Fréttir



Setja á höft í stað þess að aflétta þeim

28.7.2016 Skoðun

Agnar Tómas Möller sjóðstjóri hjá GAMMA og sérfræðingur á skuldabréfamarkaði gagnrýnir innstreymishöft Seðlabankans í viðtali við Morgunblaðið. 

,,Á sama tíma og við ættum að vera að taka lokaskrefin í fullu haftaafnámi þá erum við að setja á ný höft og tel ég að þessi skref muni reynast skaðleg horft fram á veginn,” segir Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA.

Í nýlegu viðtali Morgunblaðsins við Má Guðmundsson seðlabankastjóra segir hann að innstreymi gjaldeyris á skuldabréfamarkað hafi algjörlega stöðvast í kjölfar þess að teknar voru upp reglur um ný stýritæki bankans. Var þeim beint gegn skammtíma vaxtamunarviðskiptum en ekki langtímafjárfestingum erlendra aðila í skuldabréfum.

Bankinn fer með rangt mál

„Í fyrsta lagi fer Seðlabankinn einfaldlega með rangt mál með að halda því fram að erlendir aðilar séu að fjárfesta í skuldabréfum til skamms tíma,” segir Agnar.

Hann segir að þegar tölur eru skoðaðar komi í ljós að seinustu 12 mánuði hafi erlendir fjárfestar að langmestu leyti fjárfest til mjög langs tíma í ríkisskuldabréfum, eða til ársins 2025 eða lengur.

„Þetta eru því að mestu langtímafjárfestar og með nokkrum ólíkindum að bankinn hafi þá afstöðu að landið hafi ekki þörf fyrir langtíma erlenda fjárfestingu,” segir hann. „Þvert á móti er sérstaklega mikil þörf fyrir fjárfesta af þessum toga nú á sama tíma og verið er að létta af höftum og stærstu fjárfestarnir á innlendum markaði, lífeyrissjóðirnir, eru ekki að beina fé inn á markaðinn eins og áður og jafnvel taka fjármagn af innlendum markaði.”

Agnar segir að erlend fjárfesting í löngum ríkisskuldabréfum losi um fjármagn í aðrar, hugsanlega arðbærari, fjárfestingar og þetta muni einnig hitta fyrirtæki illa fyrir þar sem höftin nái til fjárfestinga í öllum skuldabréfum.

„Í öðru lagi hlýtur það að valda áhyggjum hversu ótrúverðugur Seðlabankinn er í aðdraganda þessa alls. Bankinn gaf út fjármálastöðugleikarit tveimur mánuðum fyrir reglusetninguna og rekur ítarlega að ekki sé þörf aðgerða vegna innflæðis fjármagns þar sem það hefði dregist nokkuð hratt saman á fyrri hluta ársins, samanborið við árið í fyrra,” segir Agnar. ,,Aðalhagfræðingur bankans lýsir því á fundum utan bankans að ekki séu ástæður til að hafa áhyggjur af innflæðinu. Svo eins og hendi er veifað eru mjög hamlandi höft sett á erlenda fjarfestingu.”

Agnar segir stóra ástæðu fyrir því, að enginn erlendur aðili hafi fjárfest í íslenskum skuldabréfum eftir setningu haftanna, vera þá að Seðlabankinn hafi misst trúverðugleika í augum erlendra fjárfesta.

„Bæði skynja þeir að Seðlabankinn líti á þá sem óæskilega sem og að yfirlýsingar hans og skrif hafi lítið gildi í praksís.”

Tímir ekki að greiða eigin vexti

„Raunveruleg ástæða fyrir þessari ólánssömu vegferð bankans liggur í því að raunvextir bankans hafi farið úr böndunum. Þeir standa nú í um 5% á sama tíma og gjaldeyrir flæðir inn til landsins og bankinn einfaldlega tímir ekki að greiða sína eigin háu vexti í gegnum gjaldeyriskaup sín. Ef ráðið við því er að loka fyrir erlenda langtímafjárfestingu er óhætt að segja að peningastefnan hafi beðið skipbrot.”

Senda grein