Fréttir



  • IMG_1847

Útgáfu Musu fagnað í Gallery GAMMA

20.3.2017

Þórarinn Eldjárn sagði verk Sigurðar Guðmundssonar allsherjar hugleiðingu um sköpunina í útgáfuhófi í Gallerý GAMMA.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Gallerý GAMMA síðastliðinn föstudag á útgáfufögnuð nýjustu skáldsögu Sigurðar Guðmundssonar, Musa, sem gefin er út af Crymogea. Höfundur Musu hefur lýst því þannig að þegar hann lendir í slæmri myndlistarkrsíu einsetur hann sér að nota þrautreynda leið til að bjarga sér úr kreppunni og skrifa bók, en uppgötvar þá að hann er líka haldinn ritstíflu.

Þórarinn Eldjárn flutti af þessu tilefni stutt erindi um skáldskap Sigurðar Guðmundssonar, sem er einn fremsti myndlistarmaður Íslendinga. Þórarinn dró í upphafi fram tengsl bókverka og texta í myndverkum og sagði að bækur hefðu líka gjarnan gegnt ýmsum táknrænum hlutverkum í ljósmyndaverkum.

Hugleiðing um sköpunina

Hvað sem því líður sagði Þórarinn: „Verk Sigurðar eru ef til vill fyrst og fremst ein allsherjar hugleiðing um sköpunina og sköpunarþörfina. Sem hann kallar reyndar sköpunargræðgi.  Hann orðar það þannig í Musu: „Fyrir mér snýst lífið eingöngu um sköpun. Sköpun, sköpun og ekkert nema sköpun. Ef til vill ekki hentugt mottó fyrir mann á mínum aldri“.

Sköpunin er semsé lífsloftið sjálft. Spurning hvort ekki megi eins tala um sköpunarfíkn. Sem reyndar er jákvæð fíkn, rétt eins og sköpunargræðgin er jákvæð græðgi að mati Sigurðar. Og við þessari fíkn er engin meðferð í boði önnur en fíknin sjálf. Hún ein getur slegið á hin hræðilegu fráhvarfseinkenni,“ sagði Þórarinn í erindi í Gallery GAMMA.

Þekkti ekki ritstíflu

Sigurður lýsti því í viðtali við SunnudagsMoggann hvernig hann lendir í krísu í myndlistinni á sirka sjö ára fresti og skrifar sig frá henni með skáldsögu. Þegar hann settist niður á hóteli í Hainan til að skrifa Musu kynnntist hann annarri krísu, ritstíflu.

„Það er krísa sem ég þekkti ekki af því ég er ekki rithöfundur og það var ekki í planinu. Ég var því allsnakinn, ekki með neina kanónu eða plan í hausnum á mér, bara þörfina að skapa eins og  drukknandi maður sem getur ekki hugsað sér lífið án þess að vera sískapandi,“ sagði Sigurður við Árna Matthíasson í Morgunblaðinu.

Screen-Shot-2017-03-20-at-11.42.22

Fjórða skáldsagan

Sigurður Guðmundsson er fæddur árið 1942 veitti nýjum straumum inn í íslenskt bókmenntalíf með skáldsögum sínum, Tabúlarasa, Ósýnilegu konunni og Dýrin í Saigon. Vangaveltur um tungumál, kyn og þjóðerni þyrluðust um í hrífandi stróki og íslenska sagnaþráin fann um stund félaga og vin í hugleiðingunni og hugmyndinni.

Senda grein