ávöxtunar á hlutabréfamarkaði.

 

Ávöxtun vísitalna GAMMA sl. 3 ár

Áhugavert er að líta til þróunar vísitalnanna yfir árið, en til að mynda er það ekki fyrr en á seinni helmingi ársins sem Markaðsvísitala GAMMA verður jákvæð. Í lok júlí stóð Markaðsvísitalan í -1,3% en tók við sér síðustu 5 mánuði ársins, sér í lagi í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans í ágúst, og endaði árið í +4,3%. Óverðtryggði hluti ríkisskuldabréfavísitölunnar tekur fram úr öðrum eignaflokkum í kjölfar sömu vaxtaákvörðunar í ágúst, þar sem stýrivextir voru lækkaðir um 50bps, og heldur þeirri forystu út árið og endar í +10,3%.

Þróun vísitalna GAMMA yfir árið

Innan ríkistryggðu skuldabréfavísitölunnar sýndu langir óverðtryggðir flokkar bestu heildarávöxtunina á árinu og þrír hæstu voru RB 31 [+13,8%], RB 25 [+11,9%] og RB 22 [+10,1%]. Á móti var heildarávöxtun RIKS 21 [3,6%], HFF24 [+4,3%] og HFF44 [+4,4%] lökust. 

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra skuldabréfa árið 2016

Ávöxtun hlutabréfa innan vísitölunnar var æði misjöfn á árinu, en N1 [+92%], Eimskip [+41%] og Eik [+38%] sýndu bestu ávöxtunina á meðan Grandi [-34%], Icelandair [-34%] og Síminn [-12%] þá lökustu. Mikill munur er á hlutabréfum í íslenskum félögum, sem hafa tekjur og eignir á Íslandi, og þeim sem hafa tekjur og eignir erlendis, en síðari flokkurinn er sýnir talsvert laka ávöxtun yfir árið. Össur og Nýherji hafa verið með minnstu veltuna á markaðnum og þar af leiðandi ekki talist gjaldgeng í vísitöluna.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra hlutabréfa árið 2016

Innlent ávaxtaðist best í ár

Mikil sundurleitni var í ávöxtun á hlutabréfamarkaði og skuldabréfamarkaði og mikill munur var á ávöxtun mismunandi fjárfestingarkosta, þ.e. góð ávöxtun hlutabréfa sem hafa tekjur og eignir á Íslandi og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa en lakari ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa og hlutabréfa með tekjur og eignir erlendis. Með ákveðinni nálgun á markaðsvægi innan vísitölunnar má segja að félög í íslenskri starfsemi hafi hækkað um 25% á árinu á móti 12% neikvæðri ávöxtun annarra félaga. Á eftir óverðtryggðum ríkisskuldabréfum er ávöxtun sértryggðu bréfa bankanna, sem skiluðu 6,4% ávöxtun á árinu.

Skuldabréfin í fyrirtækjavísitölunni eru 24 talsins, þar af 17 sértryggð bankabréf. Sértryggðu bréfin eru nú orðin 63% af vísitölunni en um síðustu áramót stóð þetta hlutfall í 52,5%. 

Samsetning Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa um áramótin

Fyrirtæki innan hlutabréfavísitölunnar eru 14 talsins og breyttist samsetning hennar ekkert yfir árið. Skeljungur kom í fyrsta sinn til greina í vísitöluna um áramótin eftir skráningu fyrirtækisins á markað í desember, en velta með bréf fyrirtækisins var ekki nægileg til að bréfin teldust gjaldgeng, enda fáir viðskiptadagar sem stóðu að baki útreikningnum.

Núverandi samsetning Markaðsvísitölu GAMMA er 42% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 18% óverðtryggð ríkisbréf, 29% hlutabréf og 11% fyrirtækjaskuldabréf, og hefur þessi samsetning haldist nokkuð stöðug yfir árið (± 2%)

Samsetning Markaðsvísitölu GAMMA

Heildarmarkaðsvirði Markaðsvísitölu GAMMA í árslok 2016 var 2.542 milljarðar (115% af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2015) og hækkaði um 145 milljarða á árinu. Allir eignaflokkar hækkuðu að markaðsvirði á árinu og var mesta hækkun í verðtryggða hluta ríkistryggðu vísitölunnar (GAMMAi), sem hækkaði um 69 milljarða (úr 990 milljörðum í 1.059 milljarða), sér í lagi vegna innkomu RIKS30 í vísitöluna á árinu í kjölfar þess að tekin var upp viðskiptavakt með bréfin.

Velta með hlutabréf og skuldabréf eykst um 53% en velta með ríkistryggð bréf lækkar um 33%

Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2016 var 1.874 milljarðar, eða um 7,5 milljarðar á dag að meðaltali. Þetta er nokkur lækkun frá 2015 en þá var heildarvelta 2.252 milljarðar og lækkun í veltu því um 17%. Ástæðuna má einkum rekja til lægri veltu með ríkis- og ríkistryggð skuldabréf, en hún lækkaði um 607 milljarða á milli ára.

Skipting heildarveltu 2016 eftir eignaflokkum

Af einstökum vísitölum var langmest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf [GAMMAxi] eða 1.016 ma. (54% af heild), næst var Hlutabréfavísitala GAMMA með 549 ma. (29%), þar á eftir verðtryggð ríkis- og íbúðabréf [GAMMAi] með 199 ma. veltu (11%) og loks Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa með 111 ma. (6%). Þrátt fyrir lágt hlutfall af heildarveltu er Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hástökkvari ársins með 88% veltuaukningu frá árinu 2015 og kemur það ofan á 100% hækkun í veltu á milli áranna 2014 og 2015.

Þróun á veltu Markaðsvísitölunnar yfir árið

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið. Allar nánari upplýsingar um Vísitölur GAMMA má nálgast á heimasíðu GAMMA hér: http://www.gamma.is/visitolur/

Hægt að óska eftir að fá vísitölugildi send daglega í tölvupósti með því að láta vita á gamma@gamma.is eða síma 519-3300.




 

Senda grein