Fréttir



Mikil tækifæri í Bretlandi

7.11.2017 Skoðun

„Bretar eru uppteknari af árangri landsliðsins og uppgangi ferðaþjónustunnar en hruninu,“ sagði Gísli Hauksson á vel sóttum morgunverðarfundi GAMMA og Bresk-íslenska viðskiptaráðsins um fjárfestingarumhverfið í Bretlandi.

Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA og forstjóri GAMMA í London, flutti erindi um fjárfestingarumhverfið í Bretlandi á vel sóttum morgunverðarfundi GAMMA föstudaginn 27. október sl. Fundurinn var haldin í Gallerý GAMMA í höfuðstöðvum félagsins í Reykjavík.

Gísli rakti á fundinum þau miklu tengsl sem verið hafa á milli Íslands og Bretland, allt frá því að Melkorka, móðir Ólafs pá, var seld frá Írlandi til Íslands eins og frá greinir í Laxdælu, viðskiptum í gegnum aldirnar, hernámi Breta í seinni heimsstyrjöldinni – og fram til dagsins í dag. Gísli sló á létta strengi í upphafi erindis síns og minnti á leik Íslands og Englands sem fram fór í 16 liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu sl. sumar, þar sem Ísland bar sem kunnugt er sigur úr bítum.

Gísli sagði að fjölmargir Bretar væru enn að tala um þennan leik, en það sem kæmi þar skemmtilega á óvart var virðing þeirra fyrir íslenska landsliðinu. Hann sagði að svipaða sögu mætti segja af breskum fjárfestum og aðilum í viðskiptalífinu á Bretlandi. Sá misskilningur væri algengur að Bretar hefðu horn í síðu Íslendinga eftir bankahrunið 2008, Icesave deiluna og fleira – en svo væri alls ekki.

Uppteknari af árangri landsliðsins

„Bretar eru uppteknari af árangri landsliðsins og uppgangi ferðaþjónustunnar en hruninu,“ sagði Gísli. „Almennt finnst Bretum að við höfum brugðist rétt við eftir hrun, ólíkt þeim sjálfum. Margir aðilar í bresku viðskiptalífi telja að bresk stjórnvöld hafi í raun hent slæmu fjármagni á eftir góðu í þeirri von að bjarga þarlendum fjármálastofnunum.“

Tengslin milli landanna er í dag mikil. Árið 2016 komu hingað til lands um 316 þúsund breskir ferðamenn og á komandi vetri verða um 140 flug á hverri viku á milli landanna. Bretar eru þriðja stærsta viðskiptaland Íslands, um 17% alls fiskútflutnings Íslands var neytt í Bretlandi á árinu 2016 og samanlagður innflutningur og útflutningur til Bretlands er um 102 milljarðar króna á ári.

Alþjóðleg starfsemi GAMMA

Í erindi sínu rakti Gísli aðdraganda þess að GAMMA opnaði skrifstofu í London árið 2015. Hann sagði að það hefði legið beinast við að opna skrifstofu í Bretlandi í ljósi mikilla tengsla landanna og í ljósi þess hve mikil reynsla væri af fjármálaviðskiptum í Bretlandi. GAMMA hefur á þessu ári opnað tvær starfsstöðvar til viðbótar - í New York í Bandaríkjunum og Zurich í Sviss. Starfsemi félagsins er því orðin töluverð erlendis, sem nýtist bæði íslenskum viðskiptavinum GAMMA sem vilja fjárfesta á erlendum mörkuðum sem og erlendum viðskiptavinum sem hafa áhuga á því að fjárfesta á Íslandi.

Gísli benti á að hér á landi væri innan við 18% sparnaður landsmanna bundinn í erlendum eignum, sem er umtalsvert minna en gerist og gengur í nágrannaríkjum okkar, hvort sem er í Skandinavíu eða á meginlandi Evrópu. Eðli málsins samkvæmt spiluðu fjármagnshöftin sem voru í gildi frá árinu 2008 þar mikið hlutverk og enn væri mikið verk óunnið við að dreifa áhættunni í sparnaði og fjárfestingum með því að fjárfesta erlendis.

Þá rakti Gísli einnig þá þjónustu sem GAMMA, í samstarfi við hina ýmsu samstarfsaðila, bjóða viðskiptavinum sínum. Má þar nefna aðgang að miklu úrvali sjóða og annarra fjárfestingarkosta, ráðgjöf og umsýsla, aðstoða við fasteignakaup, samningagerð, stofnun reikninga, varsla fjármuna o.s.frv. Í erindi sínu hrósaði Gísli sérstaklega íslenska sendiráðinu í London sem og breska sendiráðinu hér á landi. GAMMA á í miklu samstarfi við sendiráðin og þau hafa einnig veitt mikla aðstoð við tengslamyndun og aðra þjónustu, bæði við innlenda og erlenda aðila.

Tækifærin í Bretlandi

Gísli vék máli sínu að Bretlandi og þeim tækifærum sem þar eru til staðar. Hann benti á að raungengi breska pundsins væri nú mjög hagstætt í sögulegu samhengi. Það hefði í för með sér að töluverður verðmunur væri á Íslandi og Bretlandi, sem einnig skýrist af því að íslenska krónan er sterk um þessar mundir á meðan breska pundið er veikt. Gísli rifjaði upp að fyrir Brexit kosningarnar í fyrra hefði breska pundið þegar verið í sögulegu lágmarki en síðan lækkað um önnur 18% að kosningum loknum. Gísli sagði að þetta skapaði mikil tækifæri fyrir erlenda fjárfesta sem hafa hug á því að fjárfesta í Bretlandi, hvort sem er í gjaldeyri, verðbréfum, á fasteignamarkaði eða öðrum eignum.

Gísli rifjaði upp að margir hefðu búist við fasteignahruni í kjölfar Brexit kosninganna en það hefði þó ekki orðið raunin. Þvert á móti hefði fasteignaverð hækkað töluvert, og þá sérstaklega í London þar sem nýbyggingar væru enn langt undir áætlaðri húsnæðisþörf. Þá hefði hagvöxtur verið meiri í Bretlandi en á evrusvæðinu auk þess sem atvinnuleysi hefði minnkað hraðar. Breska hagkerfið hafi þannig sýnt mikinn viðnámsþrótt á undanförnum árum.

Gísli fjallaði einnig um vaxtastefnu Englandsbanka, sem fram undir árið 2008 hélt vöxtum í hærra lagi miðað við önnur ríki en fór mun hraðar en aðrir í vaxtalækkanir eftir árið 2008. Síðan þá hafa vextir í Bretlandi verið lágir, um 1%, í þeim tilgangi að örva hagkerfið þar í landi.

„Við erum svo upptekin að því að það hafi orðið hrun á Íslandi að við gleymum því að það varð hrun út um allan heim,“ sagði Gísli í erindi sínu.

Fjölbreytt verkefni

Undir lok erindis síns fjallaði Gísli um nokkur af þeim fjárfestingarverkefnum í Bretlandi sem sjóðir í eigu GAMMA hafa tekið þátt í. Þar má m.a. nefna byggingu íbúða, stúdentagarða og dvalarheimila auk þess sem fjárfest hefur verið í framleiðslu- og sölufyrirtækjum. Hann fjallaði einnig um önnur tækifæri sem í boði væri fyrir íslensk fyrirtæki í Bretlandi, til að mynda kauptækifæri, aðgangur að fjármögnun og fleira. Fyrirtækjaráðgjöf GAMMA hefði á síðustu misserum aðstoðað sífellt fleiri fyrirtæki í því að stunda erlend viðskipti.

Loks benti Gísli á að mikill áhugi væri á Íslandi meðal breskra fjárfesta sem og annarra erlendra fjárfesta, mun meiri en nokkurn tímann áður.

Screen-Shot-2017-11-07-at-12.48.52

Senda grein