Fréttir



GAMMA gerist bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags

18.3.2016 Samfélagsmál

GAMMA gerist bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags til næstu fjögurra ára og styrki félagið um 20 milljónir króna á því tímabili.

GAMMA Capital Management og Hið íslenska bókmenntafélag skrifuðu undir samstarfssamning fyrr í vikunni í Gallery GAMMA þess efnis að GAMMA gerist bakhjarl félagsins til næstu fjögurra ára og styrki félagið um 20 milljónir króna á því tímabili.

Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað árið 1816 og hefur starfað óslitið síðan og fagnar því tveggja alda afmæli á árinu. Tilgangur Bókmenntafélagsins í þau 200 ár sem það hefur starfað er að styðja og styrkja íslenska tungu, bókvísi og menntun og heiður hinnar íslensku þjóðar, bæði með bókum og öðru eftir því sem efni þess fremst leyfa. Félagið hefur gefið út tímaritið Skírni frá árinu 1827 og er það eitt elsta menningartímarit á Norðurlöndum.

Meginmarkmið samningsins er að styðja við útgáfu félagsins og gera því kleift að halda upp á afmælisárið með sérstökum viðburðum og útgáfustarfi, sem og að efla starf þess til framtíðar litið. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp á kynningarfundi í höfuðstöðvum GAMMA að Garðastræti 37 og sagði í tilefni af undirritun samstarfssamningsins „viðskipti og menning geta ekki þrifist án hvors annars. Það er því rétt sem Gísli Hauksson segir að með stuðningi sínum við bókmenntafélagið sé félagið í raun að rækta bakgarðinn.“

Ennfremur léku hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, leiddir af Nicola Lolli, konsertmeistara hljómsveitarinnar, strengjakvartett í E-dúr eftir Franz Schubert, frá stofnári Bókmenntafélagsins, 1816.

Við sama tækifæri kynnti Jón Sigurðsson, forseti félagsins, nýja Twitter-síðu bókmenntafélagsins, @bokmenntafelag, og birti fyrstu færslu félagsins á þeim vettvangi, en hún hljóðaði svo: „Hér hefjast næstu tvö hundruð ár í sögu Hins íslenska bókmenntafélags.“

Jón Sigurðsson, forseti Hins íslenska bókmenntafélags, sagði við undirskrift samningsins: „Það er mikilvægt fyrir félag eins og bókmenntafélagið að fá stuðning frá atvinnulífinu enda er hlutverk félagsins að styðja við íslenska tungu með bókaútgáfu og viðburðum til menningaauka sem gefa ekki endilega fjárhagslegan ábata. Ég vil þakka GAMMA fyrir þennan höfðinglegan stuðning. Það hefur vakið athygli að GAMMA hefur um skeið styrkt Sinfóníuhljómsveit Íslands með rausnarlegum hætti og heldur nú áfram á þeirri menningarbraut með stuðningi sínum við Bókmenntafélagið. Þetta er fordæmi til eftirbreytni.”

„GAMMA hefur í gegnum árin stutt ötullega við listir og menningu og við teljum mikilvægt að standa vörð um þessa elstu menningarstofnun landsins og þann menningararf sem fólginn er í starfsemi hennar. Það er því mikill heiður fyrir okkur að gerast bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags,“ sagði Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management.

Senda grein