Fréttir



Vaxtaparadís norðursins

6.10.2016 Skoðun Starfsemi

Á vel sóttri lokaðri málstofu hjá GAMMA Capital Management, sem bar yfirskriftina Vaxtaparadís norðursins, var farið yfir stefnuna í peningamálum á Íslandi í ljósi alþjóðlegrar þróunar og hvort íslenskir vextir séu tækifæri í vaxtalausum heimi. 

Til máls tóku Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, Dr. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði og efnahagsráðgjafi GAMMA og Agnar Tómas Möller fjárfestingastjóri hjá GAMMA.

Valdimar opnaði málstofuna og fór stuttlega yfir góða stöðu hagkerfisins þar sem samdráttur í útlánum ásamt stórum gjaldeyrisforða og góðri stöðu ríkissjóðs gæfi fullt tilefni til uppfærslu á lánshæfismati Íslands, enda væri skuldatryggingaálag á Ísland búið að helmingast á um einu og hálfu ári og stæði nú í um 88 punktum yfir grunnvexti. Þá sé ofangreint ásamt lágri verðbólgu tilefni til vaxtalækkana en spurningin sem þyrfti að svara væri hvort mögulega hefði orðið breyting á svokölluðu jafnvægisvaxtastigi á Íslandi.

Lánshæfismat Íslands í samanburði
Ísland færist aftur í hóp best staddra landa

Hvert stefnir í peningamálum?

Þá tók til máls Friðrik Már og fór yfir í erindi sínu stefnuna í peningamálum með hliðsjón af alþjóðlegri umræðu og þróun að undanförnu. Hann benti á að þrátt fyrir lága verðbólgu og verðbólguvæntingar væru vextir hér mun hærri en í samanburðarlöndum. Nýleg vaxtalækkun breytti engu um þá stöðu. Munurinn skýrist að einhverju leyti af ólíkri stöðu í efnahagsmálum; hér er kröftugur hagvöxtur og lágt atvinnuleysi ólíkt því sem er t.d. í Evrópu, en vaxtamunurinn er engu að síður mjög mikill. Friðrik fór yfir verðbólguspár Seðlabankans frá 2015 og benti á að þær eigi það sameiginlegt að byrja í lágum gildum, en rísa síðan í u.þ.b. 4%-4,5% verðbólgu þegar litið er ár fram í tímann. Þessar spár hafa hingað til reynst allt of háar. Þetta skiptir máli því verðbólguspár Seðlabankans - sem má líta á sem verðbólguvæntingar hans - hafa mikil áhrif á vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar. Þegar leitað er skýringa á lágri verðbólgu kemur í ljós að hún á sennilega rætur að rekja til styrkingar gengis krónunnar og lágrar verðbólgu erlendis; framleiðnivöxtur nær ekki að skýra lága verðbólgu þrátt fyrir miklar launahækkanir.

Vaxtastig á Íslandi – allt annar heimur

Farið var yfir svokallaða Taylor-reglu, sem er gagnleg viðmiðun þegar litið er til ákvarðana um stýrivexti og er lýst í opinberum greinargerðum Seðlabankans. Þessi regla gengur út frá tilteknum jafnvægisraunvöxtum, sem eru þeir raunvextir sem halda verðbólgu við markmið til miðlungslangs tíma litið. Síðustu ár hefur Seðlabankinn gert ráð fyrir að þessir vextir séu 3%. Raunverulegir stýrivextir hafa fylgt Taylor-reglunni nokkuð vel frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001, ef tímabilið í kringum fjármálakreppuna 2008-2010 er undanskilið. Frá og með 3. ársfjórðungi 2015 má þó greina frávik frá reglunni, sem hefur vaxið og er nú orðið 1 prósentustig, þ.e. meginvextir Seðlabankans eru einni prósentu lægri en þeir væru ef reglunni hefði verið beitt blint. Ef meginvextir lækka um 50 punkta til viðbótar - eins og búist er við - þá eru þeir komnir í jafnvægisvexti. Þetta fer varla saman við spár Seðlabankans um vaxandi verðbólgu, sem bankinn reiknar með að nái 3,5% eftir ár og 3,8% árið 2018, og framleiðsluspennu sem reiknað er með að fari yfur 3% á þessu tímabili. Það geta verið nokkrar skýringar á þessu, t.d. að væntingar peningastefnunefndar um verðbólgu eða framleiðsluspennu séu lægri en felst í spá Seðlabankans. En skýringa kann einnig að vera að leita í því að nefndin telji að jafnvægisvextir hafi lækkað. Það væru mikil tíðindi, því í því felst að vextir á Íslandi yrðu varanlega lægri í framtíðinni en verið hefur.

Að undanförnu hefur það verið mjög til skoðunar á alþjóðlegum vettvangi hvort jafnvægisraunvextir hafi lækkað. Það virðist vera almennt álit hagfræðinga að svo sé, spurningin er aðeins hve mikil lækkunin er. Peningastefnunefnd bandaríska seðlabankans (FOMC) telur t.d. að jafnvægisraunvextir hafi lækkað frá 2012 um rúmt prósent, úr 2,25% í 1%. Sumir vilja ganga enn lengra: Rannsóknir John C. Williams o.fl. hjá seðlabankanum í San Francisco gefa vísbendingar um að jafnvægisvextir í Bandaríkjunum séu nú  nálægt núlli og hafi lækkað - mismunandi mikið - í nokkrum öðrum ríkjum og svæðum sem tekin hafa verið til skoðunar (Kanada, Bretland, Evrusvæðið). Það skapar miklar áskoranir fyrir fjárfesta, sér í lagi lífeyrissjóði. Svigrúm peningastefnu við þessar aðstæður - sér í lagi til að lækka nafnvexti þannig að raunvextir verði verulega neikvæðir - minnkar einnig verulega.

Í yfirlýsingu sinni 24. ágúst sagði peningastefnunefnd að útlit væri fyrir „að hægt verði að halda verðbólgu við markmið til miðlungslangs tíma litið með lægri vöxtum en áður var talið“. Þetta er vart hægt að skilja á annan veg en þann að nefndin telji að jafnvægisvextir á Íslandi hafi lækkað. Það þýðir bæði lækkun raun- og nafnvaxta en ekki er gefið til kynna hve mikil þessi lækkun gæti verið. Ekki er heldur skýrt út eða rætt nánar hvers vegna jafnvægisvextir ættu að hafa lækkað á Íslandi. Hagvöxtur er kröftugur svo ekki er skýringar að leita þar, a.m.k. ekki enn sem komið er. Hins vegar sparar fólk meira nú en áður og það kann að hafa leitt til þess að jafnvægisraunvextir hafi lækkað. Þetta er áhugavert rannsóknarefni í framtíðinni.

Friðrik lauk máli sínu á að fara yfir nokkrar sviðsmyndir þar sem meginvextir Seðlabankans voru framreiknaðir með mismunandi forsendum um jafnvægisraunvexti, verðbólguvæntingar og framleiðsluspennu. Í ljós kemur að lækkun jafnvægisraunvaxta ein og sér, t.d. um 1 prósentu, dugir ekki til þess að skýra þau skilaboð sem felast í yfirlýsingu peningastefnunefndar: Spár Seðlabankans um verðbólgu og framleiðsluspennu myndu þýða vaxtahækkanir á komandi misserum. Í sviðsmynd, þar sem reiknað er með 5% árlegri styrkingu gengis á næstu tveimur árum, lækka verðbólguvæntingar í eða undir markmið og vextir gætu lækkað samsvarandi, þ.e. um 0,5% til viðbótar síðustu vaxtalækkun. Þessi sviðsmynd gerir hins vegar enn ráð fyrir mikilli framleiðsluspennu, líkt og í spám Seðlabankans. Ef þær eru lækkaðar þá lækka vextir hraðar í átt að jafnvægisnafnvöxtum, þ.e. úr 5,25% í 3,75%. Friðrik lagði áherslu á að þetta væru sviðsmyndir en ekki spár.

Eru íslenskir vextir tækifæri í vaxtalausum heimi?

Agnar Tómas Möller endaði málstofuna á umfjöllun um vexti á Íslandi í erlendum samanburði. Vextir erlendis hafa lækkað stöðugt s.l. þrjá áratugi og hlutabréfaverð hækkað samfellt, og hafa vextir helstu þróaðra ríkja náð botni á sama tíma og framleiðniauking er lítil, vestrænar þjóðir eldast og sparnaður hefur aukist umtalsverst. Ástæður fyrir auknum sparnaði er m.a. hækkandi lífaldur, mikil aukning sparnaðar í Kína auk þess sem lægri vextir auka enn frekar þörfina á auknum sparnaði.  Flestir greiningaraðilar og margir fræðimenn vænta þess að raunávöxtun skuldabréfa og hlutabréfa verði mun lægri horft fram á veginn en hún hefur verið síðastliðin 30 ár, einkum ef vöxtur þróaðra hagkerfa nær sér ekki á strik.. Markaðsvirði útgefinna skuldabréfa ríkja sem hafa í dag neikvæða ávöxtunarkröfu, hefur þrefaldast á einu ári og ber í dag þriðjungur ríkisskuldabréfa í heiminum  neikvæða vexti. Á Íslandi mun vaxtastig og eignaverð verða fyrir miklum áhrifum af fjárfestingum erlendra aðila þegar höftum léttir og ætti Ísland í því tilliti að teljast til þróaðra ríkja, sé litið til lánshæfis, skulda og reksturs ríkissjóðs og sparnaðarstigs. Smæð fjármagnsmarkaðar og minni seljanleiki ásamt gjaldeyrishöftum draga okkur hins vegar í átt að nýmarkaðsríkjum. Ísland hefur langhæstu langtíma vexti allra þróaðra ríkja og auk þess mjög sterka stöðu ríkissjóðs og lágar skuldir í samanburði við önnur þróuð ríki. Þótt langtíma vaxtamunur í samanburði við nýmarkaðsríki sé ekki áberandi hár hefur Ísland hæstu raunvexti allra nýmarkaðsríkja sem og áberandi mestan afgang af ríkissjóði og langhæstan lífeyrissparnað. Innflæðishöft koma í dag að mestu í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum vöxtum en við afléttingu haft er líklegt að lánshæfi Íslands myndi hækka talsvert og mengi mögulegra á Íslandi stækka verulega.

Þróun langtímavaxta á Íslandi og í Bandaríkjunum og Þýskalandi frá 2002
Agnar sagði að 10 ára nafnvaxtamunur hefði aukist frá árunum 2003-2007 og farið úr um 2,5% miðað við US og EUR í um 3,7% við US og 5,3% við EUR. En hins vegar gæti framboð skuldabréfa á Íslandi farið minnkandi og hefur helsti vöxtur útgáfu verið í gegnum sértryggð skuldabréf og fyrirtækjaskuldabréf en staða ríkisbréfa hefur minnkað á undanförnum árum. Útlit er fyrir að ríkisbréfaútgáfa verði neikvæð næstu árin. Eftirspurn innlendra aðila eftir skuldabréfum ætti enn að haldast sterk þar sem lífeyrissjóðirnir eru enn að vaxa og íslenskir raunvextir henta þeim einkar vel, sér í lagi skuldabréf með löngum líftíma. Á meðan lengri tíma vaxtamunur við útlönd er jafnhár og í dag á sama tíma og skuldir einkaaðila  og opinberra aðila halda áfram að dragast saman, ættu íslenskir vextir áfram að vera hluti af innlendum eignasöfnum þeirra sem vilja byggja upp sparnað til lengri tíma. 

Myndir úr málstofunni

Valdimar Ármann, Dr. Friðrik Már Baldursson og Agnar Tómas Möller

Dr. Friðrik Már Baldursson fer yfir Taylor regluna

Agnar Tómas Möller fjallar um íslenska vexti í alþjóðlegum samanburði

Valdimar Ármann opnaði málstofuna og fór yfir góða stöðu íslenska hagkerfisins

Senda grein