Fréttir



Jafnræðis ekki gætt við meðhöndlun sparnaðarforma í gjaldeyrishöftum

21.7.2016 Skoðun Starfsemi

Gísli Hauksson forstjóri GAMMA Capital Management hf. sendi í gær bréf til Seðlabanka Íslands og afrit sent á Fjármálaráðuneytið.

Seðlabanki Íslands
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Kalkofnsvegi 1
150 Reykjavík

Reykjavík, 20. júlí 2016

Jafnræðis ekki gætt við meðhöndlun sparnaðarforma í gjaldeyrishöftum

1. Undanþáguheimildir til lífeyrissjóða, vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar og erlendra kröfuhafa

Þann 1. júlí sl. tilkynnti Seðlabanki Íslands að ákveðið hefði verið að veita lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Samanlagt nemur heimildin að minnsta kosti 40 milljörðum króna, og fram kom í tilkynningu Seðlabankans að frá miðju síðasta ári til loka júní 2016 hefði lífeyrissjóðum verið veitt heimild til erlendrar fjárfestingar alls að fjárhæð 40 milljarðar króna. Hin nýja heimild er raunar svo rúm að Seðlabankinn tekur fram að verði gjaldeyrisinnstreymi mikið næstu mánuði komi til álita að veita viðbótarheimildir, umfram fyrrgreinda 40 milljarða sem tekin var ákvörðun um í júlí.

Minna má á að til viðbótar við ofangreint hefur erlendum kröfuhöfum jafnframt verið veitt undanþága frá gjaldeyrishöftum, með sérstökum samningum þar að lútandi í tengslum við nauðasamninga föllnu bankanna.

2.  Verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir

Almenningur hefur í raun þrjá kosti þegar kemur að sparnaði í sameiginlegum sjóðum. Í fyrsta lagi í gegnum lífeyrissjóði með almennum hætti (skyldusparnaður), í öðru lagi í gegnum séreignarlífeyrissparnað (skyldusparnaður og/eða valfrjáls viðbótarlífeyrissparnaður) og í þriðja lagi í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu (valfrjáls viðbótarsparnaður), nánar tiltekið verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

GAMMA Capital Management hf. (GAMMA) er rekstrarfélag verðbréfasjóða, með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, með um 85 milljarða króna í stýringu fyrir lífeyrissjóði, tryggingarfélög, bankastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.

GAMMA stýrir meðal annars tveimur verðbréfasjóðum (UCITS) og sjö fjárfestingarsjóðum, á grundvelli laga nr. 128/2011. Sjóðir þessir eru opnir öllum fjárfestum og eru því nýttir, af einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum og stofnanafjárfestum, til ávöxtunar á sparifé og öðrum fjármunum. Þess ber að geta að verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir lúta ströngu eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

3. Sparnaðarform meðhöndluð með ólíkum hætti og jafnfræðis ekki gætt

Að mati GAMMA standa engin rök til þess að meðhöndla þessi sparnaðarform með ólíkum hætti.

Þrátt fyrir það hefur Seðlabankinn veitt lífeyrissjóðum annars vegar (og það ítrekað) og vörsluaðilum séreignarsparnaðar hins vegar almenna undanþágu frá gjaldeyrishöftum, án þess að opna fyrir erlendar fjárfestingar verðbréfa- og fjárfestingarsjóða.

4. Röksemdir um rýmri heimildir lífeyrissjóða eiga jafnframt við um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði

Í fyrrgreindri tilkynningu Seðlabankans frá 1. júlí sl. koma meðal annars fram eftirfarandi röksemdir fyrir almennri undanþágu til lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar (tilvísanir innan tilvitnanamerkja):

a) „Gjaldeyrisinnstreymi það sem af er þessu ári, ásamt minni óvissu um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af aflandskrónaútboði og nauðasamningum slitabúa, hefur skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri.”

Þessi rök eiga við með sama hætti um mögulega undanþágu vegna sparnaðar í formi verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.

b) „Í ljósi rúmrar stöðu forða, áframhaldandi gjaldeyrisinnstreymis og þess að óvissan um hversu miklum gjaldeyrisforða yrði ráðstafað í aflandskrónuútboðinu er ekki lengur til staðar, hefur svigrúm Seðlabankans til þess að hækka heimildir lífeyrissjóðanna til erlendra fjárfestingar aukist.”

Sömu rök eiga við um mögulega undanþágu vegna sparnaðar í formi verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.

c) „Eins og áður eru rökin fyrir undanþágunni þau að þjóðhagslegur ávinningur fylgir því að gera lífeyrissjóðunum kleift að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum og minnka uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf þeirra þegar fjármagnshöft verða losuð á innlenda aðila. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum við losun fjármagnshafta.”

Nákvæmlega sömu rök eiga við í tengslum við mögulega undanþágu vegna sparnaðar í formi verðbréfasjoða og fjárfestingarsjóða, enda fylgir þjóðhagslegur ávinningur því að gera verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum kleift að bæta áhættudreifingu og minnka uppsafnaða erlenda fjárfestingarþörf þegar fjármagnshöft verða loks losuð. Það myndi einnig draga úr hættu á óstöðugleika við losun hafta.

d) „Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni.”

Sama má segja um mögulegar heimildir verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Heimildir til þeirra myndu hafa hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðuna og slíkar heimildir myndu jafnframt draga úr þörf til gjaldeyriskaupa síðar meir.

5. Gróft brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins

Það er mat GAMMA að sú staðreynd að verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum hafi ekki þegar verið veitt almenn heimild til fjárfestinga erlendis, með sama hætti og í sambærilegum hlutföllum við lífeyrissjóði og vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar, feli í sér gróft brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sem m.a. er lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

6. Sjóðir GAMMA í stakk búnir til fjárfestinga erlendis

Einn þeirra fjárfestingarsjóða sem GAMMA stýrir, GAMMA: Total Return Fund, hefur nú þegar heimildir (í reglum staðfestum af Fjármálaeftirlitinu) til fjárfestinga erlendis, auk þess sem GAMMA hefur hafið starfsemi í London á grundvelli starfsleyfis síns á Íslandi og er í samstarfi við tvö af stærstu eignastýringarfyrirtækjum í heiminum, GAM (áður Julius Baer) og PIMCO, í tengslum við fyrirhugaðar fjárfestingar fyrir viðskiptavini sína og sjóði þegar höftum verður aflétt.

Sérfræðingar GAMMA hafa lagt áherslu á áhættudreifingu fjárfestingarsafna og í því felst að mikilvægt er að hluti fjárfestinga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, til að mynda dreifðra eignastýringarsjóða á borð við GAMMA: Total Return Fund, séu í erlendum eignum. Í ljósi þess sem að framan greinir er GAMMA nú þegar í stakk búið til fjárfestinga erlendis fyrir viðskiptavini sína, um leið og heimild fæst til þess.

7. Afnám gjaldeyrishafta

Það er ennfremur mat GAMMA að aðstæður í hagkerfinu séu nú með þeim hætti að hraða ætti afnámi gjaldeyrishafta í heild sinni, eins og frekast er kostur. Engar forsendur eru fyrir áframhaldandi höftum við núverandi aðstæður. Krónan hefur styrkst undanfarna tólf mánuði þrátt fyrir gjaldeyriskaup Seðlabankans. Stærð gjaldeyrisforðans er gríðarleg og heildarkaup Seðlabankans á gjaldeyri á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2016 námu til að mynda meira en 6% af vergri þjóðarframleiðslu og Seðlabankinn hefur spáð mjög jákvæðum greiðslujöfnuði við útlönd fram til 2018.

Áframhaldandi gjaldeyrishöft geta haft verulega skaðleg áhrif til langs tíma litið á samkeppnishæfni landsins og komið í veg fyrir eðlilega áhættudreifingu fjárfesta, almennings sem og stofnanafjárfesta, ekki síst þegar litið er til þess að krónan er minnsta sjálfstæða mynt í heimi. Rétt er að minna á að fátt er eins kúgandi og höft á fjármagnsflutninga, enda leiða þau til þess að sjálfsaflafé landsmanna sé sett í gíslingu stjórnvalda.

8. Krafa um almenna undanþágu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða til samræmis við heimildir lifeyrissjóða og vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar

Gerð er krafa um það með bréfi þessu að Seðlabankinn bæti án tafar úr því misræmi sem hér að ofan hefur verið lýst, með því að gefa út almenna tilkynningu um heimildir verðbréfa- og fjárfestingarsjóða til fjárfestinga erlendis í gjaldeyrishöftum, í réttu hlutfalli við þær heimildir sem lífeyrissjóðir og vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar hafa fengið, þannig að fulls jafnræðis verði gætt á milli þessara sparnaðarforma um sameiginlega fjárfestingu. Verði það ekki gert áskilur GAMMA sér rétt til að grípa til frekari aðgerða, þar á meðal með málshöfðun og kvörtun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.

Virðingarfyllst,
f.h. GAMMA Capital Management hf.
Gísli Hauksson, forstjóri

Afrit: Fjármálaráðherra

Senda grein